Móðurmálið fær ekki mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Lengi vel birti Morgunblaðið reglulega þætti dr. Jóns G. Friðjónssonar prófessors um mál og málnotkun. Þessir þankar,- þessi þarfa umfjöllun er einhverra hluta vegna horfin af síðum blaðsins. Það samræmist líklega ekki nýrri ritstjórnarstefnu að fjalla um notkun tungunnar með reglubundnum hætti. Skyldi ritstjórnin hafa kannað hve margir lásu þessa pistla áður en ákveðið var að úthýsa þeim ?
Hversvegna þarf að auglýsa íslenskt lambakjöt með enskuslettum? Það er mér hulin ráðgáta. Í grillveðrinu hefur gömul og gölluð auglýsing íslenskra sauðfjárbænda verið dregin fram í dagsljósið. Come on,krakkar , segir grillpabbinn. Er nokkur þörf á að nota enskuslettur til að mæra lambakjötið ? Held ekki.
Jackson frestar fjórum tónleikum,skrifar Vefdv (21.05.09.) Tónleikar er fleirtöluorð, einir tónleikar, tvennir tónleikar og svo framvegis. þessvegna á auðvitað að standa þarna , …frestar fernum tónleikum.
Heilt yfir er í tísku hjá fjölmiðlafólki. Í bakþankagrein í Fréttablaðinu (20.05.09) notar höfundur þetta orðatiltæki tvisvar . Þetta merkir það sama og enska orðtakið on the whole, eða þegar á heildina er litið, þegar allt kemur til alls, þegar öllu er á botninn hvolft,þegar á allt er litið, í það heila (i det hele) og svo mætti áfram telja. Molahöfundi er þetta framandi, en líklega eru fjölmiðlamenn að festa þetta í málinu, því þetta heyrist æ oftar. Ég er ekki fullsáttur við að taka svo til orða og enn kemur þar líklega sérviska mín til sögunnar.
Á fólk peninga til að versla þetta? Svona spurði fréttamaður RÚV (21.05.09.) í kvöldfréttum sjónvarps. Það er öldungis makalaust að fólk skuli ráðið í fréttamennsku hjá Ríkisútvarpinu sem þekkir ekki muninn á sögnunum að kaupa og að versla.
Miklir snillingar eru menn á Vefvísi. Nú hafa þeir fundið nýja fuglategund, en eftirfarandi var skrifað í Vefvísi í dag, 21.05.09.: Vísbendingar eru um að varp andarfugla við Reykjavíkurtjörn muni heppnast betur í sumar en á fyrri árum. Andarfuglar! Það var og. Það skyldu þó aldrei vera endur ?
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Bjarni Kjartansson skrifar:
22/05/2009 at 09:35 (UTC 0)
Einnig vil ég færa til, skólamann á Akureyri, sem var með málfarsþanka nær daglega í Mbl. Sá var fjölspakur um mál og málfar.
Gísli hét sá og var Jónsson, skemmtilegur penni og lipur þulur.
Með kærri þökk fyrir ádrepurnar allar.
Miðbæjaríhaldið
Eygló skrifar:
22/05/2009 at 02:25 (UTC 0)
„Heilt yfir“ -> svo segja alltof margir: „Í það heila tekið“ (s: I det hele tatt)
Steinunn Ragnhildur eða hvað hún nú heitir sú góða kona, sagði einmitt í Kastljósi: „Ertu búin að versla þér sundskýlu?“
Ýmsar verslanir eru með „bestu verðin“ og draga því úr löngunni til að fara 'erlendis'
Eiður, þú ert ómissandi