Fótboltafíknir stjórendur í Efstaleiti misbeita valdi sínu gagnvart viðskiptavinum Ríkisútvarpsins. Í gær var endursýndur gamall fótboltaleikur, áfram skert fréttaþjónusta og ekkert Kastljós. Hve lengi á þetta að viðgangast? Hvað segir stjórn Ríkisútvarpsins? Hverju stjórnar stjórn Ríkisútvarpsins ohf ? Ekki stjórnendum þessa almannafyrirtækisins , – svo mikið er víst.
Molalesandi þakkar fyrir Molana sem hann segist lesa reglulega. Hann sendi eftirfarandi: ,, Ég held ég hafi verið að hlusta á RUV í morgun þegar sagt var frá því að slys hefði orðið í Borgarfirði og þrástagast á því að báturinn hafi hvolft. Ekki var tekið fram hverju báturinn hvolfdi. Hvolfdi hann bátsverjum úr sér og af hverju gerði hann það. Var bátnum eitthvað í nöp við bátsverjana eða var ,,báturinn kannski í nöp við þá“? Af samhenginu má þó ráða að fréttin hafi verið beinlínis röng og meiningin hafi verið að segja frá því að bátnum hafi hvolft með þeim afleiðingum að bátsverjum stóð ógn af og svo framvegis. Er ekki lengur málfarsráðunautur hjá RÚV? Ef svo er: Er hann kannski ekki í vinnunni fyrir hádegi? (Þetta er almenn spurning og þess ekki krafist að þú svarir henni).” Molaskrifari þakkar sendinguna og veit ekki betur en málfarsráðunautur sé í fullu starfi hjá Ríkisútvarpinu.
Og hér er reyndar meira um sömu frétt: ,,Hef tekið eftir því að margir nota nútíð þegar þeir lýsa löngu liðnum atburðum, gott og vel, en að nota stundum nútíð og stundum þátíð (í sömu setningunni )er ennþá asnalegra. Lýsing fjölskyldumeðlims á atvikinu er svona:
„Það kemur undiralda undir bátinn og hann dettur útbyrðis en bátnum hvolfdi aldrei.“
Óháð því að um alvarlegt mál er að ræða er mestallur fréttaflutningur óritstýrður og illa orðaður.”
Lesandi bætti svo þessu við úr dv.is (19.06.2012): ,,Synjað um skólagöngu.
Karl Olsen segir sér hafa verið hafnað um skólagöngu vegna aldurs.”
Mér var alla vega aldrei ,,hafnað um skólagöngu“
Molaskrifari þakkar þessar athugasemdir.
Annar lesandi sendi þetta af dv.is (19.06.2012):,, http://www.dv.is/frettir/2012/6/19/ok-ut-af-vid-kaldarselsveg/
Samkvæmt fyrirsögn fréttar að ofan var bifreið ekið út af einhverju við Kaldárselsveg.
Af fréttinni má hins vegar ráða, að bifreiðinni hafi í raun verið ekið út af veginum, enda utanvegaakstur bannaður, jafnt við Kaldárselsveg sem annars staðar. Einnig er óljóst út af hverju var unnt að aka þar.”
Snemma að morgni þriðjudags, skömmu fyrir flutning veðurfregna (19.06.2012) heyrði Molaskrifari hluta úr endurteknum þætti, Virkum morgnum á Rás tvö. Þar var allt á sínum stað: Ljótt orðbragð, ambögur og enskuslettur. Undarlegt samtal umsjónarmanna gekk út á að tala illa um og gera lítið úr kvikmyndaleikaranum Tom Cruise sem nú er á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni. Alveg er það dæmalaust hvað dagskrárstjórnendur Ríkisútvarpsins telja að bera megi á borð fyrir hlustendur. Það sakar ekki að gera þá kröfu að fastir þáttastjórnendur kunni almenna mannasiði og kurteisi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/06/2012 at 19:19 (UTC 0)
Algjörlega útlikað að rökræða við mann segir.,,Nei, staðreyndin er sú að fótbolti skipar í raun hverfandi lítinn sess í dagskrá RÚV ef hún er skoðuð heildrænt“ Fimm klukkutímar af frekar ómerkilegum .leikjumum dag eftir dag.Það er mikill misskilningur að ég sé enni um þessa skoðpun. Ég hef horft á nokkra leiki og einkum þá seinni, reyni þá að horfa á enskar norskar danskar Svo sé ekki sífellt verið að segja mér hvað ég sé. á skjánum. Þeir sem lýsa í beinni útsetningu verða líka að kunna að þegja. Þett er sýnt nokkuð víða , en ég talaði við tvö kinnungja míona í bandaríkjunum í dag, Þeir vis ekkert a þessum merka viðburði.
