Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi hugleiðingu: ,,Þurfa nýyrði að gera grein fyrir sér? – Þannig spurði Sigurður Nordal í eina tíð og taldi svo ekki þurfa að vera. Hann velti fyrir sér hvaða nafn hesti yrði gefið, ættum við ekki fyrir heiti á þeirri tegund. Nýyrði flæða með hraða tæknibreytinga inn í öll tungumál. Í mörgum þeirra er látið duga að taka upp enska orðið og ef til vill aðlaga það örlítið.
Íslendingar hafa farið aðra leið, en það eru þó undantekningar, og þá þegar enska orðið smellpassar, eins og sagt er, að íslenzkri málvenju, svo sem um símbréfið (facsimile), sem hlaut fljótt íslenzk/enska heitið ,,fax’’ – enda hæfði það vel, þar sem skírskotun var í þarfasta þjóninn, og faxið varð fljótt þarfur þjónn á skrifstofum.
Nú er iðulega sagt í fréttum frá svokölluðum ,,snjallsímasmáforritum” – en á ensku er það nefnt *app* (komið af orðinu ,,application”). ,,Snjallsímasmáforrit’’ er kauðslega langt orð og óþörf tæknileg lýsing. ,,App’’ fellur hins vegar vel að íslenzku máli, líkt og ,,kapp’’ eða ,,happ’’ og þótt þau finnist vart í fleirtölu, myndi það ekkert hljóma illa að tala um ,,öppin’’ í símanum.”
Stundum finnst manni gæta útþynningar í málnotkun. Fyrir allmörgum árum heyrði ég iðulega talað um að ,,lystiskip’’ kæmu til landsins, enda lýsir það vel munaði um borð. Nú hefur þetta fallega orð vikið fyrir lengra og óþjálla orði, ,,skemmtiferðaskip’’ Þá hefur hið ljómandi íslenzka orð ,,veira’’ horfið að mestu fyrir hrárri, enskri mynd þess, ,,vírus.’’
Íslenzk tunga er hljómfagurt mál, þegar hún er vel töluð eða rituð. Ég legg til að nýyrðanefnd fái ljóðskáld í lið með sér að taka saman nýyrðalista, bæta hann og fegra”. Molaskrifari þakkar Bjarna kærlega fyrir þessa góðu sendingu.
Margsinnis var sagt í fréttum Ríkisútvarps (12.06.2012) Talið er að ekkert samkomulag hafi tekist .. (verið var að fjalla um afgreiðslu mála á hinu háa Alþingi). Kannski er það sérviska Molaskrifara en hann er ekki alveg sáttur við þetta orðalag. Hefði talið betra að segja: Ekki er talið að samkomulag hafi tekist, ekki lítur út fyrir að samkomulag hafi tekist. Hvað segja lesendur. Líklega snýst .þetta um smekk.
Eignarfall eintölu með greini af orðinu þjóðgarður er ekki þjóðgarðarins eins og sagt var í morgunþætti Rásar tvö (13.06.2012) heldur þjóðgarðsins.
Enska orðið band í merkingunni hljómsveit virðist á góðri leið með að vinna sér þegnrétt í íslensku. Þáttastjórnendur í útvarpi tala stundum um big band, og er þá einkum átt við stórar jasshljómsveitir sem svo ágætlega hafa verið kallaðar stórsveitir. Umsjónarmaður morgunútvarps Rásar eitt sagði (13.06.2012) að sumir teldu harmónikkuna vera eins manns band. Hvað er að orðinu hljómsveit?
Í tíu fréttum Ríkissjónvarps (12.06.2012) var sagt: Mótmælin fóru vel fram , þrátt fyrir mikinn viðbúnað. Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að hann áttar sig ekki á samhenginu eða hugsuninni í þessari setningu. Raunar virðist bæði skorta samhengi og rökrétta hugsun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jens Guð skrifar:
16/06/2012 at 01:35 (UTC 0)
Það er rétt þýtt að kalla „big band“ stórsveit. Nánari skilgreining er að um sé að ræða djasshljómsveit með 12 eða fleiri hljóðfæraleikurum; að uppistöðu til blásturshljóðfæraleikurum. Hefð er fyrir því að „big band“ sé 17 manna hljómsveit. En ekki föst regla. Ein merkasta stórsveit heims er rekin af danska útvarpinu og telur 25 manns. Sú hljómsveit gerði plötuna „Tröllabundin“ með færeysku söngkonunni Eivöru fyrir nokkrum árum.
Eiður skrifar:
15/06/2012 at 17:33 (UTC 0)
Mig rámar í merka og langa ritdeilu um vírus og veiru. Takk fyrir ábendinguna, Þorvaldur.
Eiður skrifar:
15/06/2012 at 17:32 (UTC 0)
Kærar þakkir , ‘Oskar. Mér finnst það vera nokkuð jafngilt að tala um samkomulag hafi náðst og að samkomulag hafi tekist um e-ð. Þetta varð líklega smekk. Ábót finnst mér fínt orð yfir app.
Eiður skrifar:
15/06/2012 at 17:30 (UTC 0)
Kærar þakkir, Þorgils Hlynur. Þáþrá fínst mér fínt orð.
Þorvaldur S skrifar:
15/06/2012 at 13:41 (UTC 0)
Af því minnst var á vírus og veiru væri ekki úr vegi að rifja upp grein Vilmundar landlæknis, Vörn fyrir veiru, um muninn þar á. Má lesa um þetta í Frjálsri þjóð frá 1955. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=311&lang=is
Óskar skrifar:
15/06/2012 at 11:41 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Er ekki talað um að ná samkomulagi, að samkomulag hafi náðst, ekki tekist.
App fer eitthvað í taugarnar á mér. Ábót er ágætis lýsing á því sem um ræðir.
Þakka skemmtilega og fræðandi pistla,
Óskar
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:
15/06/2012 at 10:37 (UTC 0)
Sæll Eiður! Þakka þér enn og aftur fyrir góða málfarspistla þína. Þú talar þarna um samband enska orðsins band og íslenska orðsins hljómsveitar. Nú eigum við ágætt orð yfir „instrument“ sem er hlóðfæri. Sumt útvarpsfólk hefur verið í vandræðum vegna enska orðsins „instrumental“ þar sem það á við um tónlist þar sem aðeins er leikið á hljóðfæri. Væri ekki alveg kjörið að kalla slíka tónlist hljóðfærða tónlist? Lýsingarorðið „hljóðfærður“ mætti alveg gera samstofna orðinu hljóðfæri alveg eins og „instrumental“ er leitt af orðinu „instrument“.
Svo var það annað: Mér var að dett í hug hvort ekki væri hægt að kalla „nostalgíu“, sem sumir kalla fortíðarþrá, kannski söknuð eftir liðinn tíma, einfaldlega þáþrá, sem er stutt og þjált orð. Enn og aftur þakka ég fyrir frábæra pistla þína um málfar og miðla og sendi mínar bestu kveðjur. Með vinsemd og virðingu, Þorgils Hlynur Þorbergsson.