Molalesandi sem óskar nafnleyndar þakkar Molaskrif og segir:
,,Nú starfa ég sjálfur við textagerð og er alltaf að reka mig á að orð eru ekki til á íslensku sem eru til á ensku. Líkast til má telja að enskan sé ríkasta tungumál veraldar, jafnan kallað hóra tungumálanna en hvað um það.
Þegar fingur eru fettir út í hverja einustu tilraun til að glæða tunguna einhverju lífi, bæta við orðum sem vísa í ensku, þá er það skotið niður af hreintungusinnum og jafnvel stundum af þér.
Til dæmis er orðið lykilráð orð sem vel á heima í íslenskri orðabók. Lykilatriði hefur verið þar lengi og er þar af leiðandi gagnsætt nýyrði. Þótt lykilráð kallist á við enskuna er það síður en svo verra fyrir það.
Enn fremur eru mörg orð í íslenskunni sem vísa í dönsku, ensku og þýsku. Þau eru viðurkennd af því að þau hafa verið þar lengi. Slík orð eru eitur í beinum sumra hreintungusinna.
Annars þakka ég aftur fyrir skemmtileg skrif og hvet þig til meiri umburðar- og frjálslyndi í garð nýrra orða enda veitir íslenskunni ekki af því að fjölga orðum tungunnar. Hef heyrt að ný orð á ári í íslensku séu um 40 á meðan þau eru um 1200 á ensku. Sel það ekki dýrara.”
Molaskrifari þakkar bréfið. Viðurkennir íhaldssemi, en mun halda áfram andófi gegn því sem honum finnst vera hráþýðingar eða þýðingar þar sem leitað hefur verið á náðir ófullkominna þýðingarvéla eins og Google-leitarvefurinn býður afnot af.
Úr fésbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (02.11.2012): Í augnablikinu er rólegt hjá viðbragðsaðilum en í dag hafa björgunarsveitir leyst yfir 300 útköll.. Hér hefði verið betra að segja að um 300 útköllum hefði verið sinnt.
Athugull lesandi benti á Fésbókarfærslu utanríkisráðuneytisins (02.11.2012) þar sem segir: .. þá kynntu nemendurnir sem koma frá Palestínu, Afghanistan, Úganda og Mósambík .. og segir að betur hefði farið á að segja að nemendurnir væru frá … ekki kæmu frá. Það er rétt athugað. Sami benti á að Ríkissjónvarpinu hætti til að rita heitin mánaðanna með stórum staf sem er ensk stafsetningarregla. Á íslensku ritum við heiti mánaðanna með litlum staf. Þetta er sömuleiðis rétt ábending.
Þegar Molaskrifari las fyrirsögn Reykjavíkurbréfs í sunnudagsmogga (04.11.2012): Eru óhræddir við að vera á móti staðreyndum, hvarflaði það að honum hvort verið væri að skrifa um Nei-klúbbinn, andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. En það var náttúrulega bara barnaskapur að láta sér detta slíkt í hug.
Í gær (05.11.2012) sýndi NRK2 tvær heimildamyndir sem tengdust forsetakosningunum vestra. Fleiri norrænar stöðvar sýndu efni tengt kosningunum. Ríkissjónvarpið okkar bregst algjörlega þegar kemur að sýningu heimildaefnis um sögu og samtímastjórnmál. Það er eins og dagskrárstjórarnir viti ekki að slíkt efni sé á boðstólum. Eða hafi sérstaka andúð á því. Það er hluti af almannaþjónustunni sem Ríkissjónvarpið á að veita að sýna slíkt efni. Það skilja stjórnendur Ríkisútvarpsins hinsvegar ekki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/11/2012 at 23:07 (UTC 0)
Ósammmála. Umfjöllun norrænu stöðvanna sem ég hef horft á hefur verið langtum ítarlegri. Þessar kosningar skipta allar þjóðir máli. Umfjöllun í Efstaleiti hefur verið í lágmarki. Íþróttir og framhaldsþættir hafa þar algjöran forgang.
