«

»

Molar um málfar og miðla 1266

Sjálfstæðisflokkurinn er í stórsókn gegn Ríkisútvarpinu. Sakar það um hlutdrægni og undirlægjuhátt við fyrrverandi ríkisstjórn. Svo er helst að skilja á sumum talsmönnum Sjálfstæðisflokksins að starfslið fréttastofunnar eins og það leggur sig sé með flokksskírteini í Samfylkingunni.

Á föstudagskvöld var aðalfrétt beggja sjónvarpsstöðva um mat Standard & Poors matsfyrirtækisins á fjármálahorfum hjá íslenska ríkisins ( sem Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar kallar inngrip í íslensk innanríkismál!) Á Stöð tvö var rætt við Eygló Harðardóttur, félagsmálaráðherra, Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, Steingrím Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra og Árna Pál Árnason fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra . Í fréttum hins ofurhlutdræga Ríkissjónvarps var rætt við Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Ekki var rætt við neinn stjórnarandstæðing, heldur bara tvo ráðherra. Sjálfstæðismenn hljóta að herða sóknina gegn Ríkisútvarpinu því þetta er auðvitað ólíðandi hlutdrægni!

 

Í símaþætti sem endurtekinn var snemma að morgni mánudags (29.07.2013) talaði Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri útvarps Sögu um um að standa á tveimur jafnfótum! og að rekast upp á sker. Hvort tveggja er út í hött. Það er talað um að ferðast á tveimur jafnfljótum, það er fótgangandi og  skip getur rekið upp á á sker.

 

Dyggur Molalesandi vitnar í Vefvísi (25.07.2013): ,,Hér er merkilegt orðalag, Vefvísir nú síðdegis. Sagt að konan ,,gegni“ nafninu NN. Einhvern tíma finnst mér ég hafa heyrt sem svo að hundar hafi gegnt ákveðnum nöfnum – eða þá litlir hvolpar.”. Og þessi lesandi bætir við: Svo er þessi fyrirsögn alveg yndisleg. ,,Að fylgja frosnu hvalkjöti síðasta spölinn“. Yfirleitt er þetta orðalag notað um jarðarfarir …

http://ruv.is/frett/fylgdu-frosnu-hvalkjoti-sidasta-spolinn

Molaskrifari þakkar ábendinguna og tekur undir með Molalesanda.

 

Málglöggur Molalesandi skrifaði: ,,Úr íþróttafréttum mbl.is nú 27. júlí 2013, tvær rúsínur í frásögn af knattspyrnukappanum Gareth Bale, félaga Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Tottenham:

… því hefur verið haldið fram að spænska stórveldið bauð 81 milljón punda í Walesverjann…

…„Ég ræði ekki slíka hluti, afsakið það. Ég get ekki rætt um orðróma,“ sagði Portúgalinn…” Það var og. Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Úr frétt um brúðkaup á mbl.is (28.07.2013, sem skólasystir Molaskrifara vakti athygli á á fésbók: Var Svala venju samkvæmt klædd í kjól og hvítt en Einar skartaði myndarlegri þverslaufu og hvítu blómi í hnappagatið. Brúðurin var í kjól og hvítt! Endemis bull! Og brúðguminn skartaði hvítu blómi í hnappagatið! Ja, hérna!

 

Meðal laun 200 hæst launuðustu forstjóra á Íslandi … var sagt í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (26.07.2013). Meðal laun hæstlaunuðu forstjóra, — hefði alveg dugað. Ótrúlega algeng villa sem heyrist aftur og aftur.

 

Hann segir löggjöf hafa farið vaxandi í kring um málaflokkinn, var sagt í Spegli Ríkisútvarpsins (26.07.2013) Ákaflega klúðurslegt orðalag. Skárra hefði verið að segja til dæmis: Hann segir lagabálkum á sviði neytendamála hafa fjölgað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>