«

»

Molar um málfar og miðla 984

 

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með kosningabaráttunni vestur í Bandaríkjunum er ekki amalegt að geta horft á fréttir NBC á CNBC og fréttir CBS á Sky. Á CNBC kom fram að milljarðamæringurinn Romney borgar rúmlega 13% í tekjuskatt, minna en flestir Bandaríkjamenn í svokallaðri millistétt.

 

Er það ekki brot á lögum um bann gegn áfengisauglýsingum þegar DV (17.08.2012) auglýsir áfengi í heilsíðuauglýsingu frá veitingahúsinu Vínsmakkaranum? Molaskrifari hefði haldið það. Vín mánaðarins og bjór mánaðarins á 700 kr. glasið. Er þetta ekki áfengisauglýsing? Ríkissjónvarpið hefur lengi auglýst bjór og bjórdrykkju óátalið. Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir halda að sér leyfist það.

 

Enn eitt dæmið um nefnifallssýki fjölmiðla. Af mbl.is (17.08.2012): Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur hefur lagt til við menningar- og ferðamálaráð borgarinnar að listaverkið Svarta keilan verði komið fyrir á hellulögðu torgi á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsenstrætis. Hér ætti að standa , ef vel ætti að vera, : …. að listaverkinu Svörtu keilunni verði komið fyrir ….

 

Mál Wikileaks forsprakkans Julians Assange var til umræðu í fréttaskýringaþættinum Newsnight á BBC2 á fimmtudagskvöld (16.08.2012). Assange flúði á náðir sendiráðs Ekvadors eftir að hafa verið látinn laus gegn tryggingu. Hann rauf tryggingarskilmálana og þar með töpuðu vinir hans 20 þúsund sterlingspundum. Ekvador hefur veitt honum það sem þarlendir kalla  ,,diplómatískt hæli” (diplomatic asylum). Bretar sem sitthvað vita um alþjóðamál, segjast aldrei hafa heyrt um ,,diplómatiskt hæli” og ekkert vita við hvað það þýði. Það vill gleymast í umræðunni að þetta mál snýst ekki um Wikileaks, heldur það að Assange hefur verið kærður fyrir kynferðislegt ofbeldi í Svíþjóð. Yfirvöld í Svíþjóð vilja að hann svari nokkrum spurningum. Utanríkisráðherra Ekvadors hefur sagt að réttarkerfinu í Svíþjóð sé ekki treystandi.. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu málsins. Tveir Íslendingar, Birgitta Jónsdóttir alþingismaður og Kristinn Hrafnsson fyrrum fréttamaður hafa tekið málstað Assange upp á sína arma, enda bæði verið í vinnu hjá honum. Birgittu brá aðeins fyrir í þætti BBC. Það er rangt að sem fram hefur komið á mbl.is og dv.is að hún hafi tekið þátt í umræðum í Newsnight-þættinum. Hún sagði nokkrar setningar í vefmyndavél. Tók ekki þátt í umræðum. Einhver hefur gefið netmiðlum rangar upplýsingar. Það er kannski athyglisverðast við þetta mál að íslenskur þingmaður skuli telja mannréttindum betur borgið í Ekvador en í Svíþjóð! Margt gætu íslenskir fjölmiðlamenn lært af þeim sem gera fréttaskýringaþætti fyrir sjónvarpsstöðvar í Bretlandi.

 

Athyglisvert var að heyra í Útvarpi Sögu, hinu sérstaka málgagni Ólafs Ragnars Grímssonar, (16.08.2012) að hlustendum og símavinum stöðvarinnar leyfist ekki að hafa skoðun á því hverjir  þar stjórna þáttum. Mega ekki hafa skoðun á því hvort umsjónarmenn þátta séu starfi sínu vaxnir eður ei. ,,Ykkur kemur það ekkert við”, segir útvarpsstjórinn. Gagnrýni bönnuð, en lofið leyft. Sovéski stíllinn.

 

Dokara sóttur af sjúkrabíl, segir í fyrirsögn á mbl.is (18.08.2012). Dokara er erlendur atvinnumaður í knattspyrnu sem leikur með íslensku félagi. Fyrirsögnin er dæmi um óþarfa þolmyndarnotkun. Sjúkrabíll sótti Dokara hefði verið betra.

 

  Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>