«

»

Molar um málfar og miðla 987

Af mbl.is (20.08.2012): … eins og búast mátti við var veiðin góð en áin er í fínu vatni og allt eins og best verður á kosið,… Molaskrifari getur sér þess til að þegar sagt er að áin sé í fínu vatni sé átt við að hæfilega mikið sé í ánni, ekki of lítið , ekki of mikið.

Molalesandi sendi eftirfarandi (20.08.2012): ,,Mér gengur illa að venjast orðalaginu „að gera að e-u skóna“ sem farið er að nota í fréttum Ríkisútvarpsins. Fólk sem segir og skrifar slíkt veit væntanlega ekki hvað þágufall er.” Mola skrifari þakkar línurnar. Það er því miður æ algengara að heyra talað um að gera að einhverju skóna í stað þess að gera einhverju skóna. Sjá t.d. hið ágæta rit Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 767 .

Af dv.is (20.08.2012) … sagt var frá slysi sem átti sér stað við Sandskeiði … Hér ætti ekki að segja við Sandskeiði , heldur við Sandskeið.

Af mbl.is (21.08.2012): Það væri diplómatískt sjálfsmorð af hálfu Breta ef þeir ætli sér að brjótast inn í sendiráð Ekvador í London til að taka Julian Assange höndum. Aðeins hefði nú mátt orða þetta betur.

Það á ekki að láta það nægja í fréttum eða fréttatengdum þáttum í Ríkisútvarpinu að tala um BUGL (21.08.2012) . Verið var að segja frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í morgunþætti Rásar tvö.

Hér hefur oftlega verið vikið að því hvernig m.a. Ríkissjónvarpið fer á svig við landslög og auglýsir bjór og bjórþamb í tíma og ótíma. Það er gert undir því yfirskini að verið sé að auglýsa léttöl. Orðið léttöl birtist í eina sekúndu eða svo með smásjárletri í skjáhorni. Það er í rauninni allt gert til að fela merkinguna og Ríkissjónvarpið lætur sér það vel lynda. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vill setja undir þennan leka. Það á líka að vera alveg skýrt hvað verið er að auglýsa. Ef orðið léttöl birtist stórum stöfum skýrt og greinilega í bjórauglýsingum væri ekkert við þessu að segja. Orðið léttöl er falið. Þessvegna er hér siglt undir fölsku flaggi í skjóli Ríkisútvarpsins. Fyrirhuguð breyting á lögum miðar ekki því að banna framleiðendum að auglýsa léttöl. Alls ekki. Tilgangurinn er að banna að auglýsa bjór (eins og bannað er skv. íslenskum lögum) undir því yfirskini að verið sé að auglýsa léttöl. Að minnsta kosti þrír núverandi og fyrrverandi þingmenn, þar af tveir fyrrverandi menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hafa lagst gegn því að þessu verði breytt. Gott væri ef hægt væri að taka höndum saman um að koma í veg fyrir lögbrot Ríkissjónvarpsins og vernda um leið börn og unglinga fyrir bjórauglýsingum sem Ríkissjónvarpið treður inn á heimilin í landinu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>