«

»

Molar um málfar og miðla 1037

Fyrrum heimili Sævars Karls til sölu, segir í fyrirsögn á svokölluðu Smartlandi á mbl.is sem betur er þekkt fyrir annað en vandað málfar. Hér er ekki átt við að verið sé að selja heimili heldur hús. Eitt er hús. Annað er heimili.
Tvö dæmi úr heldur klaufalega þýddri frétt á mbl.is (17.10.2012). Þar segir að stúlkan hafi verið á leiðinni heim til föður síns að loknum skóla, sem hún sækir í Mohed, þegar bílstjórinn bað hana um að koma til sín. Við það stöðvaði hann rútuna við vegkantinn. Og: Stúlkan segir aftur á móti að hún vilji ekki sitja í rútu þar sem sami bílstjóri er á bak við stýrið. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/folk/frettir/2012/10/17/thu_ferd_ut_her/
Fín Kilja Egils í Ríkissjónvarpi á miðvikudagskvöld (17.10.2012). Óborganlegt viðtal við áttræðan unglinginn Guðberg Bergsson, – ekki síst það sem hann sagði um Íslendinga og Evrópusambandið. Ekki voru þeir slakir Steinþór Andersen og Hilmar Örn Hilmarsson, – frábær flutningur og smekkvísi í myndstjórn. Góð umræða um nýjar bækur og ekki brást Bragi frekar en fyrri daginn. Utan frétta er Kiljan næstum eina efni Ríkissjónvarps sem Molaskrifari reynir að missa alls ekki af.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (17.10.2012) var orðið fjárkúgun notað í fleirtölu. Samkvæmt vef Árnastofnunar, beygingalýsingu íslensks nútímamáls, er orðið fjárkúgun ekki til í fleirtölu.
Í sjónvarpsauglýsingu um nýjan Volvo er sagt: … skapar eftirtekt allsstaðar. Eðlilegra væri líklega að segja : ….vekur allsstaðar eftirtekt.
Ótrúlega algengt er orðið að sjá sögnina að versla notaða í stað sagnarinnar að kaupa. Það er ekki æskilegt að mati Molaskrifara. Þessar sagnir hafa ekki sömu merkingu. Tvö dæmi sá hann um þetta á fésbókinni með stuttu millibili. Kona sagði: .. og eiga ekki regnhlíf. Verslaði mér eina í dag, … Önnur kona sagðist hafa skroppið til dóttur sinnar og verslað helling af flottum fötum. Báðar fóru konurnar út að versla. Önnur keypti regnhlíf og hin keypti helling af flottum fötum.
Blygðunarlaust brýtur auglýsingastofa Ríkisútvarpsins lögin í landinu (17.10.2012) og auglýsir bjór í sjónvarpi þar sem orðið léttöl birtist í sekúndu með örsmáu letri í skjáhorni. Hversvegna láta yfirmenn Ríkisútvarpsins, yfirmenn útvarpsstjóra, þessa þjóðarstofnun komast upp með að fara á svig við lögin í landinu?
Dálítið klaufalegt orðalag á fréttavef Ríkisútvarpsins (17.10.2012) þar sem talað er um bandaríska jörð, þegar átt er við Bandaríkin: Nafis hefur nú verið kærður fyrir að hafa ætlað að beita gereyðingarvopni á bandarískri jörð … Meira af fréttavef Ríkisútvarpsins sama dag: 21 barnaníðingar voru handteknir í aðgerðum kanadísku lögreglunnar í dag. Sá sem þetta skrifaði hefur greinilega ekki haft nægilega mikil kynni af hinni prýðilegu Handbók um íslensku, sem Jóhannes B. Sigtryggsson ritstýrði en JPV útgáfa gaf út 2011. Þar segir á bls. 244: ,,Í almennum texta skal forðast að hefja setningu með tölu ritaðri með tölustöfum”. Þar að auki hefði segja Tuttugu og einn barnaníðingur … Ekki tuttugu og einn barnaníðingar. Handbók um íslensku ætti að vera á borði hvers einasta manns sem fæst við að skrifa fréttir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mjög sennilegt, Valur. Hann kemur víða við Google, og getur verið til mestu óþurftar.

  2. Valur skrifar:

    „Nafis hefur nú verið kærður fyrir að hafa ætlað að beita gereyðingarvopni á bandarískri jörð“

    Er þetta ekki bara beinþýtt? Í upprunalegu fréttinni hefur líklegast verið talað um „Weapons of mass destruction on American soil“ Það er ekki ólíklegt að Google translate hafi unnið að gerð þessarar fréttar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>