«

»

Molar um málfar og miðla 1036

Molalesandi sendi þetta fyrir fáeinum dögum: ,,Ég mæli með að þú lesir greinina um „Bakarí heimsborgarans“ á bls. 6 í Landi og sögu, fylgiriti Morgunblaðsins í gær (laugardag 13.10.2012). Aldrei áður hef ég séð jafn illa skrifaða grein í Morgunblaðinu,” Molaskrifari skoðaði umrædda grein, sem er hreinræktuð auglýsing- ekki blaðagrein, – tekstreklame, eins og Danir segja. Önnur setning í þessari samsuðu byrjar svona: Undanfarin ár hefur bærinn verið í miðju mikilla jarðhræringa og ber stórkostleg náttúrufegurðin allt í kring þess merki Þetta virðist vera skrifað í alvöru og annað er eftir því. Óspart er fólk hvatt til að fá sér hvítvín og rauðvín í bakaríinu. Þessi grein varð Molaskrifara ekki hvatning til að lesa meira í blaðinu. Næsta grein á undan var undir fyrirsögninni: Eftirtektarverð hönnun byggð úr leðri. Það var og. Hönnun byggð úr leðri!

Af mbl.is (16.10.2012): Á vef Víkurfrétta kemur fram að á Garðavegi valt jeppabifreið, en á Sandgerðisvegi valt fólksbíll sem endaði á toppnum utan vegar. Rangt er að tala um Garðaveg. Hér er átt við Garðveg. Rangt er líka að þetta komi fram á vef Víkurfrétta, því þar er réttilega talað um Garðveg.

Atvinnuleysið verður áfram hátt, segir í fyrirsögn á mbl.is (16.10.2012). Atvinnuleysi er hvorki hátt né lágt. Það er mikið eða lítið.

Adolf Ingi Erlingsson íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps fær hrós fyrir að tala við sænskan þjálfara íslenska landsliðsins í knattspyrnu á sænsku. Aðrir íþróttafréttamenn hafa yfirleitt talað við hann á ensku.

Í bílnum hlustar Molaskrifari stundum á Rondó Ríkisútvarpsins, FM87,7. Yfirleitt afskaplega fín tónlist, þótt ekki sakaði reyndar að kynna flytjendur og höfunda. En hversvegna í ósköpunum var íslenski þjóðsöngurinn leikinn þar um tvö leytið á þriðjudaginn (16.10.2012) ? Allt hefur sinn stað og tíma.

Í tíufréttum Ríkisútvarps og Ríkissjónvarps (17.10.2012) var sagt um mann sem ætlaði að sprengju byggingu í New York í loft upp: Talið er að hann hafi verið leiddur í gildru af tálbeitu sem afhenti honum pakka sem átti að innihalda hvellhettu og hálft tonn af sprengjuefni . Það hefur nú verið meiri pakkinn. Þetta var lesið athugasemdalaust í báðum fréttatímum.

Þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, hefur vakið athygli fyrir meðferð móðurmálsins. Sum ummæli hennar hafa orðið fleyg og víða farið. Ekki að ástæðulausu. Þingmaðurinn var gestur í morgunþætti Bylgjunnar á þriðjudagsmorgni (16.10.2012). Vigdís lætur ekkert tækifæri ónotað til að tala illa um hið alvonda Evrópusamband. Hún fræddi hlustendur Bylgjunnar á því að ef Íslendingar gerðust aðilar að ESB þyrftu þeir að greiða 1600 milljarða króna, jafnvirði tíu Kárahnjúkavirkjana og gott ef ekki eins og eitt Icesave til viðbótar í svonefndan Björgunarsjóð ESB. Hún sagðist hafa reiknað þetta og undirbúið sig vandlega! Upphæðin væri 1600 milljarðar sem kæmi í hlut okkar að greiða. Daginn eftir ræddu stjórnendur Morgunþáttar Bylgjunnar við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Þau leyfðu hlustendum að hlýða á ummæli þingmannsins frá deginum áður. Vilhjálmur sagði að Vigdís Hauksdóttir hefði misreiknað sig illilega. Upphæðin væri 160 milljarðar ekki 1600 milljarðar. Þarna skakkaði litlum 1440 milljörðum hjá þingmanninum. Framlag í Björgunarsjóðinn yrði aukinheldur ekki bein útgreiðsla, ekki óendurkræft og væri lægra en lánafyrirgreiðslan sem Íslendingar fengu hjá AGS. En nú vaknar sú spurning hvaða tölu Vigdís Hauksdóttir nefnt ef hún hefði ekki undirbúið sig og reiknað? Þótt andstæðingar ESB svífist einskis og grípi til ósanninda í baráttu sinni er hér líklega um bjánagang að ræða fremur en ásetning, – til þess eru tölurnar of fáránlegar. Og þó. Hver veit?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ekki veit ég, Pétur, hver ber ábyrgð á þessu.

  2. Pétur skrifar:

    Alþingi er stofnun sem allir eiga að bera virðingu fyrir. En það er eins og allir heimskingarnir í landinu séu komnir með langskólamenntun og það er reyndar, að mínu mati, ein af meginástæðum þess hversu illa fór fyrir okkur. Vigdís titlar sig sem lögfræðing, en allar þær ambögur og vitleysa sem kemur úr munni hennar sæma hvorki lögfræðingi né alþingismanni. Ætli hún sé lögfræðingur úr Háskólanum í Reykjavík?

  3. Kristján skrifar:

    Annar íþróttafréttamaður RÚV gerði tilraun til að ræða við hinn sænska þjálfara íslenska landsliðsins í körfubolta. Þetta var fyrir nokkrum vikum, eftir landsleik í Laugardalshöll. Í upphafi viðtals var þó ljóst að íþróttafréttamaðurinn átti í erfiðleikum með sænskuna og Svíinn skipti snarlega yfir í ensku, með skemmtilega sænskum hreim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>