«

»

Molar um málfar og miðla 985

Af mbl.is (18.08.2012): Innanríkisráðherra Filippseyja, Jesse Robredo, er týndur eftir að flugvél sem hann var farþegi í hrapaði í hafið í dag að sögn þarlendra embættismanna. Tveir aðrir eru einnig sagðir vera týndir en flugvélin, sem var af gerðinni Cessna … Það er ekki vel að orði komist að segja um menn sem óttast er að hafi farist í flugslysi að þeir séu týndir. Ef til vill hefur hér verið þýtt úr ensku, …missing .. er saknað.

Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (17.08.20112): Þær voru dæmdar fyrir að hafa raskað almannafriði í Moskvu í dag. Réttara hefði verið að segja: Þær voru dæmdar í Moskvu í dag fyrir að hafa raskað almannafriði.

Þetta var alveg á leiðinni í disaster, – sagði umsjónarmaður í útslitnum og örþreytttum Popppunkti Ríkissjónvarpsins (17.08.2012). Vanda sig. Ekki sletta á okkur.

Molalesandi sendi (18.08.2012) úr Viðskiptablaðinu: Heimildarmyndin Hrafnhildur vekur jafnt hlátur sem grátur hjá áhorfendum og fær 4 stjörnur af 5 í gagnrýni Viðskiptablaðsins. Og bætir við: Æ,æ! Við það er í rauninni engu að bæta.

Í fréttum Stöðvar tvö (18.02.2012) var sagt frá upphafi Menningarnætur í Reykjavík og að flutt hefðu verið lög eftir Ingibjörgu Þorbergsdóttur. Frá því Molaskrifari man eftir sér hefur þessi ágæta listakona aldrei verið kölluð annað en Ingibjörg Þorbergs. Það er alveg ástæðulaust að breyta því.

Í frétt Ríkissjónvarpsins (18.08.2012) um morðin á námuverkamönnum í Suður Afríku var sagt í neðanmálstexta að stjórnvöld sýndu enn enga eftirsjá. Þarna hefði farið betur á því að nota orðið iðrun fremur en eftirsjá.

Það á að vera föst regla í sjónvarpsfréttum að birta nöfn fólks sem þar kemur fram á skjánum, hvort sem um er að ræða fréttamenn eða aðra. Þetta virðist vera mjög handahófskennt í fréttum Ríkissjónvarps. Það er með höppum og glöppum hvort nöfn eru birt á skjánum.

Molaskrifari þekkir ekki mjög vel til leikara í Hollywood eða annarsstaðar og játar að hann vissi ekkert um Russel Crowe fyrr en hann kom til Íslands og varð daglegt umfjöllunarefni fjölmiðla. Það liggur við að hann hafi sett hinn smá og þrönga íslenska fjölmiðlaheim á hliðina. Ríkisútvarpinu (18.08.2012) nægir ekki að kalla Crowe leikara heldur er hann stórleikari sem gert hefur tónlist frá barnsaldri. Merkilegt.

Þýska þáttaröðin Berlínarsaga sem Ríkissjónvarpið sýnir á sunnudögum lofar góðu ef marka má fyrsta þáttinn. Góð tilbreyting frá öllu því ameríska efni sem þar er annars á boðstólum.

Meðal þess sem snemma er kennt enskunámi er framburður orðsins women, – konur. Það er ekki borið fram /vúmen/ . Þeir sem ráða dagskrárkynningum í Ríkissjónvarpinu ættu að leiðbeina Hér-hikk- á Rúv kynninum á hvernig bera á orðið women fram á ensku. Verið var að kynna þátt um Grace Kelly í þáttaröð sem heitir Extraordinary Women.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Særún Ástþórsdóttir skrifar:

    Auðvitað, takk fyrir!

  2. Eiður skrifar:

    Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit.php?id=6277

  3. Særún Ástþórsdóttir skrifar:

    Gætirðu útskýrt og bent á það sem er athugavert við þessa málsgrein sem molalesandi sendi inn:

    Molalesandi sendi (18.08.2012) úr Viðskiptablaðinu: Heimildarmyndin Hrafnhildur vekur jafnt hlátur sem grátur hjá áhorfendum og fær 4 stjörnur af 5 í gagnrýni Viðskiptablaðsins. Og bætir við: Æ,æ! Við það er í rauninni engu að bæta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>