«

»

Molar um málfar og miðla 933

Þröngsýni stjórnenda Ríkissjónvarpsins hefur opinberast og kristallast í þeirri staðreynd að í vikunni sem senn er liðin hefur verið fótbolti á dagskrá Ríkissjónvarpsins fimm klukkustundir á dag, dag eftir dag. Stjórnendur annarra norrænna ríkisstöðva hafa víðari sjóndeildarhring og vita að þeir hafa skyldur við fleiri en þá eina sem hafa gaman af fótbolta. Það vita stjórnendur í Efstaleiti ekki. Þá væri dagskráin ekki svona. Á norrænu stöðvunum sem við sjáum hér á landi hefur fótboltinn verið í hóflegum skömmtum. Á Íslandi hefur verið sett Norðurlandamet í því að fylla dagskrána af fótbolta og innihaldslausu fótboltafimbulfambi.

Úr fréttum Stöðvar tvö (13.06.2012): Fyrir þessa fjárhæð væri hægt að fjármagna tvö Vaðlaheiðargöng. Orðið göng er fleirtöluorð. Þessvegna hefði átt að tala um tvenn Vaðlaheiðargöng. Úr sama fréttatíma: … en alls verður 77 trjám plantað eða eitt fyrir hvert fórnarlamb. Hér hefði fréttamaður átt að segja: … en alls verður 77 trjám plantað eða einu fyrir hvert fórnarlamb.

Bjarni Dagur sendi eftirfarandi línur: ,,Sæll Eiður.
– ég heyri aftur og aftur þetta; að stíga á stokk og taka lagið.

Síðast sagði fréttamaður RUV frá setningarathöfn Ólympíuleikanna í London þar sem Paul McCartney mun stíga á stokk og syngja !

Gjarnan þegar sagt er frá skemmtunum eða uppákomum er þetta orðalag viðhaft: s.s hljómsveitin Ný Dönsk mun stíga á stokk, Bubbi Mortens steig þá stokk og flutti nokkur lög…

Ég hef leitað á netinu og margt má þar finna um stokk og stokka og steina, en ekkert af því tengist að flytja tónlist eða skemmtiatriði.
Það sem er eftirminnilegast að ég veit um orðtakið „að stíga á stokk“ er sennilega heitstrenging Jóhannesar á Borg vegna konungsglímunnar sumarið 1907 á Þingvöllum. Jóhannes er sagður hafa á fundi í ungmennafélagi Akureyrar í janúar það ár „ stigið á stokk og strengt þess heit að halda þar velli, hverjum sem væri að mæta, ella lítilmenni heita“. Þótti sumum þau ummæli nokkuð digurbarkaleg ! -sveitungi hans stökk þá fram og steig á stokk og hét því að verða 100 ára eða liggja dauður ella. ( .. úr æviminningum Jóhannesar á Borg )

Að mínu viti: að stíga á stokk og syngja eða flytja skemmtiatriði.. er held ég ekki rétt” Molaskrifari er hjartanlega sammála Bjarna Degi og þakkar honum bréfið.

Úr mbl.is (14.06.2012): Tafir eru á umferð um Suðurlandsveg rétt austan við Bitru vegna gámaflutningabíls sem lenti utan vegar. Hann hefur líklega flogið og lágt og ekki getað lent á veginum..

Morgunblaðið sem einu sinni var í fararbroddi fjölmiðla þegar að málvöndun kom segir nú í fyrirsögn (14.06.2012)á forsíðu fylgiritsins finnur.is. Helgi Björns meikar ekki marglyttur. Ekki hækkar þetta risið á Morgunblaðinu. Fyrir utan það að Molaskrifari efast um að allir lesendur Morgunblaðsins skilji hvað við er átt. Stundum er eins gott að skilja ekki það sem skrifað er í Morgunblaðið.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>