Umsjónarmaður hádegisfrétta RÚV (17.05.09. Pálmi Jónasson) las í fréttayfirliti.yfirliti : „Orðalag tilllögu um Evrópusambandsaðild verður breytt,segir utanríkisráðherra.“ Þegar hlustað var á fréttina kom í ljós að utanríkisráðherra hafði ekki tekið svo til orða, enda kann Össur Skarphéðinsson undirstöðuatriði íslenskrar málfræði og beygingareglur tungunnar , — og vel það. Össur er enginn bögubósi. Það skorti hinsvegar á kunnáttu hjá fréttamanni sem auðvitað hefði átt að segja: „ Orðalagi tillögu…..“ Það er slæmt þegar fréttamenn láta ambögur sér um munn fara og verra þegar þeir eigna ambögurnar viðmælendum. Sömu amböguna endurtók umsjónarmaðurinn í fréttayfirlitinu í lok hádegisfrétta.
Um tíma sendi ég öðru hverju það sem ég kallaði „ vinsamlegar ábendingar“ í tölvupósti til fréttastofu RÚV. Þeim var nær undantekningarlaust ekki svarað. Þessvegna hætti ég þessu, enda eru málfarsleg mistök óþekkt fyrirbæri í Efstaleitinu, – eins og allir vita. Þar skjátlast mönnum eigi.
„ Ný lögreglustöð opnar í Grafarvogi – „, sagði í fyrirsögn á vefritinu Pressunnui. Hvað skyldi lögreglustöðin hafa opnað ? Ætli hún hafi ekki verið opnuð? Þannig væri rétt að taka til orða. Einkennilegt hvað sömu ambögurnar birtast aftur og aftur á prenti og í ljósvaka- og vefmiðlum.
Makalaus frétt var á vefvísi (17.05.09.) Fyrirsögn fréttarinnar var: „ Björguðu manni fyrir slysni.“ Sá sem þetta skrifaði veit greinilega ekki að slysni þýðir óheppni eða klaufaskapur. Þannig að fyrirsögnin er út í hött. Hann hefur líklega átt við að manni hafi verið bjargað fyrir tilviljun.
Fréttin er svona: „Meðlimir í Björgunarsveitinni Suðurnes, sem voru á leið heim af landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem haldið var á Akureyri um helgina, óku fram á bílveltu rétt sunnan við Staðarskála í Hrútafirði um klukkan hálf fimm í dag.
Ökumaðurinn var einn í bílnum. Hann var á toppnum þegar björgunarsveitina bar að.
Náðu meðlimir hennar manninum úr bílnum, settu í hálskraga og á bakbretti. Hann var svo fluttur í björgunarsveitarbílnum á móti sjúkrabíl sem kom frá Hvammstanga. „
Þarna er staglast á orðinu „ meðlimir“ þegar tala hefði átt um félaga eða björgunarsveitarmenn. Og svo er spurningin: Hvor var á toppnum ökumaðurinn eða bíllinn? Það er ekki hægt að tala um skýra hugsun að baki þessum skrifum. Einkennilegt er líka að Vefmoggi, Vefvís og Vefdv notuðu öll sama orðalagið í frásögn af þessum atburði .“ …óku fram á bílveltu…“ Það er kjánalegt að tala um að „aka fram á bílveltu“. Hér étur hver miðillinn vitleysuna eftir öðrum. Þetta var skrifað á sunnudegi (17.05.09.). Ómar Ragnarsson gerir þessu góð skil á bloggi sínu (18.05.09.) svo og þeir sem skrifa athugasemdir við skrif Ómars.
Í sjónvarpsfréttum RÚV (17.05.09) var talað um hve vel var tekið á móti okkar sigursælu Moskvuförum. Sagt var að tekið hefði verið „á móti hópnum með kostum og kynjum“. Betra hefði verið að segja að Moskvuförunum hefði verið tekið með kostum og kynjum, þegar þau komu á Austurvöll eftir sína glæsilegu Rússlandsför þar sem þau sannarlega voru landi og þjóð til sóma.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Magnús Geir Guðmundsson skrifar:
19/05/2009 at 23:18 (UTC 0)
Eitthvað annað en góður hugur í garð tungunnar, réð för hjá „ræðumanni“ hér næst á undan mér, en látum það nú vera. Þetta var jú leitt með Sigmund ERni, en sem ég hef nú bent á, var ræðan samt vel flutt og með vissu stílbragði, er sýndi aðra hlið en fólk hefur allavega oftast séð á fjölmiðlamanninum fyrrverandi.Hef trú á að Simmi eigi eftir að standa sig vel sem þingmaður.
Predikarinn - Cacoethes scribendi skrifar:
19/05/2009 at 10:58 (UTC 0)
Það var skelfilegt að hlýða á ræður sumra þingmannanna í gærkvöldi. Tekið skal undir ábendingu Árna Gunnarssonar, en sérstaklega var tekið eftir umræddu orðfari hins nýja þingmanns geislaBAUGSmiðlanna. Þar var augljóslega ekki um mismæli að ræða, hann endurtók þetta ítrekað.
Jens skrifar:
19/05/2009 at 09:50 (UTC 0)
Sæll Eiður, og þakka þér margar ágætar ábendingar hérna.
Ég er ekki viss um að þetta sé bara léleg kunnátta sem stendur þessu fjölmiðlafólki fyrir þrifum, heldur einfaldlega alger leti. Sem dæmi um það nefni ég hroðvirkinslega skrifaða og afskaplega illa unna frétt á netmogganum núna, og skeyti inn hér neðst. Hún er ekki bara illa skrifuð heldur bítur ritarinn höfuðið af skömminni með því að nenna ekki að fletta upp hvað Sæmundargata heitir, nefnir þetta bara „þar sem beygt er inn frá Hringbraut inn að Háskóla Íslands“ (sic).
Honum hefði dugað að fletta upp á simaskra.is, það hefði tekið hann 10 sekúndur.
Vélhjólaslys í Reykjavík
Maður slasaðist í vélhjólaslysi við Þjóðminjasafnið í kvöld. Fjöldi slökkvibíla og lögreglubíla er á vettvangi. Slysið varð þar sem beygt er inn frá Hringbraut inn að Háskóla Íslands.
Vitni segir ökumann vélhjólsins hafa legið hreyfingarlausan á Hringbrautinni fyrir stundu.
Tveimur sjúkrabílum var ekið í skyndi á vettvang slyssins.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er talið að maðurinn hafi misst stjórn á vélhjólinu.
Því er ekki talið að um árekstur við annað ökutæki hafi verið að ræða.
Eiður skrifar:
19/05/2009 at 05:46 (UTC 0)
Ja, hérna,segi ég nú bara. Viðurkenni að ég hætti hlustun að mestu eftir fyrstu umferð. Líklega er brýnna að halda íslenskunámskeið fyrir nýja þingmenn, – suma hverja að minnsta kosti, en kenna þeim klæðaburð ! Það er auðvitað skelfilegt að hlusta á svona ambögur úr ræðustóli á Alþingi. Líklega hefur þingmaðurinn átt við Hvers á þjóðin að gjalda ? Þetta er ótrúlegt.
Árni Gunnarsson skrifar:
18/05/2009 at 22:42 (UTC 0)
„Hvers á þjóðin skilið?“ sagði og endurtók í það minnsta þrisvar hinn nýkjörni þingmaður Sigmundur Ernir Rúnarsson á Alþingi í kvöld.