«

»

Molar um málfar LXVII

Ekki kunni ég við það orðalag í ræðu forseta Íslands við setningu Alþingis, er hann talaði um „djúpstæða gjá. “ Talað er um djúpa gjá eða hyldýpisgjá , en að tala um djúpstæða gjá finnst mér vera uppskrúfað bull. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti, sem í ljós kemur að vandað málfar er ekki sterkasta hlið þjóðhöfðingjans.

Nýr þingmaður, Þór Saari , notar orðið „slímsetur“ í bloggfærslu (15.05.06.) Orðið slímseta er mér vitanlega ekki til. Í íslenskri orðabók er hinsvegar orðið slímusetur (kvk. flt.), að sitja slímusetur er að sitja lengur sem gestur en sæmilegt þykir, lengur en orlofsnæturnar, en þær voru þrjár að fornum sið.Ef litið er á málið með ítrustu velvild ,þá er þetta kannski bara innsláttarvilla.

Merkilegt er í ljósi frétta af innbyrðis átökum og bágri stöðu sparisjóðsins Byrs að í auglýsingum skuli enn tönnlast á ensku hugsuninni um „fjárhagslega heilsu“. Það kórónar svo vitleysuna þegar poppsöngvarinn þeirra er látinn segja í auglýsingu ( SAM bíó í Kringlunni ,15.05.09.) : „Þetta er fjárhagsleg heilsa fyrir mér.“ Hvílík lágkúra !  

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Alveg rétt, Hákon. Þarna var ruglað saman orðunum víðavangi og vergangi. Þetta er svona ámóta og í frétt á Vefvísi í dag þar sem talað var um að manni hefði verið bjargað af „slysni“. Fjalla nánar um það síðar.

  2. Hákon skrifar:

    Kæri Eiður, takk fyrir áhugavert blogg, um málfar og fleira. 

    Mér datt í hug að benda á ranga notkun orðsins „vergangur“ í fréttum útvarpsins 13. 5. kl 10,00. Þar var sagt: „Fjöldi dýrahræja liggur út á vergangi“. Þetta tengdist frásögn af flóðum í Brasilíu í lok fréttatímans. Raunar var orðið notað að ég held tvisvar sinnum áður í fréttatímanum, en þá í réttri merkingu. Ég hlustaði aftur á fréttirnar áðan, til að ég væri nú örugglega að fara rétt með, fyrst ég fór að skrifa þér þessar línur:)  Ég er líka hjartanlega sammála þér um uppskafið málfar forsetans. Ég tók líka eftir að við þingsetninguna var nýr tónn í röddinni, Hann er kannski búinn að leggja til hliðar hástemmda 2007 tóninn, sem hæfði útrásarvíkingum og fína fólkinu.

  3. Eygló skrifar:

    Ágæti Eiður, enn stelurðu af mér glæpnum. Ert reyndar vel að honum kominn 🙂

    Eins og mér er hlýtt til „poppsöngvarans“ góð er hann með öllu ónothæfur til að fara með íslenskt mál opinberlega. Sennilega hefur „fyrir mér“ samt verið texti sem honum hefur verið færður (jafn hallærislegur fyrir það) 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>