Við vrðum ekki samma sammmála vegna þess að sólin skyggir á á allt nema f’ótbolta, Vég er svo sheppnninn að sólain lýusisr mér á æakavaflega margt fallegt ío ver0linni. Heumurinnn stendur ekki á öndinni, Vinslæt efni vissulega, – ríkis´sröðvarnar á Norðurlönum s´tyna þetta ekki með sama hætti Ríkissjónvarpið hér. Lú þesssu lokið fra´þvér ,. Þakka þér orðaskiptin, stópr styundum- þakka samt.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
29/06/2012 at 23:02 (UTC 0)
Ég hafna því alfarið að ég hafi hér farið með rökleysur. Staðan er einfaldlega sú að ríkissjónvarpið hefur undanfarin ár sinnt beinum útsendingum frá stórmótum landsliða annað hvert sumar í fáeinar vikur í senn. Einkarekin sjónvarpsstöð hér á landi sér um annan fótbolta. Þar eru fíklarnir, Eiður, ekki hjá RÚV, sem verður að gera sér að góðu brotabrot af þeirri fótboltaumfjöllun sem íslenskum „fanatíkerum“ býðst að njóta.
Um er að ræða þrjár til fjórar vikur annað hvert sumar. Um er að ræða beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum sem fjölmargir vilja sjá, sama hvað þú rembist eins og rjúpan við staurinn að halda því fram að heimsbyggðin sé áhugalaus. Íþróttadeild RÚV ræður því ekki hvenær leikir hefjast, né hvenær þeim lýkur. En þú neitar að trúa öðru en því að Bjarni Felixson hafi slík áhrif að láta fótboltaleiki í útlöndum byrja þegar fréttatíminn á RÚV er að hefjast og virðist halda í alvörunni að annars staðar í heiminum geri menn hlé á beinum útsendingum til að segja fréttir af agúrkuuppskeru og hundi sem beit mann.
Þrjár til fjórar vikur annað hvert sumar, Eiður. Inn á milli líða hundrað vikur þar sem þetta „evil empire“ sem þú í þráhyggju þinni virðist halda að íþróttadeild RÚV sé, fái nokkru um það ráðið á hvað landsmenn horfa, kjósi þeir að stilla á rás eitt.
Ég vær alveg til í að taka við þig umræðuna um það hvort yfirhöfuð eigi að sýna frá íþrottaviðburðum á ríkisrekinni sjónvarpsstöð. Til eru áhugaverð rök með og á móti, en hér hefur þú einskorðað umfjöllun þína við órökstuddar dylgjur um valdajafnvægi í Efstaleiti eitt, allt út frá því sem gerist í þrjár til fjórar vikur annað hver sumar. Ef það væri minnsti flugufótur fyrir þessum aðdróttunum þínum, ef það væri í raun svo að íþróttadeild RÚV réði öllu innan húss í Efstaleiti eitt og misbeitti valdi sínu til að neyða landsmenn til að horfa á fótbolta, eins og þú gefur í skyn, væri þá ekki dagskráin í raun öðruvísi en hún er stærstan hluta ársins?
Nei, staðreyndin er sú að fótbolti skipar í raun hverfandi lítinn sess í dagskrá RÚV ef hún er skoðuð heildrænt. Hér mætti fara í umræðu um hvort hlutverk RÚV sé ekki að miðla menningu og hvort íþróttir teljist ekki til menningar, en það væri líklega til lítils að reyna slíka umræðu við mann sem talar í háðskum og hrokafullum tón um „sjálfskipaða sérfræðinga“ sem fara með „þvætting“ mínútum saman í hálfleik og eftir að vítaspyrnukeppni lýkur.
Kaldhæðnislegt að heyra slíkt frá sjálfskipuðum sérfræðingi um málfar sem finnur sig knúinn til að sletta og tala um „fanatíkera“.
Segjum þetta gott að sinni, hr. Eiður. Tökum upp hanskann að nýju sumarið 2014, þegar fótboltakeppnin verður í Brasilíu og því líkur á að leikirnir séu á dagskrá eftir þinn háttatíma.
