«

»

Molar um málfar og miðla 1265

 

Góðvinur Molanna benti skrifara á sérstæða íþróttafrétt, sem birtist á visir.is í vikunni (24.07.2013): Leikmönnum skoska knattspyrnuliðsins Rangers í Glasgow var vel brugðið á æfingu liðsins í gær. Knattspyrnurnar voru í léttri upphitun þegar elding birtist ofan við æfingu þeirra. Leikmennirnir kipptust eðlilega við og var létt brugðið. Sjá hér:http://visir.is/elding-hraeddi-leikmenn-rangers/article/2013130729620Þetta er með ólíkindum.  Þeir sem svona skrifa eiga ekki að fá að ganga lausir í nánd við tölvur og lyklaborð á ritstjórnum eða fréttastofum. Þetta er ekki fyndið. Visir.is setur niður með því að birta svona bull.

 

Fréttastofur og ritstjórnir afla frétta og færa þær í búning fyrir okkur hlustendur og lesendur. Þetta er því einskonar framleiðsla, þótt til sannsvegar megi færa, eftir orðanna hljóðan, að það að framleiða fréttir sé að búa til fréttir, skálda fréttir. Gæðaeftirlit á að vera hluti þess að flytja fréttir. Þótt margt geri Fréttastofa Ríkisútvarpsins vel, er gæðaeftirlitið þar ekki í lagi. Metnaðurinn til að gera vel er ekki alltaf nægur. Þannig var til dæmis í morgun (25.07.2013) býsna margt sem betur mátti fari í orðalagi í fréttunum sem fluttar voru klukkan fimm. Einhverra hluta vegna eru fréttatímarnir klukkan fimm og sex á morgnana ekki aðgengilegir á netinu. Hvað veldur?

Það er til lítils að beina spurningum til Ríkisútvarpsins. Stjórnendur þar telja óþarft að svara slíku. Stofnunin skuldi almenningi ekki neinar skýringar í sambandi við framkvæmd dagskrár í útvarpi og sjónvarpi. Okkur kemur það ekki við.

 

Leikskólaorðalagið að klessa á er mörgum fréttabörnum tamt. Á miðvikudagskvöld (24.07.2013) var löng, löng frétt um það á Stöð tvö að Jagúarbíllinnn sem Halldór Laxness átti á sínu blómaskeiði hefði runnið af stað og hafnað á keðju og steini og skemmst lítillega, – endaði bílferðina með því að klessa á forláta keðju. Þetta leikskólaorðalag er einnig notað í Fréttablaðinu (25.07.2013), en samningur virðist í gildi milli þessara miðla um að samnýta ambögur. Og svo sagði fréttamaðurinn: – Og hvernig bar þetta að garði? Og hvernig gerðist þetta. Hvernig vildi þetta til ? Það þarf að ganga úr skugga um að fólk sé sæmilega talandi áður en því er hleypt á skjáinn til að segja okkur fréttir.

 

Trausti bendir á þessa frétt á mbl. is (25.07.2013) þar sem segir: Hótelið er skemmtilega innréttað öll herbergi eru ólík og húsbúnaðurinn kemur víða aðhttp://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/25/frakkarnir_hrosa_morgunverdinum/ Trausti segir : Ég átta mig ekki á, hverju herbergin eru ólík. Ætli ekki sé átt við að þau séu mismunandi?” Líklegast rétt til getið.

 

Gunnar sendi Molum línu (25.07.2013): ,, Meira um Önnu Svövu á Rás tvö. „… hjá Jóni Þóri …“ sagði Anna Svava Knútsdóttir á Rás 2, aftur og aftur, í viðtali við Jón Þór Þorleifsson í áhöfninni á Húna II. En nafnið Þór beygist: Þór, Þór, Þór, Þórs. Nafnið Þórir beygist aftur á móti: Þórir, Þóri, Þóri, Þóris. Því talaði hún um Jón Þór, eins og hann héti Jón Þórir.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Svokallað Smartland á mbl.is heldur áfram að vera fyrirmynd um vandað málfar: Sjá http://www.mbl.is/smartland/utlit/2013/07/25/leyndarmalid_a_bak_vid_gordjoss_har/ Leyndarmálið á bak við gordjoss hár. Ja, hérna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>