«

»

Molar um málfar og miðla 1076

Um nýliðna helgi horfði Molaskrifari á Viðtalið þar sem Bogi Ágústsson ræddi við Göran Person (Ríkissjónvarpið 29.11.202). Gott að geta sótt efni í Sarpinn. Þetta var öndvegisviðtal. Vonandi hafa allir alþingismenn horft á þennan þátt. En líklega er borin von að þeir sem mest þyrftu á að halda dragi nokkurn lærdóm af orðum Görans Persons. Kærar þakkir, Bogi. Mættum við fá meira af slíku.

Molavin sendi eftirfarandi hugleiðingu (03.12.2012):
,, Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að finna að fréttaskrifum Vísis. Í dag, 3. des. hefst þar frétt á þessum orðum: „Breska konungshirðin hefur staðfest að Vilhjálmur, prins Breta, og Kate Middleton, eiginkona hans, eiga von á barni.“ Látum nú vera að blaðamaðurinn kunni ekki að nota viðtengingarhátt sagna (þar sem ætti að standa „eigi von á“) og líka þá fullyrðingu að „hirðin“ hafi staðfest fréttina, þar sem trúlega hefur verið um hirðmarskálk eða annan opinberan málsvara konungsfjölskyldunnar að ræða. Það er hins vegar bæði virðingar- og kunnáttuleysi að tala sífellt í fréttum og fyrirsögnum um „Kate Middleton“ þegar átt er við Katrínu (Catherine), hertogaynju af Cambridge. Menn mega blogga og blaðra með kumpánlegu orðalagi, en allir fjölmiðlar, sem vilja láta taka sig alvarlega, fylgja settum reglum um nafnahefðir konungsfólks. Kjánaskrif í dálkum um frægt fólk grafa undan áreiðanleika fjölmiðlanna.” Molaskrifari þakkar bréfið.

Hvað þýðir í þarsíðustu viku sem maður sér aftur og aftur og heyrir nú að undanförnu? Síðast var þetta á mbl.is um helgina.

Hversvegna finnst Stöð tvö nauðsynlegt að auglýsa ágæti þess kallað er Stöð tvö vild á ensku? Er ekki verið að tala við okkur,- íslenska áhorfendur?

Í fréttum Ríkissjónvarps (02.12.2012 var talað um stór veggöng í Japan. Í sama fréttatíma var talað um sókn erlendra ríkja í sjaldgæfa málma á Grænlandi. Oft er sagt að Grænland sé stærsta eyja í heimi, en sjaldnast er talað um þetta stóra landflæmi (Tuttugu og einu sinni stærra en Ísland) sem eyju þótt vissulega sé það eyja. Það er Ástralía reyndar líka. Það var þessvegna dálítið skrítið að heyra talað um sjaldgæfa málma á eynni ! Hvort tveggja eru þetta atriði sem góður yfirlesari hefði lagfært áður en fréttirnar voru fluttar fyrir okkur.

Líklega hafa engir sungið sig eins djúpt inn í hjarta þjóðarinnar eins og Stefán Íslandi og Karlakór Reykjavíkur með Ökuljóði sem hljóðritað var í Kaupmannahöfn í nóvember 1937. Það var þess vegna skrítið að heyra sagt á dögunum í óskalagaþætti í Ríkisútvarpinu að Ökuljóð væri eftir Sigurð Þórðarson og Freystein Gunnarsson. Víst þýddi Freysteinn textann, ljóðið, en lagið er rússneskt þjóðlag og Sigurður Þórðarson stjórnaði Karlakór Reykjavíkur í þessari frægu og frábæru útgáfu. Líklega er útsetningin einnig hans.

Lauslegur og óvísindalegur samanburður á dagskrám norrænu sjónvarpsstöðvanna sem hér hægt að sjá (DR1, DR2, NRK1, NRK2, NRK3, SVT1 og SVT2) gefur til kynna að engin þessara stöðva sýni jafn mikið af lélegu amerísku afþreyingarefni og amerísku unglingaefni og íslenska Ríkissjónvarpið.

Helgi Haraldsson, prófessor emeritus, í Osló sendi Molaskrifara þessa athyglisverðu ábendingu: http://www.apollon.uio.no/artikler/2012/4-engelsk-er-skandinavisk.html Molaskrifari þakkar Helga sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – .ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta rétt, Páll. Þingmenn og ráðherrar tala um ,,að setja pening“ í eitthvað, sem er ekki vandað málfar.

  2. Páll Kárason skrifar:

    Sæll Eiður.

    Ég er hissa á hvað margir eru farnir að tala um peninga í eintölu. “ Lítinn pening, mikinn pening“ Hvað finnst þér um þetta?

    Einnig finnst mér áberandi hvað margir segja “ Ég vill“ í stað „Ég vil“.
    Bestu kveðjur
    Páll Kárason

  3. Jón skrifar:

    Sjaldgæfir málmar, á ensku rare earth (minerals)/lanthanide, heita samkvæmt í Orðabanka lantaníð á íslensku. Spurning hvort sé skiljanlegra íslenskum lesendum.

    Greinin sem HH sendi varð að frétt í DN

    http://www.dn.se/nyheter/vetenskap/nya-ron-engelskan-ar-skandinavisk

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>