«

»

Molar um málfar LXXI

 Fróðlegt er  að  skoða  bloggskrif  um  umræðurnar um stefnuræðu  forsætisráðherra  fyrr í  vikunni.  Það leynir sér  ekki að  nýtt  skjallbandalag er  komið  til  sögunnar ( Ekki veit ég hver  er  höfundur þess ágæta orðs, skjallbandalag, sem  er prýðileg  íslenskun  á því sem  á  ensku  er  kallað    Mutual  Admiration Society)  Þetta  minnir  svolítið á upphafsdaga  Kvennalistans  sáluga og   á  VG en  slær  þó  báða þá flokka út.      Þetta er  sjálfsagt ágætt,  eflir  sjálfstraustið og  stappar stálinu í liðið, en  verður á  stundum broslegt. Þetta  nýja   skjallbandalag er  í Borgarahreyfingunni  og einkar áberandi  á  síðu þar sem  einn þingmanna  hreyfingarinnar   birtir  jómfrúarræðu , eða jómfrúrræðu sína. Þar voru  síðast  er ég leit  þar við 24  athugasemdir  , nær allar halelúlja;  þú varst  stórkostleg.

  Enginn í aðdáendahópnum  víkur hinsvegar orði að því ,sem málglöggur maður benti  mér  á, að þingmaðurinn   ruglar saman  orðunum  varnarorð og  varnaðarorð. Ekki einu sinni, heldur     tvisvar.  Vörn  er  kvk. orð  ef. varnar — það að verjast. Varnaður   er kk. orð ef. varnaðar og  þýðir  vernd  ,  viðvörun  eða  aðvörun.  Varnarorð  eru því  orð sem  sögð  eru í varnarskyni  en   varnaðarorð  eru  aðvörun  eða viðvörun  um aðsteðjandi vá  eða  vanda.  Halelújakórinn á  blogginu gerir enga  athugasemd   við  þetta. 

 Það er svolítið  spaugileg orðanotkun, þegar fyrirlesari Siðmenntar á Hótel  Borg  þingsetningardaginn   skrifar á bloggsíðu sinni, að  Norðmenn skrifi   um þingmannaævintýrið á Hótel Borg. Þingmannaævintýrið var að   þrír eða  fjórir  þingmenn  drukku kaffi meðan  talsmaður  Siðmenntar las yfir þeim. Aðrir  þingmenn fylgdu þeirri  fornu hefð að  hlýða á guðsþjónustu í  Dómkirkjunni. Þegar  betur er að gáð þá  eru það  systursamtök Siðmenntar,sem  skrifa um  málið á heimasíðu sinni. Þetta var sem  sé  ekki  heimsfrétt í Noregi.  En  , – haft er  eftir  talsmanni  Siðmenntar á Íslandi: Sidmennt fikk masse gratis pr og positiv pressedekning.  Sem  sagt Siðmennt fékk mikla  ókeypis  kynningu og  jákvæða  fjölmiðlaumfjöllun.  Til þess var  leikurinn  auðvitað gerður og  fjölmiðlar bitu á  agnið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>