Axel skrifar:
06/11/2012 at 20:41 (UTC 0)
Ég get ekki séð að það þurfi að bæta við umfjöllun rúv um bandarísku forsetakosningarnar . Reglulegar fréttir af þessu ferli hafa borist allt þetta ár. Beinar útsendingar hafa verið frá kappræðum, auk umræðna og umfjöllunar í Kastljósi, Silfri Egils og útvarpsþáttum. Kosningadagskrá verður svo eitthvað frameftir á kosninganóttina. Allt sem máli skiptir um kosningarnar hefur komið fram. Umfjöllunin hefur í verið mikil. Líkast til meiri en um flestar aðrar erlendar kosningar í seinni tíð. Sérlegir áhugamenn um málið geta með auðveldum hætti nýtt sér alnetið eða keypt sér tímarit.
Varðandi þætti og myndir um samtímastjórnmál og sögu bendi ég á að síðasta miðvikudag var sýndur áleitinn þáttur um teboðshreyfinguna í Bandaríkjunum. Það mætti jú alveg vera meira slíka þætti. En ekkert endilega um þessar blessuðu bandarísku kosningar.
Eiður skrifar:
06/11/2012 at 17:09 (UTC 0)
Það er kannski ástleitið forrit, Glúmur
Glúmur Gylfason skrifar:
06/11/2012 at 16:03 (UTC 0)
Orð „nafnleyndarmannsins“ gefa tilefni til að sýna eftirfarandi klausu úr frétt Eyjunnar í dag sem gæti verið úr þýðingarvél en svo þarf þó ekki að vera:
„Þetta er fyrsta breytingin sem gerð er alveg úr takti við hið einfalda forrit sem notendur elska,“
Þetta er eitt af mörgum dæmum þar sem íslenskt orð er notað að enskum hætti.
Það er ekki langt síðan að Íslendingar spöruðu þetta orð og elskuðu aðeins menn og e.t.v. dýr en nú sumir farnir að elska forrit.
Eiður skrifar:
06/11/2012 at 11:16 (UTC 0)
Ég var ekki að gera neinn samanburð við Evrópu. Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru heimssögulegar, rétt eins og valdhafaskiptin í Kína um þessar mundir, sem Rikissjónvarpið hefur ekki enn frétt af. Við höfum ólíkar skoðanir á þjónustuhlutverki fjölmiðla sem hafa hálfgerða einokun í skjóli nauðungaráskriftar. Lítið við því að gera.
Eirný Vals skrifar:
06/11/2012 at 11:07 (UTC 0)
Ég er langt í frá sammála þér að það sé skylda fjölmiðils á Íslandi að hafa frekari/ítarlegri/nákvæmari umfjöllun um kosningar í Bandaríkjum Norður-Ameríku umfram kosningar í Evrópu.
Ef þú sérð fyrir þér all ítarlega umfjöllun um kosningar, allt niður á kjörstaði, allt frá forvali sé ég helst fyrir mér að þú fylgist með fjölmiðlum þess lands sem kosningar eru í hverju sinni.
Það er galið að þurfa þola þá umfjöllun sem nú er. Það hefur ekkert með skyldur sem þjónustustofnun að gera. Það er frekar áhugamaður um stjórnmál sem gerir kröfur um að nefskattur minn fari í mál sem ég hef engan áhuga á.
Eiður skrifar:
06/11/2012 at 10:06 (UTC 0)
Ríkissjónvarpið hefur skyldur sem þjónustustofnun +á sviði fjölm,iðlunar. Á ensku er það kallað ,,public service broadcasting“. Það sinnir þeim skyldum illa eða ekki, einbeitir sér hinsvegar að afþreyingarefni sem aðgenilegt er á leigum.
Eirný Vals skrifar:
06/11/2012 at 08:53 (UTC 0)
Ég er afar fegin að íslenska ríkissjónvarpið sýnir minna en það danska af efni er varðar kosningar til forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.
Þær kosningar tröllríða dagskrárgerð Ríkisútvarpsins allt frá undirbúningi forkosninga til embættistöku.
Danir eru fæstir yfir sig ánægðir, vilja sumir meina að þeir hljóta að vera á kjörskrá.
Þó svo forfallnir áhugamenn um Bandaríkin og þeir sem vinna við að skýra stjórnmál í fjölmiðlum hafi áhuga þá er ofsagt að fjöldinn hafi áhuga.