«

»

Molar um málfar og miðla 939

 

Anderson heldur tvo tónleika í Hörpu … , sagði fréttamaður Stöðvar tvö (20.06.2012). Orðið tónleikar er  fleirtöluorð. Þessvegna hefði átt að tala um tvenna tónleika, ekki tvo tónleika. Þetta er í rauninni  sáraeinfalt  en vefst engu að síður fyrir mörgum fréttaskrifurum.

 

Mikilvægt  er að farið sé rétt með orðtök. Í frétt frá Akureyri  í Ríkissjónvarpi (20.06.2012) var  talað um að gera einhverju skóna.  Molaskrifar telur að hér hefði átt að  tala um að gera einhverju skóna, gera ráð  fyrir  einhverju eða búast við einhverju.

 

Þorvaldur Stefánsson í Otradal í Arnarfirði sendi Molum eftirfarandi: ,, Í pistli þínum númer 936 er talað um þyrluna TF-LÍF og málvillur í fréttum varðandi hana. Ég vil benda á að nafn þyrlunnar er ekki TF-LÍF, heldur einungis Líf.
TF-LIF er kallmerki/einkennisstafir þyrlunnar.
Sama gildir um önnur loftför sem hafa 3ja stafa nöfn og hafa fengið úthlutað slíkum kallmerkjum, TF-SYN, TF-GNA, TF-EIR o.s.frv.
Íslenzkar flugvélar hafa 5 stafa kallmerki sem byrja á stöfunum TF, skip 4 stafa kallmerki, radíóáhugamenn 4-6 stafi, TF þar sem á eftir kemur tölustafur og síðan 1-3 bókstafir osfrv.
Hér er hlekkur á skjal sem inniheldur kallmerki íslenzkra skipa (bls 324):
http://www.sigling.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6086

Molaskrifari þakkar Þorvaldi þennan fróðleik.

 

Á dv. is segir (22.06.2012): … áhöfnin var að leggja net úr skipinu …  Eðlilegra hefði hér verið að segja, til dæmis: Verið var að leggja netin …   Hvað segir annars   Reynir Traustason,  ritstjóri og skipstjóri?

 

Í pistlum á dv.is  er  eitthvað sem kallað er Veröldu Tobbu. Þar skrifaði höfundur nýlega um þjófnað úr verslun  í Reykjavík. Verslunin var sögð við Ránagötu! Þetta má auðvitað til sannsvegar færa. En seinna var þetta leiðrétt  því gatan heitir Ránargata. Og heitið tengist ekki  ránum , heldur Rán.

 

Úr mbl.is (22.06.2012): Yfirmaður sölu- og markaðsmála hjá Skoda, Jürgen Stackmann, var á Íslandi fyrir stuttu. Það er ekki á hverjum degi sem slíkir kappar eru í heimsókn,  …  Halló Moggi!. Hér nær  það sem  á vondu máli mætti kalla próvinsublaðamennsku nýjum hæðum!

 

Svolítið um landafræði.Úr mbl.is (21.06.2012): Samkvæmt frétt Berlingske var þotunni, Airbus 330, sem var á leið frá Newark-flugvelli í New York til Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn,  lent á Bangor-alþjóðaflugvellinum í Kanada …  Bangor flugvöllurinn er  reyndar í Maine og Maine er í Bandaríkjunum ekki Kanada.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þitt ágæta bréf , Nikulás Helguson. Hrörnun er það, sv sannarlega.

  2. Nikulás Helguson skrifar:

    Í pistli nr. 938 greinir þú okkur frá lélegu talmáli í Ríkisútvarpinu.
    Dæmin voru alveg hrođaleg. En þetta er eins og húsleki, erfitt ađ
    komast fyrir þessi mállýti, nema gripiđ verđi til róttækra ađgerđa.
    Guđni Kolbeinsson hafđ fyrir eina tíđ umsjón međ þætti um daglegt mál
    í Ríkisútvarpinu. Í einum þáttanna varđ honum á ađ beygja orđiđ lækur, rangt.
    Sagđi „læks“ í stađ lækjar. Kom í fréttum í Mbl. ađ Guđni hafi fariđ beint upp til 
    Útvarpsstjóra eftir flutning þáttarins og sagt upp umsjóninni međ þættinum.
    Hann hætti reyndar ekki, því Halldór Laxness greip í taumana međ stuttri blađagrein.
    Ekki man ég nákvælega dagsetningar í þessu sambandi, en gaman væri ađ rifja 
    þetta mál upp af gefnu tilefni. Einu sinni var barizt á móti dönskuslettum. Síđan
    tók enskan viđ. Kannski eigum viđ eftir ađ lifa þađ ađ blađamenn og þáttastjórnendur
    fari ađ sletta mandarin!?!
    Þá kom þađ fram í eldri pistli frá þér, ađ einhver mannvitsbrekkan hafi sennilega þýtt úr ensku
    „broken homes“ sem brotin heimili. 
    Þegar viđ vorum ungir, þá var talađ um „sundrađar fjölskyldur eđa heimili.“ Getur ekki
    veriđ, ađ þessi hrörnun móđurmálsins eigi rót sína ađ rekja í allt of litlar kröfur, sem gerđar eru til íslenzkukunnáttu í skólum landsins. Og þá á ég viđ bæđ í barnaskólum, á unglinga stigi, í mennta/framhaldsskólum og í háskólum landsins.
    Svokallađir málfarsráđunautar samþykkja allar sletturnar og málfjólurnar og kalla þetta þróun málsins.
    Ég á erfitt međ ađ samþykkja þađ. Ég kalla þetta hrörnun og þađ verđur einhvern veginn ađ stöđva hana.
    Og hana nú!

  3. Eiður skrifar:

    Sæll Sigurður, – mér finnst nú eiginlega þetta sem kallað er Veröld Tobbu vera á mörkum þess að vera birtingarhæft í vefmiðli sem vill teljast alvöru fréttamiðill. Ég hefði hinsvegar ekki ekki nefnt þetta nema vegna þess að orðmyndin Ránagata kom tvisvar , ef ekki þrisvar fyrir í þessum stutta pistli. Það var því greinilega ekki um innsláttarvillu að ræða. Ég nefni aldrei það sem augsýnilega eru innsláttarvillur.. K kv

  4. Sigurður Karlsson skrifar:

    Sæll vertu Eiður.
    Ég má líklega teljast tryggur lesandi Molanna og þykir mér þar oft að finna góðar og gagnlegar ábendingar um málfar í fjölmiðlum, þó að sundum finnist mér þú óþarflega smámunasamur.
    Þannig þykir mér þú heldur lúta að lágu í þessum pistli með athugasemd þinni um það sem þú nefnir „eitthvað sem kallað er Veröldu Tobbu“. Þar vantaði einn bókstaf, seinna r-ið í götunafnið Ránargata, af vangá, fljótfærni en þó hugsanlega fyrir vanþekkingu, sem væntanlega er þá búið að bæta úr fyrst þetta hafði verið leiðrétt eins og þú bendir sjálfur á.
    Nú getur vel verið að ekki hafi verið svo mikið aðfinnsluvert við málfar og miðla að þessu sinni en gæti verið að skýringuna sé að finna í þeirri afstöðu þinni sem mér finnst skína út úr orðalaginu „eitthvað sem kallað er“ eins og það er orðað í þessu „sem kallað er Molar um málfar miðla“?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>