Það var vel í lagt hjá Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (30.07.2013) að leggja þriðjung fréttatímans (og líklega meira ef íþróttafréttir eru frátaldar) undir mál bandaríska uppljóstrarans Brtadley Mannings. Og að sjálfsögðu var viðtal við Kristin Hrafnsson fyrrum starfsmann fréttastofunnar sem virðist eiga einkar greiðan aðgangað fréttatímum Rikisútvarps og sjónvarps..
Glöggur Molalesandi sendi Molum þessa ábendingu vegna fréttar á visir.is (28.07.2013): Sæll Eiður, hér er úr miklu að moða:http://www.visir.is/harmleikur-a-hudson-anni—tilvonandi-brudur-lest/article/2013130729317
Dæmi: „Dauðaslys varð í Hudson á í New York ríki á föstudagskvöld þegar Stingray vélbátur klessti á byggingarpramma rétt suður af Tappan Zee bridge.“
Köllum við þetta ekki banaslys? Og klessa á? Er blaðamaðurinn fimm ára? Fyrst blaðamaðurinn var að myndast við að þýða þessa grein því þá ekki að þýða öll orðin. Við eigum hið ágæta orð brú yfir enska orðið bridge. Allt þetta í fyrstu setningu fréttarinnar.” Kærar þakkir fyrir sendinga. Já hér er margt athugavert. Í samræmi við málvenju hefði átt að tala uum Hudson fljót og að banaslys hefði orðið á Hudsonfljóti, ekki í Hudsonfljóti. Það er reyndar rétt í fyrirsögn. Síðan segir í fréttinni: ,, Stewart og Lennon, svaramaðurinn, voru fremst í bátnum þegar áreksturinn varð og köstuðust í ánna.” Köstuðust í ána, ekki ánna.Það ætti að gera þá kröfu til þeirra sem skrifa fréttir að þeir geti beygt orðið á með ákveðnum greini, – áin, um ána frá ánni til árinnar. Hálfömurleg lesning í mörgum skilningi.
Í símaþætti sem endurtekinn var snemma að morgni mánudags (29.07.2013) talaði Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri útvarps Sögu um um að standa á tveimur jafnfótum! og að rekast upp á sker. Hvort tveggja er út í hött. Það er talað um að ferðast á tveimur jafnfljótum, það er fótgangandi og skip getur rekið upp á á sker.
Undarlegt var að heyra að fréttamaður Stöðvar tvö kunni ekki að beygja orðið flöskuskeyti (29.07.2013) . Notaði ítrekað eignarfallið flöskuskeyts ! Talaði líka um góða vináttu tveggja hjóna. Ein hjón, tvenn hjón.
Um banaslys á Langjökli sagði fréttaþulur Stöðvar tvö (29.07.2013) að þyrlan hefði lent á vettvangi og lögreglumenn væru enn á vettvangi. betra hefði verið að segja að þyrlan hefði lent á Langjökli og að lögreglumenn væru enn á jöklinum.
…og virðast allir vera voðalega glaðir, sagði fréttamaður Stöðvar tvö um Barnadaginn í Viðey sl. sunnudag (28.07.2013).Barnamál á barnadegi.
Viðtal Stöðvar tvö við fjölmiðlalögmanninn Vilhjálm H. Vilhjálmsson á sunnudagskvöld (28.07.2013) var einstaklega gott dæmi um kranablaðamennsku. Kranablaðamennska er ekki merkileg blaðamennska. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVE9197BB9-7E24-4DB3-AEF0-DACB955F2D63
Gunnar skrifaði (28.07.2013): ,,Magnús Hlynur Hreiðarsson sagði í fréttum Stöðvar 2 á sunnudagskvöldið, að gestum væri velkomið „að líta við hjá Sigurlínu …“ Að líta við merkir að horfa um öxl, líta aftur fyrir sig. Magnús ruglar þarna saman orðatiltækjunum „að líta inn“ og „að koma við“, þ.e.a.s. að fara í heimsókn.
Hjörvar Hafliðason þarf að vanda framburðinn, sem og málfræðina. Breiðablik er í „Kópavoginum“, ekki í „Kópaoinum“ eins og hann sagði. Birgir leifur leikur „golf“, ekki „gólf“ eins og Hjörvar sagði. „Þýskaland urðu í dag Evrópumeistarar í knattpyrnu,“ sagði Hjörvar einnig. „Þýskaland varð …“ eða „Þjóðverjar urðu …“ er rétt mál.
Við eigum skilið að fólk tali góða og rétta íslensku í sjónvarpi.” Molaskrifari tekur undir og þakkar Gunnari bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/07/2013 at 18:14 (UTC 1)
Sæll, Sigurður Hreiðar,kærar þakkir, – má ég birta þetta í Molum undir nafni eða án nafns?
Sigurður Hreiðar skrifar:
31/07/2013 at 12:25 (UTC 1)
Í þessum molum er tæpt á svo mörgu að ég fæ ekki orða bundist (ekki svo að skilja að þau standi almennt mjög fast í mér).
Til dæmis um ruglinginn á „að líta við“, „að líta inn“ og „að koma við“. Hann virðist alveg hafa unnið sér fastan sess jafnvel hjá fólki sem vill raunverulega vanda málið. Man eftir þessu frá því um 1950, þá fór þetta í taugarnar á Þórarni heitnum Guðmundssyni tónlistarmanni sem umgekkst nokkuð á þeim árum. Heyrði hann halda bráðfyndna tölu um þetta með hnyttnum dæmum um ruglinginn og endaði eitthvað á þessa leið: Og rektu svo við hjá mér elskan mín þegar þú ferð í bæinn næst.
— Einnig um þetta að hnýta greini (íþróttamannamál) við Garðabæ, Mosfellsbæ og Kópavog, en aldrei við Reykjavík eða Hafnarfjörð. Því síður Akranes eða Selfoss eða Akureyri, svo dæmi séu tekin. — Þetta fer satt að segja dálítið í mig.