«

»

Molar um málfar og miðla 1261

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (20.07.2013) var sagt um íþróttamann sem hætti þátttöku í íþróttum vegna veikinda, að hann hefði stigið til hliðar vegna krabbameins. Hrátt úr ensku, step aside.

 

Zimmerman var sýknaður af kviðdómi, var sagt í fréttum (20.07.2013, láðist að skrifa hjá mér hvort það var í Ríkisútvarpinu eða á Stöð tvö) . Óþörf þolmynd. Betra hefði verið: Kviðdómur sýknaði Zimmerman.

 

Hér í Molum var nýlega rætt um skondnar þýðingar úr erlendum málum. Molalesandi rifjaði upp af því tilefni, að í sjónvarpsdagskrá Fréttablaðsins hefði sjónvarpsþáttur sem á ensku hét C.S.I. Criminal Intent, verið kallaður Glæpamaður í tjaldi. Það er ástæða til að halda svona snilld til haga.

 

Er góður fílingur milli keppenda? Þannig spurði umsjónarmaður golfþáttar í Ríkissjónvarpinu (20.07.2013).

 

Í endurteknum þætti í Útvarpi Sögu snemma á sunnudagsmorgni (21.07.2013) talaði umsjónarmaður um dropann sem fyllti mælinn. Hann fór rangt með orðtak úr biblíumáli, sem löngu er orðið fast í málinu. Talað er um kornið sem fyllti mælinn. Ekki dropann.

 

Af mbl.is (21.07.2013): Hreyfill vélarinnar er m.a. brotinn en engin olía lak og vettvangurinn því tryggur. Örugglega hefur þetta verið tveggja hreyfla vél og hvaða bull er þetta um að vettvangurinn sé tryggur? Ensk hugsun, ef Molaskrifara ekki skjátlast.

 

Stundum hefur hér verið bent á furðulegt myndaval með fréttum á netmiðlunum. Á visir.is var frétt (21.01.2013) um konu sem sætti kynferðislegri áreitni um borð í þotu frá United Airlines. Með fréttinni var mynd af þotu frá American Airlines!

 

Að sögn Bylgjunnar (21.07.2013) var aðili handtekinn í Breiðholti þar sem hann var að brjótast inn í bifreið. Ljótu óþokkarnir þessir aðilar sem aftur og aftur koma við sögu í lögreglufréttum.

Í sama frétttíma Bylgjunnar var sagt: Kviðdóm í Flórída þótti einsýnt… Átti að vera: Kviðdómi í Flórída þótti einsýnt …

 

Í fréttum stöðvar tvö um nýjan konung Belgíu var sagt (21.07.2013): Albert afsalaði sér krúnuna fyrir skemmstu. Albert afsalaði sér krúnunni fyrir skemmst hefði verið skárra.

 

Stundum er eins og fréttastofa Ríkisútvarpsins missi stjórn á sér. Þannig var fjallað um afhendingu hlutabréfa til starfsfólks í Landsbankanum í marga daga í velflestum fréttatímum. Umfjölluninni var haldið áfram þótt engu væri við þegar sagðar fréttir að bæta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>