«

»

Molar um málfar og miðla 1051

Skemmtileg auglýsing í Garðapóstinum (01.11.2012). Frambjóðandi býður sig fram í fimmta sæti í heilsíðu litskrúðugri auglýsingu. En segir ekki á lista hvaða flokks hann sækist eftir sæti. Telur líkast til að lesendur Garðapósts þekki aðeins einn flokk.

Það hefur greinilega harðnað á fréttadalnum þegar það er orðin frétt að kona fái bréf sem ætlað var alnöfnu hennar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/02/ma_skipa_mann_an_thess_ad_tala_fyrst_vid_mann/ Engu líkara en þetta hafi aldrei gerst áður!

Skrepp í heimsókn til hennar Mjöll Þ vinkonu minnar, skrifar iðinn en ekki að sama skapi vandvirkur Fésbókarskrifari (02.11.2012). Beygingakerfið er á undanhaldi. Skrifarinn ætlaði í heimsókn til hennar Mjallar vinkonu sinnar.

Það er ljóður á ráði fréttastofa beggja sjónvarpsstöðvanna að geta þess bara með höppum og glöppum hvenær verið er að sýna okkur nýjar fréttamyndir eða gamlar myndir úr safni.

Úr frétt á mbl.is (02.11.2012): … en Unnur Gunnarsdóttir, sem ráðin var forstjóri í júlí síðastliðinn, gegndi áður embættinu. .Hér hefði farið betur á því að segja: … sem ráðin var forstjóri í júlí síðastliðnum. Eða í júlí á þessu ári. Ef nefnd hefði verið dagsetning hefði hinsvegar átt að segja: … sem ráðin var forstjóri 15. júlí síðastliðinn…

Fréttamenn eiga að kunna skil á heitum hagsmunasamtaka í landinu sem eru í fréttum næstum á hverjum degi og ekki kalla LÍÚ, Landssamband íslenskra útgerðarmanna eins og gert var í hádegisfréttum Ríkisútvarps (02.11.2012). LÍÚ er Landssamband íslenskra útvegsmanna, ekki útgerðarmanna. Rétt skal vera rétt.

Í óveðursfréttum Stöðvar tvö (02.11.2012) var sagt: Gámar tóku á loft. Gámar tóku ekki á loft. Þeir tókust á loft. Svo er frumatriði í fréttamennsku að kunna skil á því hvað eru aðalatriði og hvað eru aukaatriði. Það kunni ekki sá sem í þessum sama fréttatíma sagði að fólk á Sauðárkróki hefði þurft að afpanta tíma í nuddi og á snyrtistofum!!!

Mörkin milli dagskrárkynninga og auglýsinga í Ríkissjónvarpi verða æ óljósari. Var kynning á svokölluðu ,,Crossfit” móti (02.11.2012) ekki bara auglýsing fyrir fæðubótarefni? Þetta hlýtur að vera athugunarefni fyrir Fjölmiðlanefnd.

Óvenjulega vond bullfyrirsögn var á dv.is (02.11.2012) Íslendingar fá ekki að keppa. Fréttin var að Bloomberg borgarstjóri aflýsti maraþonhlaupinu í New York vegna mikillar gagnrýni. Það hefði hann átt að gera löngu fyrr. Hlaupið átti að hefjast á Staten Island þar sem enn er allt í kaldakoli, hluti leiðarinnar er undir vatni og þurft hefði að beina mörg hundruð lögreglumönnum frá hjálparstörfum til gæslustarfa vegna hlaupsins. Fyrirsögn dv.is var algjört bull.

Stundum er engu líkara en að þeir sem setja saman dagskrá Ríkissjónvarpsins gangi út frá því að enginn eldri en sextugur horfi á Ríkissjónvarpið. Það getur hreinlega ekki verið að tölfræði um áhorf og aldur þeirra sem horfa sé höfð við hendina og til hliðsjónar þegar dagskráin er sett saman.

Áreiðanlega skemmta sér engir jafnvel yfir gömlu Hemma Gunn efni og þeir sem Þórhallur Gunnarsson býður í sjónvarpssal til að horfa á sjálfa sig.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>