«

»

Molar um málfar og miðla 1331

 

Molavin skrifaði (19.10.2013): ,,Fyrirsögn Vísis 19.10. er í alvöru svona: Hugafarið hjá leikmönnum var til fyrimyndar Þessi orð eru svo rituð eins í fréttinni, þannig að varla er þetta innsláttarvilla. Þetta er ekki ,,eðlileg málþróun“ eins og þeir vitna oft til sem líkar ekki umvöndun. Þetta er dæmi um það þekkingarleysi, stjórnleysi og þá hroðvirkni, sem er að verða ríkjandi á fjölmiðlum. Yfirmönnum virðist standa á sama.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er óafsakanlegur málsóðaháttur.

 

Hvaða tilgangi þjónar það í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarps (18.10.2013) að þeir sem á skjánum eru æli framan í okkur áhorfendur eins og gert var á föstudagskvöldið og endurtekið daginn eftir? Já, æli framan í okkur, svo ótrúlegt sem það nú er. Er mönnum horfin öll dómgreind í Efstaleiti? Greinilega. Hversvegna í ósköpunum er hundruðum þúsunda eða milljónum sóað í bjánalega æluþætti, þegar svo margt situr á hakanum sem raun ber vitni?

 

Valgeir Sigurðsson fyrrverandi blaðamaður skrifaði í athugasemdadálk Molanna (19.102013): ,,Já, nú tala menn um 24 tíma, en ekki sólarhring. Fyrir mörgum árum benti Gísli Jónsson á Akureyri á það að nú töluðu allir um tvær vikur, en ekki hálfan mánuð. Hann varaði mjög við þessu og bað okkur lengstra orða að gleyma ekki þessu ágæta orðasambandi, hálfur mánuður. – Þessu er hér með komið á framfæri.” Kærar þakkir, Valgeir. Þú hefur jafnan eitthvað gott til málanna að leggja.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.10.2013) var talað um síldina sem drapst í Kolgrafarfirði síðasta vetur. Aftur og aftur er talað um eitthvað sem gerðist síðasta sumar eða síðasta vetur. Hversvegna ekki að segja í fyrra vetur, í fyrra sumar? Er það kannski málfársráðunautur Ríkisútvarpsins sem  hefur ákveðið að gera það útlægt að segja í fyrra sumar og í fyrra vetur?

 

Valur skrifaði Molum (20.10.2013) og benti á það sem hann kallar kostulega frétt á vef Ríkisútvarpsins.  Hér er fréttin. http://www.ruv.is/tonlist/stingurinn-med-acdc Lesendur dæmi. En Molaskrifari er á því að langt sé í frá þarna séu viðhöfð sæmilega vönduð vinnubrögð. Ekkert eftirlit virðist með því hvað er sett á vef Ríkisútvarpsins. Engin verkstjórn, engin ritstjórn.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Gunnar skrifar:

    Í morgun, (21.10.) var Hanna Birna, innanríkisráðherra, á Bylgjunni og talaði um „48 tíma leiðina“ sem Norðmenn ku nota gagnvart hælisleitendum. Ég hefði talað um „tveggja sólarhringa leiðina“. Merkilegt hvað ensk hugsun virðist fólki töm.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>