«

»

Molar um málfar og miðla 988

Konráð Erlendsson sendi Molum eftirfarandi (21.08.2012) og segir: ,,Öllu þessu tókst að troða í eina litla frétt á dv.is í morgun:
„…..lögreglumaður er stórslasaður eftir afskipti af ungmennunum.“ (Varla er hann slasaður eftir það eitt að hafa afskipti af fólkinu, frekar eftir viðskiptin við þau eða átökin við þau.)
„DV greindi frá því á dögunum að Jón Þorgeir auk Heiðari Hallssyni gæta kanínanna í Elliðaárdalnum“ (Auk Heiðari Hallssyni!!)
„Í gærkvöldi sauð upp úr og Jón Þorgeir reyndi að stöðva ungmennin“ (Sauð ekki frekar upp úr þegar hann reyndi að stöðva þau, eða var soðið upp úr áður en hann kom til sögunnar?)
„Í tilkynningu sem lögreglan sendi í morgun segir að ökumaðurinn er vistaður í fangageymslu eftir að hann var skoðaður á slysadeild.“ (Segir að ökumaðurinn er vistaður!)
„Jón Þorgeir vill hrósa lögreglunni fyrir að hafa brugðist snöggt við, en þeir voru komnir innan tíðar eftir að hringt var eftir aðstoð.“ (Eitthvað finnst mér notkunin á „innan tíðar“ undarleg þarna. Inna tíðar finnst mér ekki þýða það sama og fljótt eða strax.)

http://www.dv.is/frettir/2012/8/21/gryttu-husradanda-thetta-eru-bara-krakkar-sem-hafa-ekkert-ad-gera “ Ja, hérna, segir Molaskrifari. Nú fær einhver á baukinn, þekki hann Reyni Traustason, ritstjóra rétt.

Fréttir herma að gríðarlegur áhugi sé á kaffihúsum í Suður Kóreu. Það hét í sexfréttum Ríkisútvarpsins (21.008.2012): … æði fyrir kaffihúsum ! Það sér á að enginn les yfir það sem fréttabörnin skrifa.

Það er af hinu góða að ræða um málefni Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans eins og gert hefur verið í morgunþætti Rásar tvö að undanförnu. En í allri vinsemd ekki kalla deildina Böggl eins og Molaskrifara heyrðist að gert væri í morgun (23.08.2012)

Brottrekstur og ráðningar þjálfara hjá íþróttafélögum er íþróttafréttamönnum mikil fréttalind. Þetta eru eilíf frásagnarefni. Líklega hefur tiltölulega lítill hluti áheyrenda áhuga á þessum atvinnumálum þjálfara.
Um tiltekinn leikmann var í íþróttafréttum Ríkisútvarps (21.08.2012) sagt:,, en Tottenham hafði hann á láni á síðustu leiktíð. Átt var við að leikmaðurinn hefði verið lánaður til Tottenham á síðustu leiktíð.

Gaman var að sjá neðansjávarmyndirnar frá Hafrannsóknastofnun af litskrúðugu lífríki á botni Háfadýpis undan Suðurlandi sem báðar sjónvarpsstöðvarnar sýndu okkur á þriðjudagskvöld (21.08.2012). Í fréttatímum beggja stöðva þetta kvöld voru góðar úttektir á málum, svokölluðum Hugverkasjóði Íslands á Stöð tvö og okurfyrirtækjunum sem stunda svokölluð smálánaviðskipti sem virðast einkum beinast að því að skuldsetja ungt fólk og koma því í fjárhagsklandur. Í Ríkissjónvarpinu var svo skemmtileg frásögn af þeim pennavinum Ólafi Ragnari og Jóhönnu Sigurðardóttur. Ólafi Ragnari finnst lítið til vinnuframlags handhafa forsetavalds koma. Hann er líklega búinn að gleyma því að þeir lögðu mikla vinnu í að náða fingralangan alþingismann svo hann gæti farið í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir ekki svo ýkja mörgum árum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>