Fyrir býsna löngu var ég staddur á mannamóti þar sem voru allmargir blaðamenn áamt fleira fólki. Man ég þá , að doktor Ármann Snævarr,sem þá var háskólarektor, varpaði fram þeirri spurningu hvað væru mörg dagblöð á Íslandi.
Menn fóru að telja. Fimm,var svarið. Fjögur morgunblöð og eitt síðdegisblað (Alþýðublaðið, Morgunblaðið, Tíminn, Vísir og Þjóðviljinn) Nei, sagði, Ármann Snævarr. Það er ekkert dagblað á íslandi. Það er ekkert blað sem kemur út alla sjö daga vikunnar. Hárrétt.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér um fimmleytið í dag , þegar sunnudagsmogga var stungið inn um póstlúguna á útidyrahurðinni. Þótt Moggi kom út sjö sinnum í viku er hann enn ekki orðinn dagblað. Það sem gerist síðdegis á laugardögum og sunnudögum kemur fyrst fyrir sjónir lesenda á mánudagsmorgni.
Einhverntíma í kringum 1970 vorum við sjónvarpsmenn við hafnarmynnið í Reykjavík eftir hádegið á laugardegi en von var á togara til hafnar, sem hafði fengið á sig brotsjó og laskast. Þar var líka ljósmyndari Morgunblaðsins. Sunnudagsblaðið var þá farið í prentun og næsta blað ekki væntanlegt fyrr en á þriðjudag. – Mér varð á að segja við ljósmyndarann. – Þú ert að taka í þriðjudagsblaðið. Hann tók því fálega.
Áhorfendur sjónvarpsins sáu myndir af togaranum fáeinum klukkustundum eftir að hann kom til hafnar, en lesendur Mogga á þriðjudagsmorgni..
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Ágúst Ásgeirsson skrifar:
08/07/2007 at 15:20 (UTC 1)
Þakka þér, nei það vantar eiginlega ekki orð í lokin. Orðið áður er strax á undan síðustu kommunni. Það hefði kannski farið betur á því að hafa þetta orð aftast, þ.e. á eftir „nokkrum dögum“.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
07/07/2007 at 23:53 (UTC 1)
Þakka þér athugasemdina og málfarsábendinguna. Það er alveg rétt hjá þér ,að ég hefði átt að gefa mér betri tíma til að lesa þetta yfir. Ísland með litlum staf , vöntun á orðabili og kommuvillur eru auðvitað hlutir sem ég tek grafalvarlega.
En er ekki lokasetningin í athugasemd þinni eitthvað endaslepp? Vantar ekki orð á eftir „..nokkrum dögum“ ?
Ágúst Ásgeirsson skrifar:
07/07/2007 at 19:24 (UTC 1)
Mér finnst það ekki til fyrirmyndar – og jafnvel fremur ódiplómatískt – að setja út á málfar og texta annarra þegar menn sýna sjálfir óvönduð vinnubrögð við textasmíð.
Út af fyrir sig er hægt að taka undir málfarslegar athugasemdir í klausum þínum, en í klausunni einni um að Mogginn sé ekki dagblað eru a.m.k. átta atriði sem finna má að. Það alvarlegasta er líklega að Ísland er skrifað með litlum staf!
Staf vantar í orðið ásamt, kommur eru ranglega staðsettar (þá , að og dag , þegar)eða óþarfar (sagði, Ármann) og orð renna saman í eitt oftar en einu sinni (Snævarr,sem og Fimm,var) .
Þetta flokkar þú vonandi ekki undir væl!
Skiptir svo nokkru máli hvort Mogginn er dagblað eða ekki? Er ekki aðalatriði að þar er á ferðinni fyrsta flokks fréttamiðill? Þú færð alla vega sjö blöð í viku? Og það var (og er kannski enn?) oft þannig að þá fyrst fengu menn raunverulegu fréttirnar þegar þær komu í Mogganum þótt þær hefðu birst að einhverju leyti í útvarpi eða sjónvarpi áður, jafnvel nokkrum dögum!