«

»

Molar um málfar og miðla 1262

Glöggur lesandi benti Molaskrifara á þetta á mbl.is (22.07.2013): ,,Um 400 manns tóku þátt í mótmælum skammt frá lögreglustöðinni í hverfinu. Kveikt var í ruslatunnum, strætisvagnaskýli voru eyðilögð og grjóti kastað í lögreglu sem svaraði með táragasi. 14 ára piltur skaðaðist illa á augum og nokkrar lögreglur þurfti að leita sér læknisaðstoðar.” Nokkrar lögreglur þurfti! Það var og ! Þessi ágæti lesandi minnti á tillögu hins orðhaga snillings Helga Hálfdanarsonur um að lögregluþjóna ætti að kalla lögþjóna. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Ef Hödd Vilhjálmsdóttir, fréttamaður á Stöð tvö skildi muninn á sögnunum að kaupa og að versla hefði hún ekki sagt í fréttatímanum á mánudagskvöld (22.07.2013): Sífellt er að færast í aukana að landsmenn versli vörur frá Bandaríkjunum gegn um Internetið. Og: Það má því spyrja sig hvaða hvati er fyrir neytendur til að versla vörur sínar hér á landi. Það er tiltölulega einfalt að læra að nota þessar tvær sagnir að kaupa og að versla. Landsmenn kaupa vörur á Internetinu frá Bandaríkjunum og neytendur kaupa vörur hér á landi. Hvet fréttamanninn í allri vinsemd til að tileinka sér að nota þessar sagnir rétt. Heyrðist raunar að fréttamaðurinn væri á réttri leið í fréttunum í gærkveldi (23.07.2013)

 

Í fréttum Stöðvar (22.07.2013) tvö talaði fréttamaður um síðustu tvær kosningar. Hefði átt að vera síðustu tvennar kosningar. Orðið kosningar er fleirtöluorð. Í sama fréttatíma var talað um að leggja frá sér barnavagn. Það er ósköp kjánalegt orðalag. betra hefði verið að tala um að skilja barnavagninn eftir.

Egill skrifaði (22.07.2013): ,,Nú í kvöld sendi einn af „málfarssnillingum“ mbl.is frá sér frétt um andlát bandaríska leikarans Dennis Farina. Ég gríp hér í miðja fréttina.„Verið var að vinna að bíómynd í Chicago og Farina var fenginn til að leiðsaga leikstjóra myndarinnar um borgina“. Ég veit ekki hvað er að leiðsaga. Veist þú það Eiður ?” Molaskrifari hefur aldrei heyrt þetta orðskrípi. En flestir ættu þó að geta getið sér til um hvað fréttaskrifarinn er að reyna að segja.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>