«

»

Molar um málfar og miðla 934

Pörupiltar á Alþingi er fyrirsögn á leiðara í Morgunblaðinu í dag (18.06.2012). Áréttað skal að ekki er verið að skrifa um þá Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Framsóknarflokksins.
Eftirfarandi er að finna á einhverju sem mbl.is kallar Smartland Mörtu Maríu: „Þegar hún missti af flugi til Bretlands í síðustu viku var Jay-Z nóg boðið, það var strikið sem fyllti mælinn. Það er nýlunda að strik fylli mæli, Venjulega er það kornið sem fyllir mælinn. En málfarssnillingum Morgunblaðsins er ekkert ómögulegt. Þeir láta strik fylla mælinn! Kannski liggur betur fyrir þeim/þeirri sem skrifaði þennan texta að laga kaffi eða smyrja brauð, en skrifa texta fyrir lesendur mbl.is

Ágætur blaðamaður sendi Molum eftirfarandi:
,,Hér að neðan er slóð að frétt á Stöð 2 í gær (13.06.2012), sendi þetta allt svo málið
sjáist í samhengi. Að neðan er rauðletrað atriði, þar sem einfalt atriði er
sett í nánast kansellístíl sem þarf satt að segja umhugsun og einbeittan
vilja til að skilja. Betur færi hér að segja; „ … fylgi sömu öryggisreglum
vegna þjófnaðar starfsmanna“ – eða eitthvað í þeim dúr. Merkileg árátta að
segja einfalda hluti á svona ofhlaðin hátt. Eitthvað í þessa veruna kallaði
Vilmundur landlæknir fífilbrekkustíl.
http://visir.is/thurfa-ad-gangast-undir-itarlega-leit-fyrir-framan-eftirlits
myndavel/article/2012120619554
Allar verslanir keðjunnar bresku, sem eru um fimmhundruð talsins, fylgi
sömu
öryggisreglum en þær eru tilkomnar vegna þess hve hátt hlutfall af allri
rýrnum er starfsmannatengdur.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í fréttum Stövar tvö (14.06.2012) var fjallað um laun bæjarfulltrúa í Kópavogi. Sagt var að laun hefðu lækkað þegar ákveðið hefði verið að afnema tengingu þingfararkaups. Þetta er klaufalega orðað. Rétt var þetta á visir.is þar sem talað var um að afnema tengingu launa bæjarfulltrúa við þingfararkaup.

Stal tveimur bílum og tjónaði, segir í fyrirsögn á mbl.is (15.06.2012). Átt er við að þjófur hafi stolið tveimur bílum og skemmt báða. Sögnina að tjóna, valda skemmdum, einkum á bifreiðum, er að finna í íslenskra orðabók. Þar er þetta talið óformlegt mál. Á ekki heima í fyrirsögn í víðlesnum netmiðli.

Það er stórundarlegt að sumir fréttaskrifarar virðast halda að frumlag setningar þurfi alltaf að vera í nefnifalli. Fall frumlagsins getur ráðist af sögn seinna í setningunni. Í fréttum Stöðvar tvö (14.06.2012) var sagt: Kona sem stökk út úr brennandi húsi er haldið sofandi. Konu er haldið sofandi á þetta auðvitað að vera.
Mbl.is hafði þetta rétt (14.06.2012) , en þar var sagt: Konu sem slasaðist þegar hún flúði brennandi hús í Borgarnesi í nótt er haldið sofandi í öndunarvél … Þetta hefur svo sem heyrst áður , – því miður.

Úr mbl.is (15.06.2012) Veðurstofan spáir heiðskýru um stærstan hluta landsins nú klukkan níu. Grunnskólavilla. Hvar er stafsetningarorðabókin, Moggi sæll? Heiðskírt. Kýrskýrt. – Þetta var reyndar leiðrétt síðar.

Fréttir hafa verið hornreka Ríkissjónvarpinu að undanförnu. Sama gildir um veðurfregnir. Fótboltinn hefur verið í fyrirrúmi og gengið fyrir öllu. Það hefði ekki verið nein ofrausn þótt Ríkissjónvarpið hefði bætt við seinni fréttum þá þrjá daga sem seinni fréttir eru ekki í viku hverri.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Svona er nú vitneskju Molaskrifara um fræðin ábótavant !

  2. Þorvaldur S skrifar:

    „Það er stórundarlegt að sumir fréttaskrifarar virðast halda að frumlag setningar þurfi alltaf að vera í nefnifalli.“
    Það er nú svo að frumlag er ævinlega í nefnifalli. Sé gerandi í setningu ekki í nefnifalli, sbr. t.d. „mér svíður skaðinn“, heitir staða gerandans frumlagsígildi. Frumlag setningar er gerandinn í setningunni, sá sem framkvæmir það sem gert er, sé um germyndarsetningu að ræða. Í þolmyndarsetningu er þolandinn hinsvegar frumlagið, sbr. „drengurinn var svæfður“ og þá verður gerandinn staddur í forsetningarlið; „af föður sínum“. Ef við flettum upp í félaga Merði frá 1985 segir á bls. 247: „…f.[rumlag] er ætíð í nefnifalli.“
    Og hver er sá sem ætlar sér að ganga í berhögg við félaga Mörð? En hver verður þá staða konunnar sé tekið mark á honum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>