Ég vona svo þín vegna að úrslitaleikurinn á sunnudaginn ráðist í venjulegum leiktíma svo þú fallir ekki í þá firru að halda að réttast væri að stytta umfjöllun um áhugaverðasta leik keppninnar, sem flestir fylgjast með.
Eiður skrifar:
28/06/2012 at 06:26 (UTC 0)
Það er erfitt að svara rökleysum efnislega. Fimm tímar af fótbolta dag eftir dag eftir dag á ríkiseinokunarrás er óboðleg dagskrátgerð. .
Björn Gunnlaugsson skrifar:
27/06/2012 at 23:37 (UTC 0)
Voðaleg rökþrot eru þetta. Áttu virkilega ekki efnislegt svar?
Eiður skrifar:
25/06/2012 at 09:55 (UTC 0)
Barnalegur og ekki sæmilega skynugur. . Hef svo sem séð það verra!
Les þetta i ljósi þess að fótboltafanatíkererar (afsakið slettuna) hafa alltaf rétt fyrir sér. Við hinir ekki.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
24/06/2012 at 22:55 (UTC 0)
Ekki vera svona barnalegur. Tímasetningar beinna útsendinga frá íþróttaviðburðum erlendis ráðast ekki af duttlungum íþróttafréttamanna á litla Íslandi, það er hverjum sæmilega skyni bornum manni ljóst.
Jón H. Brynjólfsson skrifar:
22/06/2012 at 01:50 (UTC 0)
Sjálfsagt að minna á að Kastljósið hefur verið sent í sumarfrí einn mánuð á ári. Það mun ekki vera fótboltaleikjum að kenna en vitanlega liggur beint við að nota þennan tíma fyrir það frí.
Þorvaldur S skrifar:
21/06/2012 at 20:10 (UTC 0)
„,,Hef tekið eftir því að margir nota nútíð þegar þeir lýsa löngu liðnum atburðum, gott og vel, en að nota stundum nútíð og stundum þátíð (í sömu setningunni )er ennþá asnalegra.“
Þetta eru orð í tíma töluð. Margur bögubósinn hefur komist upp með svoddan hegðun í aldanna rás. Sjáið til dæmis þetta. Hefur einhver séð aðra eins viðurstyggð? „Í þenna tíma vaknaði Höskuldur Hvítanesgoði. Hann fór í klæði sín og tók yfir sig skikkjuna Flosanaut. Hann tók kornkippu og sverð í aðra hönd og fer til gerðisins og sáir niður korninu.“
Þyrfti ekki bara að kjöldraga svona höfunda?
Eiður skrifar:
21/06/2012 at 16:37 (UTC 0)
Það var ofrausn að endursýna leikinn. Alvöru sjónvarpsstöðvar setja metnað sinn í það að hafa fréttir ævinlega á sama tíma. Kasta ekki föstum fréttatímum fram og til baka eftir duttlungum íþróttadeildar. En Ríkissjónvarpið er því miður umfram allt íþróttarás og amerísk vídeóleiga. Það sinnir ekki því hlutverki á svi’i almannaþjónustu sem einkaleyfi þess ( til innheimtu nefskatts) gerir ráð fyrir. Þá væri dagskráin dálítið öðruvísi.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
21/06/2012 at 14:59 (UTC 0)
Ég býst ekki við að það breyti miklu þótt ég ljóstri því upp að „gamli“ fótboltaleikurinn sem var endursýndur hafði verið á dagskrá á hliðarrás daginn áður. Þannig er að reglur keppninnar (ekki fíkn útvarpsstjóra) krefjast þess að síðustu leikir í riðlakeppni mótsins séu spilaðir samtímis, í nafni réttlætisins. Leikur Englendinga og Úkraínumanna var sýndur á aðalrás RÚV en leikur Svía og Frakka (sem þú hefur horft á í endursýningunni) á annarri rás sem ekki allir landsmenn ná í viðtækin sín.
Hefur þér dottið í hug að athuga fjölda auglýsinga í sjónvarpinu þegar beinar útsendingar eru frá EM? Kannski má þar finna skýringu þess hve ríkan sess þetta sjónvarpsefni skipar.
Til að svara spurningu þinni um hversu lengi þetta eigi að viðgangast ætla ég að leyfa mér að giska á 1. júlí en þá lýkur mótinu.
Varðandi skerta fréttaþjónustu, er ekki 2012? Er það ekki löngu liðin tíð að fréttir séu aðeins aðgengilegar almenningi á fyrirfram ákveðnum tíma – sem einhvern tíma miðaðist við mjaltir?