«

»

Molar um málfar og miðla 989

Löng er hún Miklabrautin,, ef marka má fréttirnar á visir.is. Hún nær allt austur að Skeiðará ! Fyrirsögnin er: Miklabraut við Skeiðarárbrú lokuð vegna umferðarslyss og í fréttinni segir: Loka þurfti Miklubraut við Skeiðarárbrú eftir að nokkrir bílar lentu saman á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar á sjöunda tímanum í kvöld. Nokkrir bílar lentu saman! Bílarnir rákust saman. Hér hefði átt að tala um göngubrúna yfir Miklubraut á móts við Skeiðarvog. Hvaðan kemur fólk sem talar um Skeiðarárbrú á Miklubrautinni? Sjá: http://www.visir.is/miklabraut-vid-skeidararbru-lokud-vegna-umferdarslyss/article/2012120829607

Í frétt um mútur í Ríkisútvarpinu (23.08.2012) talaði þulur um mútuþágu. Hann hefði átt að tala um mútuþægni. Það að vera fús til að þiggja mútur. Enn sér þess stað að enginn les fréttir yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Í sömu frétt var talað um að Ísland hefði gengist við samningi. Átt var við að Ísland hefði samþykkt samning eða gerst aðili að samningi.

Þolmyndarrugl á mbl.is (24.08.2012)¸ Tveir útlendir menn voru teknir af lögreglu í Sundahöfn í nótt. Nú er spurt: Hverjir gerðust svo djarfir að taka tvo útlenda menn af lögreglunni í nótt? Hvaða dólgar voru þar ferð? Hér er auðvitað átt við að lögreglan hafi handtekið tvo útlendinga í Sundahöfn í nótt. Forðist þolmynd í fréttaskrifum. Hér hafa sjálfsagt verið á ferð svokallaðir hælisleitendur sem eiga enga ósk heitari en komast burt frá þessu volaða landi þar sem skattgreiðendur sjá þeim fyrir fæði, húsnæði og vasapeningum.

Af visir.is (22.08.2012): Bandarískt fyrirtæki sem sér um dreifingu á fullorðinsmyndum tilkynnti í gær … Hversvegna ekki að nefna hlutina réttum nöfnum? Hér er fjallað um fyrirtæki sem framleiðir klámmyndir.

Engir meðalbændur í Meðallandi er fín fyrirsögn á mbl.is (22.08.2012).

Rangt var farið með nafn í fréttum Ríkissjónvarps (23.08.2012). Fréttastofu var um megn að segja að rangt hefði verið farið með nafnið. Heldur var sagt í lok frétta og á undan íþróttafréttum: Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að þjóðgarðsvörðurinn í Vatnajökulsþjóðgarði heitir Hjörleifur og hann er Finnsson. Áður var Hjörleifur sagður Finnbogason. Það er óttalega smátt að geta ekki viðurkennt að rangt hafi verið farið með nafn. Það er bara heiðarlegt að segja frá mistökum. Verra er að reyna að fela þau með því að nota óljóst orðalag.

Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn á Rás eitt sem fluttur er að loknum fréttum klukkan sex síðdegis er yfirleitt fróðlegur og til hans ágætlega vandað. Í kynningu á efni þáttarins á miðvikudagskvöld (23.08.2012) var sagt: Kínverjar gætu haft mikinn hag af því að fá þarlend herskip til að taka vistir og vatn á Íslandi. Betra hefði verið að segja : Kínverjum væri mikill akkur í að kínversk herskip fengju að taka vistir og vatn í íslenskum höfnum.

Ríkissjónvarpið heldur áfram að brjóta sínar eigin reglur með því að birta auglýsingar þar sem dagskrárgerðarmaður og stjórnandi fréttatengds þáttar, Andri Freyr Viðarsson, er í aðalhlutverki. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Það er sýndarmennska að hafa reglur sem ekki er farið eftir. Hvað segðu menn ef umsjónarmenn Kastljóss, Sigmar eða Helgi Seljan, væru allt í einu farnir að leika aðalhlutverk í auglýsingum? Segja okkur hvaða kaffi við ættum drekka. Til þess kemur áreiðanlega ekki. Þeir mundu aldrei láta hafa sig í slíkt.

Verðbólga orðanna lék lausum hala í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagskvöld (23.08.2012). Þar voru á ferðinni stórskyttur og stórlið. Í fréttum Stöðvar tvö var svo sagt um leikmann að hann væri greinilega maður stórleikjanna. Stórt skal það vera! Þetta er nú eiginlega hálfhallærislegt að ekki sé sagt stórhallærislegt!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>