«

»

Molar um málfar og miðla 1330

Úr yfirliti hádegisfrétta Bylgjunnar (18.10.2013): Líklegt er talið að pólitísk samstaða náist um það á þingi að gera breytingar á frídögum landsmanna nái tillagan fram að ganga. Þetta las reyndur fréttamaður, Heimir Már Pétursson, án þess að hiksta. Molaskrifari er helst á því að ekki sé heil brú í þessari setningu.

 

Gunnar skrifaði (17.10.2013): „Tuttugu og fjögurra tíma tjónaþjónusta,“ auglýsir Sjóvá nú í sjónvarpinu. Hvað varð um hið góða og einstaka íslenska orð: „Sólarhringur“? Nú virðist auglýsingafólk ekki kunna annað en að apa bullið upp úr ensku, eins og t.d. 24/7 sem Nóatún auglýsti um skeið.- Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.

Ekki heyrir Molaskrifari betur en að sumir þeirra sem lesa texta með auglýsingum í Ríkissjónvarpinu séu farnir að apa eftir niðursoðnu konuröddinni sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarps og lesa auglýsingar með ýktum, tilgerðarlegum áherslum. Það er þeim vörum, sem auglýstar eru, ekki til framdráttar. Það er löngu tímabært að breyta fyrirkomulagi dagskrárkynninga í Ríkissjónvarpinu. Það er staðnað og frosið eins og nú er.

 

Það er vel til fundið að Ríkissjónvarpið skuli nú ætla að sýna heimildamyndir um sögu kvikmyndanna. Þessar myndir hafa verið sýndar á norrænu stöðvunum og þar hefur Molaskrifari séð hluta þeirra. Fínar myndir. Það er hinsvegar undarleg og óskiljanleg ráðstöfun að setja þessar myndir á dagskrá undir miðnætti.
Söfn opna á ný í Bandaríkjunum, segir í fyrirsögn á mbl.is ((18.10.2013). Ekki fylgdi sögunni hvað það var sem söfnin opnuðu. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/10/17/sofn_opna_a_ny_i_bandarikjunum/

 

Greint var frá því í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi (18.10.2013) að nú ætlaði Ríkissjónvarpið að stórauka þjónustuna við áhugafólk um íþróttir. Það er svo sem ekki nýtt að íþróttadeildin ráði dagskrá Ríkissjónvarpsins í ríkum mæli. Ekki hefur heyrst af áætlunum um að auka umfjöllum í menningarmál í dagská Ríkissjónvarpsins. Til dæmis með því að bjóða upp á óperur eða tónleika í beinni útsendingu., – svona rétt eins í íþróttunum.

 

Hversvegna tala íþróttafréttamenn aftur og aftur um að stela sigri ? Það var gert í fréttum Ríkisjónvarps á föstudagskvöld (18.10.2013). Er átt við óverðskuldaðan sigur?

 

Við gerum baksturinn snemma, segir í sjónvarpsauglýsingu frá Nettó, Granda. Að gera bakstur? Er það ekki að baka?

 

Óvenju lipur og áheyrilegur texti í áttafréttum Ríkisútvarps á laugardagsmorgni (19.10.2013).

 

Svo er hér í lokin ein spurning til ágætra stjórnenda Útsvars í Ríkissjónvarpinu: Hvernig á að bera fram nafn bandaríska ríkisins Connecticut? Ótrúlega erfitt fyrir fjölmiðlamenn að ná þessu. Það er ekki borið fram /konn´ekktíkött/!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir. Þörf ábending.

  2. Valgeir Sgurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Já, nú tala menn um 24 tíma, en ekki sólarhring. Fyrir mörgum árum benti Gísli Jónsson á Akureyri á það að nú töluðu allir um tvær vikur, en ekki hálfan mánuð. Hann varaði mjög við þessu og bað okkur lengstra orða að gleyma ekki þessu ágæta orðasambandi, hálfur mánuður. – Þessu er hér með komið á framfæri.

    K kv. VS.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>