«

»

Molar um málfar og miðla 1267

 

Í þessari frétt á visir.is (27.07.2013) er það eiginlega ekki eitt, heldur allt! ,,Bíl var ekið á veglokun við gamla veginn niður í Selvog við Selfoss laust fyrir þrjú í dag. Tveir farþegar voru í bílnum og varð talsvert högg af árekstrinum að sögn lögreglu.
Sjúkrabíll var sendur á staðinn og hlúði að farþegum sem áttu við minniháttar meiðsl að stríða. Bílinn skemmdist gjörsamlega, var óökufær og fluttur af staðnum með dráttarbíl. Lokunin, sem var úr tré, brotnaði einnig.
Talið er að ökumaðurinn hafi blindast af sólinni og það orsakað slysið.
Talsverð umferð er í gegnum Selfoss en gengur greiðlega að sögn lögreglu. Sex bílar hafa verið teknir fyrir hraðakstur í dag. Sá sem fór greiðast var tekinn á 140 kílómetra hraða á klukkustund um hálf ellefu á Hellisheiði.”

Þessi skrif eru með ólíkindum. Bara börn á vaktinni?

 

Trausti benti á eftirfarandi á mbl.is (27.07.2013): http://www.mbl.is/sport/golf/2013/07/27/gudmundur_kastadi_yfir_80_metra/
„Hlaupið var gríðarlega spennandi þar sem nýkringdur heimsmeistari Aníta Hinriksdóttir úr ÍR veitti Hafdísi harða keppni“. Nýrkringdur? Einmitt það!

 

Þorsteinn skrifaði (28.07.2013): ,,Mjólkursamsalan er komin með nýja vöru á markað en í staðinn fyrir að kalla hana mjólk án laktósa eða laktósalausa mjólk þá er gripið til enskunnar, laktósa frí mjólk.” Góð ábending, Þorsteinn. Er ekki Mjólkursamsalan sífellt að segja okkur að hjá fyrirtækinu sé íslenskt mál í öndvegi? Mig minnir það.

 

Samráð skortir um viðhald sjálfboðaliða, er dálítið tvíbent fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins (29.07.2013). Ekki er um að ræða viðhald á sjálfboðaliðum heldur vinnu sjálfboðaliða við lagfæringar, viðhald á gömlu húsi.

 

Í Morgunblaðinu (27.07.2013) var viðtal við útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins , Pál Magnússon um svokallað opið útvarpsþing. Þar segir: ,,Í þjónustusamningnum frá júní 2011 er jafnframt kveðið á um að aðilar af hálfu annars vegar Ríkisútvarpsins og hinsvegar menntamálaráðuneytisins eigi að funda eigi sjaldnar en tvisvar á ári til að fjalla um framkvæmd samningsins, þróun hans markmið sem og fyrir hugaðar breytingar. Spurður út í þessa fundi segir Páll að þeir séu haldnir tvisvar á ári.”. Ítarlegt og efnisríkt svar. Svo koma margumræddir aðilar líka við sögu málsins.

 

Gunnar skrifaði: ,,Sjónvarpsþátturinn Body of Proof, sem hafði verið margauglýstur liður á dagskrá fimmtudagskvöldsins, var felldur niður vegna þess að fótboltinn fór 45 yfir auglýstan tíma. Það á að vera nóg að sýna svona boltasprikl á íþróttarásinni, sem Sjónvarpið ræður yfir, en ekki þröngva þessu yfir landslýð með góðu eða illu.” Þetta er rétt. Vikið hefur verið að þessu áður í Molum. Verst er að Ríkissjónvarpið notar niðursoðna konurödd til að kynna dagskrána og er því ekki hægt að bregðast við neinu ófyrirséðu. Ólíðandi vinnubrögð og auðvitað átti þetta að vera á íþróttarásinni sem reyndar er bara boltarás.

 

Um þessar mundir eru 60 ár síðan Kóreustríðinu lauk, ef lok skyldi kalla, því aðeins var samið um vopnahlé sem að nafninu til stendur enn. Margar sjónvarpsstöðvar minnast þessara tímamóta. Norska ríkissjónvarpið NRK2 sýndi nýlega prýðilega heimildamynd um ,,Stríðið sem aldrei var til lykta leitt” og Sky fréttastöðin hefur verið að sýna mjög athyglisverðar myndir frá Norður Kóreu. Fréttamönnum Sky var hleypt inn í landið, en það gerist ekki oft með erlenda fréttamenn. Íslenska Ríkissjónvarpið hefur ekkert veður haft af þessu ekki frekar en öðru sem snertir sagnfræði og samtíðarsögu. Eftir tvær heimsóknir til Norður Kóreu hikar Molaskrifari ekki við að fullyrða að landið sé það furðulegasta á jarðarkringlunni og ber þar margt til. Ríkissjónvarpið sinnir ekki því hlutverki sínu að sýna okkur heimildamyndir um samtíð og sögu. Slíkt efni virðist hreinlega eitur í beinum ráðamanna Ríkissjónvarpsins.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>