Af mbl.is (03.12.2012): Mette-Marit, krónprinsessa Noregs, dvaldi í tvo daga á sjúkrahúsi í Nýju-Delhi á Indlandi í haust, þar sem hún gætti að tveimur kornabörnum. Hér hefði að mati Molaskrifara verið eðlilegra að segja: … þar sem hún gætti tveggja kornabarna. Betra hefði verið að segja dvaldist en dvaldi.
Sjónvarpsstjóri ÍNN, Ingvi Hrafn Jónsson varð sér til skammar í einræðu sinni á þriðjudagskvöld (04.12.2012) á skjá sínum ÍNN. Það gerði hann með því að blanda látnum föður Lúðvíks Geirssonar alþingismanns inn í umræðuna um bjánagang Lúðvíks og Björns Vals Gíslasonar í þingsal í vikunni. Það var ótrúlegt að hlusta á þetta.
Molalesandi skrifar (03.12.2012): ,,Mér hefur alltaf þótt leiðinleg sú árátta íþróttafréttamanna að nefna íþróttamenn gælunöfnum í fréttum og viðtölum. Nú virðist þessi leiðilegi siður vera kominn inn í fréttatíma sjónvarpsstöðvanna, því í fréttayfirliti Stöðvar 2 var Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kallaður Gutti! Fáum við næst fréttir af Jóku og Kötu, svo dæmi séu tekin?” Molaskrifari er sammála. Þetta er ósiður og ókurteisi. Já þess er ekki langt að bíða með sama áframhaldi að sagt verði við okkur: Jóka sagði á Alþingi í dag að ….
Fréttastofum beggja sjónvarpsstöðva tókst (03.12.2012) að gera heilmiklar fréttir úr ,,bilun” rútunnar sem flutti íslenska kvennalandsliðið í handbolta
á hótel. Rútan staðnæmdist nánast við hótel dyrnar og ekki var að sjá að ,,bilunin” væri alvarleg. Gaman að þessu ! Auðvitað verður að réttlæta það að senda menn til útlanda. Það kostar sitt.- Hvað skyldi annars vera langt síðan sjónvarpsstöðvarnar hafa sent fólk til efnisöflunar í útlöndum til að afla annars efnis en um íþróttir?
Í fréttum Stöðvar tvö var fjallað um væntanlega fjölgun í bresku konungsfjölskyldunni og talað um hið konunglega afkvæmi. Ekki verður annað sagt en að það sé einstakelag hallærislegt orðalag. Þá komu meðlimir konungsfjölskyldunnar við sögu þegar nægt hefði að tala um konungsfjölskylduna. Í þessu sama fréttatíma var talað um vindasamt veður þegar átt var við hvassviðri eða rok.
Í fréttum Ríkissjónvarps (03.12.2012) var sagt að Ísraelsstjórn ætlaði að byggja heimili. Ekki í fyrsta skipti sem þessi meinloka gerir vart við sig. Fólk stofnar heimili. Hús eru byggð, íbúðir byggðar.
Kristján Már Unnarsson , fréttastjóri Stöðvar, tvö hefur sérhæft sig í fréttum af fyrirhugaðri olíuvinnslu og olíuvinnslu Norðmanna. Hann er fyrstur með hverja olíufréttina á fætur annarri.
Oft hefur hér verið minnst á bannfæringu útvarpsstjóra á orðinu Ríkisútvarp. Starfsmenn mega ekki lengur taka sér í munn rúmlega áttatíu ára gamalt heiti stofnunarinnar. Samkvæmt ákvörðun útvarpsstjóra heitir Ríkisútvarpið nú Rúv. Of erfitt að segja Ríkisútvarpið. Gleymst hefur að segja ágætum umsjónarmönnum morgunþáttar Rásar eitt frá þessu banni. Þeir hefja nefnilega daginn svo notalega á því að segja: Ríkisútvarpið býður góðan dag! Þetta hefur greinilega farið framhjá yfirmanni Ríkisútvarpsins enda er þetta mjög snemma dags, klukkan 06 40.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
Engar athugasemdir
1 ping
Útvarpsstjóri ekki vaknaður skrifar:
05/12/2012 at 10:03 (UTC 0)
[…] Í nýjum pistli á heimasíðu sinni víkur Eiður Guðnason að þessari bannfæringu útvarpsstjóra og það ekki í fyrsta skipti: „Starfsmenn mega ekki lengur taka sér í munn rúmlega áttatíu ára gamalt heiti stofnunarinnar. Samkvæmt ákvörðun útvarpsstjóra heitir Ríkisútvarpið nú Rúv. Of erfitt að segja Ríkisútvarpið. Gleymst hefur að segja ágætum umsjónarmönnum morgunþáttar Rásar eitt frá þessu banni. Þeir hefja nefnilega daginn svo notalega á því að segja: Ríkisútvarpið býður góðan dag! Þetta hefur greinilega farið framhjá yfirmanni Ríkisútvarpsins enda er þetta mjög snemma dags, klukkan 06 40.” Share this:FacebookTwitterEmailPrint Tengt efni […]