«

»

Molar um málfar LXX

Í hádegisfréttum RÚV (18.05.09.) var rætt við Jakob R. Magnússon formann Stefs. Hann sagði: „..tilfinningalega og umbúðalega …“ Umbúðalega er eitt ljótasta orð sem ég hef lengi heyrt.

Stundum hvarflar það að manni að fréttastjórar/ritstjórar telji sig geta boðið okkur hlustendum/lesendum hvaða málfarslegan subbuskap sem er. Í fréttatíma Stöðvar tvö (19.05.09.) talaði fréttamaður um „… gífurlega aukningu í fjölgun innbrota…“ sami fréttamaður sagði okkur að „… tvö hús hefðu verið rænd …“ Þetta er ekki boðlegt. Svo einfalt er það.

Ein af klisjunum sem fréttamenn ofnota er að „vinna hörðum höndum“ að einhverju. Þannig var í sjónvarpsfréttum RÚV (18.05.09.) sagt: „Unnið er hörðum höndum að endurfjármögnun félagsins“. Ég á alltaf erfitt með að sjá menn fyrir mér vinna hörðum höndum við skrifstofustörf. Kannski er það bara sérviska.

K.K. spilar oft  skemmtilega  tónlist í morgunútvarpi   Rásar eitt, RÚV. Hann  ætti  hinsvegar  að  spila meira, tala minna. Það er óþarfi að tala  við okkur um Århus og  Rundetårn, sem á íslensku heita  Árósar og   Sívaliturn.

Með ólíkindum er hvað íslenskum fjármálastofnunum er lagið að velja sér auglýsingastofur þar sem textahöfundar eru illa að sér í íslensku, samanber Byrsbullið margnefnda um „fjárhagslega heilsu“. Nú auglýsir Nýja Kaupþing (RÚV 19.05.09.) að bankinn sé farinn að „ þjónusta útlán SPRON“. Þetta er ekki íslenska. Mælst er til þess að auglýsingastofur og bankarnir hætti að misþyrma móðurmálinu.

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Magnús Helgi Björgvinsson skrifar:

    Heyrði reyndar ekki fréttir Ríkisútvarpsins í hádeginu en þykir rétt að benda á eftirfarandi:

    • Jakob Magnússon hefur millinafnið Frímann. Ekki „R“ eins og stendur hér í færslunni sjálfri.
    • Eins að ef að spiluð var upptaka með honum er ekki við RUV að sakast. Það væri algjörlega óþolandi ef að fréttamenn væru að skipta sér að málfari viðmælenda og/eða fá þá til að breyta um orðaval. Þá væri stutt í alvarlega ritskoðun.

    Fornleifastofnun notar skammstöfunina „FSI“ sbr. heimasiðu þeirra  Um FSÍ

    En yfirleitt taldi ég að fólk væri frekar á því að Jakob Frímann talaði ferkar góða íslensku og frekar að hann væri of forn í máli.

  2. Steini Briem skrifar:

    Skammstafanir tíðkuðust á Mogganum löngu fyrir daga farsímanna og Mbl.is.

    Heiti viðkomandi stofnunar er skrifað þar fyrst, ásamt skammstöfuninni, og hún notuð eingöngu eftir það í fréttinni, eins og blaðamaðurinn gerir í þessari frétt á Mbl.is um Fornleifastofnun Íslands.

  3. Jón Óskarsson skrifar:

    Fyrirsögn í Mogga 

    Veita 3,6 milljónir í styrki til listamanna

    og þessi beygingarfæð endurtekin í fréttinni. 

    Svo er annað sem er farið að tröllríða öllum fréttaflutningi.  Það er letin við að fara með nöfn stofnana.  Nú er i tísku að skammstafa sem flest heiti ef nafn stofnunar eða fyrirtækis er tveggja orða eða fleiri. 

    Þetta er tiltölulega nýtt og má kannski rekja til erlendrar auglýsingamennsku og svo SMS skeytanna þar sem skammstafanir eru alsiða. 

    Fornleifastofnun Íslands (FSÍ).  Skammstöfun sennilega blaðamannsins.

    Hér er frétt á mbl.is sem segir meira en mörg orð

  4. Eygló skrifar:

    Ég veit ekki einu sinni hvað „umbúðalega“ þýðir! „… tvö hús hefðu verið rænd …“ ? Að rænt hefði verið úr tveimur húsum?

    Mér finnst svosem í lagi að nota „að vinna hörðum höndum“ þótt rætt sé um skrifstofufólk.  Það er svo víða sem merking hefur verið yfirfærð. Enda gerðir þú líka ráð fyrir að þetta gæti verið sérviska.  Sumir bankastarfsmenn hafa nú orðið að leggja árar í bát.

    Ömurlegt að þurfa að hlusta á RÍKISÚTVARP og RÍKISSJÓNVARP misþyrma íslenskunni daginn inn og daginn út, jafnvel oft í sama fréttatíma / þætti.

    Fór í rútuferð í dag. 2/3 voru leikskólabörn. Rútan var vel útbúin og kona nokkur sagði hátt og skýrt:  „Nú verða allir að muna að belta sig“

  5. Magnús Geir Guðmundsson skrifar:

    Komdu sæll Eiður!

    Nei, ekki er það nú gott er „aukning verður í fjölgun“,þó vissulega sé þessi málklaufska fyndin í aðra röndina.

    Þá játningu verð ég svo að gera, að hafa bara aldrei svo ég muni heyrt þetta orð,´“umbúðalega“, en hef hins vegar heyrt JFM segja margt annað og það alveg UMBÚÐALAUST!

    Af Kristjáni gömlum kunningja mínum verð ég aðeins að bera blak af, honum er viss vorkun, ólst upp að mestu vestur í Bandaríkjunum.Þó á auðvitað að gera kröfur til hans eins og annara þeirra sem falið er að stjórna útvarpsþáttum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>