«

»

Molar um málfar og miðla 1050

Molalesandi skrifaði á fimmtudagskvöld (01.11.2012): ,,Ég sit hér og veit vart hvaðan stendur á mig vindurinn. Var að horfa á sjónvarpsþátt í Ríkissjónvarpinu um ,,galgenfogelinn“ sem hefur aðalatvinnu sína af því að stjórna innantómum morgunþáttum en sem aukagetu að láta mynda sjálfan sig í þáttum sjónvarpsins á besta tíma á kvöldin. Andri Freyr heitir maðurinn og þættirnir yrðu best nefndir „Andri Freyr og annað fólk“ því í þættinum, sem var að ljúka, mældi ég stjórnandann sem miðdepil umfjöllunarinnar alls í 87% af tíma þáttarins. Svona „egosentríska“ framkomu þáttastjórnanda minnist ég ekki að hafa áður séð. Þetta er svipað og ef Ómar Ragnarsson hefði gert sjálfan sig að miðdepli mannlífsþáttanna, sem hann stjórnaði og gerði á meðan Ríkissjónvarpið stóð undir nafni sem vönduð sjónvarpsstöð. Vel má vera, að morgunþáttastjórnendur RÚV þurfi aukagetu til þess að eiga fyrir salti í grautinn – en er ekki nokkuð langt gengið að Ríkissjónvarpið leggi í kostnað við það eitt að mynda þá í ýmsum umhverfum og stellingum eins og gert hefur verið við þennan dreng. Fyrir hvern er þetta gert? Fyrir Séð og heyrt – og Andra Frey?
Þetta var afspyrnu vondur sjónvarsþáttur.
Hvar er nú fagmennska sjónvarpsmanna? Hvaða dagskrárstjóri vill vera ábyrgur fyrir svona vitleysu? Hvað er næst? Andri Freyr og Páll Magnússon? Andri Freyr mætir Andra Frey? Andri Freyr og Gunna Dís? Hvílík tilhlökkun!” Molaskrifar þakkar bréfið. Það er vissulega rétt að þessir sjónvarpsþættir snúast meira um stjórnandann en nokkuð annað. Í raun er það sem verið er að sýna okkur aðallega óunnið hráefni. Hér er illa farið með takmarkað dagskrárfé.

Nóbelsverðlaunin fjölguðu meðlimum, segir í dálítið undarlegri fyrirsögn á mbl.is (01.11.2012). Átt er við að félögum í samtökum andstæðinga ESB aðildar í Noregi hafi fjölgað eftir að ESB hlaut friðarverðlaun Nóbels. Meira af mbl.is: ,, … Þetta var mjög „random“, ég veit ekki einu sinni hvort hann fíli mig,“ segir tónlistarkonan Sóley … Molaskrifari segir ekki meir. Er ekki tímabært að hefja baráttu gegn enskuslettum eins og gert var gegn dönskuslettunum á sínum tíma. Nú þykir hallærislegt að sletta dönsku. Það tókst að útrýma dönskuslettunum. Það þarf að gera það hallærislegt að sletta ensku.

Kastljós Ríkissjónvarpsins á að vera alvöru fréttaskýringaþáttur. Kjánagangur eins og svokallaðar Hraðfréttir (01.11.2012) á ekkert erindi í Kastljósið. Alvöru fréttaskýringaþáttur á ekki að vera athvarf fyrir svona efni.

Molalesandi sendi eftirfarandi (01.11.2012): Hér er klausa úr frétt sem birtist á vefmiðlinum 433.is:
,,Nani er leikmaður sem vill taka leikmenn á og við viljum ekki draga það úr honum. En þarna hefði hann getað farið með leikinn að hornfánanum og klárað hann.“ Ætli einhver skilji þetta?
Og hér er sérkennileg fyrirsögn úr Akureyri vikublaði sem ég skil ekki heldur:
,,Vanbúin dekk aukinn slysavaldur“. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Mælt er með góðum Tungutakspistli Baldurs Hafstað í Morgunblaðinu í dag (03.11.2012)
Þegar maður fær það á tilfinninguna að sjónvarpsfólki þyki ekki mikið til norrænnar samvinnu koma, þá veit það ágæta fólk greinilega ekki að norræn samvinna var ljósmóðirin við fæðingu íslenska sjónvarpsins 30. september 1966.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Bárður skrifar:

    Guð minn góður hvað ég öfunda ykkur ekki að lifa svona húmorslausu og leiðinlegu lífi. Nánast allt sem er ekki heimildarþættir og málefnalegur fréttaflutningur er ekki nógu gott fyrir ykkur að setja á ríkissjónvarpið. Það er verið að reyna að ná til heillar þjóðar ekki bara til húmorslausra gamla kalla !

  2. Eiður skrifar:

    Rétt. Dans, dans, dans kemst ekki í hálfkvisti við Andra Frey. Hannn slær allt út. Einhver ætti að segja honum að hætta að tala með munninn fullan af mat. Það hafa aldrei þótt nmannasiðir.

  3. Eiður skrifar:

    Goggunarröðin virðist vera: Íþróttadeild, auglýsingadeild, íþróttadeild. auglýsingadeild, vídeódeild, vídeódeild og vídeódeild-

  4. Eiður skrifar:

    Þú ert sannarlega ekki einn um að vera „afbrigðilegur og húmorslaus“. Það gildir um nær allt Efstaleitið!.

  5. Kristján skrifar:

    Vona að nýr dagskrárstjóri taki á þessum málum. Allt of mikið um svona á RÚV, t.d. íþróttaþátturinn 360°. En flandursþættirnir slá öll met í „egóflippi“.

  6. lesandi skrifar:

    Ég er sammála Molalesanda hvað varðar Andra Frey – kann enganveginn að meta hann. En átta mig jafnframt á því að þetta hlýtur að stafa af einhverri vöntun hjá mér sjálfum. Mikill meirihluti fólks er mjög hrifið af Andra – finnst hann hress og fyndinn. Mér finnst hann vera sjálfumglaður langt um efni fram og ekkert fyndinn.
    Mér hefur heldur aldrei fundist Hemmi Gunn fyndinn. Og þar er ég örugglega í enn meiri ör-minnihluta, því eins og Vala Matt sagði, þjóðin elskar Hemma Gunn. Ég er í svo miklum minnihluta að ég tilheyri ekki þjóðinni.Og til hvers er þá að kvarta. Maður verður að sætta sig við að vera afbrigðilegur og húmorslaus. Hemmi er eflaust ágætis maður – hef ekkert út á hann að setja. Ég get t.d. ekki annað en dáðs að færni hans við að hlæja út úr sér heilum setningum – það eru ekki margir sem ráða yfir þeirri tækni. Og eitt kann ég að meta hjá Hemma. Hann er laus við öll merkilegheit …tilgerð hans er eiungis til þess gerð að reyna að vera fyndinn og hress. Hinsvegar finnst mér viðmælandi hans – í upprifjunarþáttunum sem sýndir voru nýlega – vera merkikerti… einn tilgerðarlegasti maður sem ég hef augum litið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>