«

»

Molar um málfar og miðla 1263

 

Makalaust að fréttum Ríkissjónvarpsins skuli enn og aftur úthýst af sínum venjulega stað. Nú (24.07.2013) vegna knattspyrnuleiks milli Svía og Þjóðverja! Og það var ekki einu sinni útslitaleikur. Aftur verður fréttunum rutt út í kvöld. Hálf önnur klukkustund af fótbolta og hálftími af fótboltafroðu svokallaðra  sérfræðinga. Enn eitt dæmið um yfirgang íþróttadeildar og stjórnleysi í dagskrárgerðinni hjá Ríkissjónvarpinu í Efstaleiti. Hversvegna í ósköpunum eru  þessir leikir ekki sýndur á íþróttarásinni?

 

Í yfirliti um efni sexfrétta í Ríkisútvarpinu (23.07.2013) var sagt frá steypireyði sem senditæki hafði verið fest á, sem hefði synt frá Austurlandi langleiðina niður til Færeyja. Ekkert niður. Bara langleiðina til Færeyja.

 

Í auglýsingu á Stöð tvö (23.07.2013) um ágæti Volkswagen Golfs var sagt að hann hefði verið valinn bæði sem bíll ársins og … Volkswagen Golf var valinn bæði bíll ársins og … – ekkert sem.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.07.2013) var talað um ferðamenn sem komið hefðu inn til landsins. Ferðamenn sem komið hefðu til landsins. Ekkert inn. Í sama fréttatíma var talað um hægari hraða. betra hefði verið að tala um minni hraða. Í þessum fréttatíma var fjallað um álverð og þróun þess. Mjög áhugaverð frétt, en það var óþarfi að birta myndir af Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga með álfrétt.

 

Af mbl.is (23.07.2013). Að sögn Ragnars Guðmundssonar, rannsakanda hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, er þetta í fyrsta sinn sem aðgerð af þessum toga er gerð hér á landi.„Það er verið að lyfta vélinni með aðstoð tveggja krana og hafa púðar verið settir undir vængina,“ Þetta er ekki mjög lipurlega orðað. Skárra væri … í fyrsta sinn sem þetta er gert hér á landi. Tveir kranar eru notaðir til að lyfta þotunni.

Síðari hálfleikur var ekki nema sjö mínútna gamall, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (23.07.2013)og átti við að aðeins hefðu sjö mínútur verið liðnar af leiknum. Líkast til er þetta eftiröpun úr ensku. . Hann sagði okkur líka að Kínverjar hefðu verið fyrirferðarmiklir á dýfingabrettinu. Ekki sýndist Molaskrifara það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>