Stöku sinnum er hér vikið að málfari í auglýsingum. Á dögunum fórum við hjónin í bíó og sáum stórmerkilega heimildamynd um frumkvöðulinn Alfreð Elíasson og þá ágætu menn sem ásamt honum skópu Loftleiðaævintýrið. Það er ástæða til að fjalla frekar um þessa mynd, þótt ekki verði það gert hér og nú.
Mikið var sýnt af auglýsingum áður en sýning myndarinnar hófst sem og í hinu óhjákvæmilega og hallærislega hléi sem fylgt hefur sýningum í íslenskum kvikmyndahúsum svo lengi sem elstu menn muna.
Gott tækifæri gafst til að lesa auglýsingarnar á breiðtjaldinu. Þar var meðal annars eftirfarandi :„Þú þarft að lúkka vel líka“, „…soldið sixties í bland við nýtt.“, „ Allar sóttar pizzur á hálfvirði“. Ætli sóttar pizzur séu fyrir sóttargemlinga? Þetta var nú eiginlega útúrsnúningur. Áður hefur verið minnst á Byrsbullið : „Þetta er fjárhagsleg heilsa fyrir mér.“
Það skortir á að auglýsingahöfundar kunni móðurmálið. Það skortir líka að þeir sem borga auglýsingarnar hafi skilning á því að þær verða að vera á vönduðu máli. Ég tek til dæmis á mig krók til að þurfa ekki að nota hraðbanka Byrs vegna þess hvað fyrirtækið ber litla virðingu fyrir íslenskri tungu.
Loks skal enn vikið að beygingum á Vefdv. Þar segir í fyrirsögn (16.05.09.) : „Lögreglan lýsir eftir 16 ára pilt“. Þarna ætti auðvitað að vera þágufall, „ … 16 ára pilti“ . Það er greinilegt að ekki eru gerðar miklar kröfur um íslenskukunnáttu til þeirra sem semja fyrirsagnir og skrifa fréttir í Vefdv.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Halldór Carlsson skrifar:
20/05/2009 at 10:18 (UTC 0)
sé ekki muninn á því að segja: ,,Á dögunum fórum við hjónin í bíó“ og lúkka vel“ – ,,bíó“ og ,,lúkka“ eru bæði skrípi, bara misgömul.
svo er ljótt að segja ,,hafa skilning“, miklu betra væri að nota hið algenga orð ,,skilja“.
Gústaf Hannibal skrifar:
18/05/2009 at 17:31 (UTC 0)
Af vísi: England keppir um að fá að halda HM 2018 og er þar í samkeppni við Katar, Rússlandi, Spáni og Portúgal, Bandaríkjunum og Ástralíu.