«

»

Molar um málfar og miðla 935

Landsbanki Íslands ætti að skipta við auglýsingastofu þar sem menn eru sæmilega að sér í íslensku eða hafa að minnsta kosti góða prófarkalesara.
Í heilsíðuauglýsingum í báðum dagblöðunum í dag (19.06.2012) segir í fyrirsögn: Hlutafjárútboð í fasteignafélaginu Regin hf. lýkur í dag. Hér er einhverskonar fallafælni eða beygingafælni á ferðinni. Fyrirsögnin ætti að vera: Hlutafjárútboði í Fasteignafélaginu Regin hf. lýkur í dag. Einhverju lýkur. Ekki, – eitthvað lýkur.

Bítillinn og snillingurinn Sir Paul McCartney, átti sjötugsafmæli í gær (18.06.2012). Ýmsar sjónvarpsstöðvar heiðruðu hann í dagskrá. Afmælið fór framhjá Ríkissjónvarpinu okkar í Efstaleitinu nema hvað þess var stuttlega getið í fréttum.

Úr dv.is (15.06.2012): Þingflokksfundir standa nú yfir á Alþingi en meðal þess sem er til umræðu eru drög af samkomulagi stjórnarflokkanna og minnihlutans um þinghlé. Hér hefur eitthvað skolast til með notkun forsetninga. Þarna ætti að tala um drög að samkomulagi, ekki drög af samkomulagi.

Svavar Stefánsson þakkar Molaskrif og segir: „Kannski er það sem ég færi hér í tal búið að fá umfjöllun hjá þér og þá verður að hafa það. Það sem fer svolítið í mínar taugar er að fréttamenn, bæði í ljósvakamiðlum og blöðum, virðast hafa gleymt því að við eigum svo falleg orð eins og ,,skipverji“ og ,,flugliði“ um þá sem vinna um borð í skipum og flugvélum. Þess í stað er sífellt talað um ,,áhafnarmeðlimi“. ,,Að sögn eins áhafnarmeðlima var mikil hætta á ferðum“. ,,Að sögn eins skipverja var mikil hætta á ferðum“. Hvort er nú fallegra? Gleymum ekki góðum íslenskum orðum um fólk og hugtök.” Molaskrifari tekur undir með Svavari og þakkar honum bréfið.

Í fyrirsögn í Morgunblaðinu (16.06.2012) segir: Býr yfir stórkostlegum möguleikum þar sem landið er ríkt að orku. Nú má vel vera að þetta sé hárrétt og gott og gilt. Máltilfinning Molaskrifara er engu að síður sú, að hér hefði átt að segja, – ríkt af orku, – ekki að orku. Vera ríkur af einhverju.

Úr mbl.is (16.06.2012): Filippus átti afmæli síðasta sunnudag … Filippus átti afmæli á sunnudaginn var, síðastliðinn sunnudag.

Sýningin opnar í dag, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (16.06.2012) Hann lét þess ógetið hvað sýningin mundi opna. Það er erfitt að hafa þetta rétt.

Trausti segir (17.06.2012): Ég kannast ekki almennilega við notkun hugtaksins „rangar sakargiftir“ í þeirri merkingu, sem reynt er að gefa því í þessari grein:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/06/17/sex_okumenn_teknir_i_borginni/ Orðnotkunin sem Trausti vísar til er eftirfarandi:
Var hann því handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann verður einnig kærður fyrir rangar sakargiftir þar sem hann gaf upp rangt nafn. Maðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku. Þetta er hárrétt hjá Trausta. Sakargift er ákæra , gegnsætt orð, að gefa að sök. Maðurinn sem sagt er frá gaf rangar upplýsingar, sem er allt annað en sakargiftir. Molaskrifari þakkar Trausta sendinguna.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (17.06.2012) var talað um val milli tveggja öfga. Þar hefði að mati Molaskrifara átt að tala um val milli tvennra öfga, eða tvennskonar öfga. Ekki var talin ástæða til að geta þess í fréttum af hátíðahöldum á Austurvelli fyrr um morguninn að Pétur Gunnarsson væri höfundar ávarps Fjallkonunnar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>