Málfarið hjá þeirri deild mbl.is sem kölluð er Smartland er oft óviðjafnanlegt.
Fyrirsögn þaðan: Í ,,mjólk” einum fata. Sjá http://www.mbl.is/smartland/frettir/2013/11/01/i_mjolk_einum_fata/
Hann mjólkin, eða hvað? Er Mogginn montinn af þessu?
Eru strákar heimskari en stelpur? Svona var spurt í Spegli Ríkisútvarpsins á föstudagskvöld (01.11.2013). Ja, hérna.
Af mbl.is (01.11.2013): Fálki einn hefur að undanförnu vanið komur sínar… Síðar í sömu frétt: Í gær greip fálkinn máf einn á flugi … Sem sagt: Fálki einn greip máf einn … Halló mbl.is.! Er verið að gera grín að okkur? Molaskrifari er nú reyndar vanari því að talað sé um máv fremur en máf. Meira úr sömu frétt á mbl.is: … og drap hann með að hakka máfinn í sig. Fréttabarn eitt á vakt á föstudagskvöldi?
Hvenær ætlar Ríkisútvarpið að sjá að sér og hlífa okkur hlustendum/áhorfendum við dagskrárkynningum í sjónvarpi sem eru uppskrúfuð tilgerð með undarlegum áherslum? Okkur er boðið upp á sömu tuggurnar viku eftir viku. Konuröddin er niðursoðin og getur ekki brugðist við bilunum eða útsendingarhnökrum eins og ótal dæmi sanna. Óboðlegt.
Fyrirsögn í Morgunblaðinu (02.11.2013): Stýrivextir Seðlabankans dragi þrótt úr atvinnulífinu. Það er eitthvað bogið við þessa fyrirsögn. Hún ætti ekki að vera í viðtengingarhætti, heldur framsöguhætti: Stýrivextir Seðlabankans draga þrótt úr atvinnulífinu.
Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður Stöðvar tvö sagði í kvöldfréttum á laugardagskvöld (02.11.2013): Varðskipið Þór er enn við slökkvistörf vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernöndu en skipin eru nú staðsett um 50 sjómílur beint út af Garðaskaga. Skipin eru ekki staðsett, skipin eru um 50 sjómílur, ekki út af Garðaskaga , — heldur Garðskaga. Til þess verður að ætlast að fréttamenn kunni skil á jafn einföldum hlutum eins og að fara rétt með nafn Garðskaga. Í sömu frétt talaði sami fréttamaður um að forða umhverfisslysi. Molaskrifari lærði fyrir margt löngu að svona ætti ekki að taka til orða, en vera má að þetta sé nú orðið viðurkennt orðalag. Þá var í fréttinni talað um að koma búnaði til björgunaraðila. Aðilar eru víða að störfum! Reyndur og sómakær vaktstjóri eða fréttastjóri hefði leiðrétt og lagfært þetta. Með fréttinni voru athugasemdalaust og skýringalaust birtar gamlar myndir af þessu sama skipi á strandstað fyrir einu eða tveimur árum. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð. Stöð tvö gerir ekki miklar kröfur til þeirra sem skrifa og segja þar fréttir. Gæðaeftirlit, leiðbeiningar og yfirlestur eru ekki til staðar þar á bæ.
Hér hefur verið spurt um kostnað Ríkissjónvarpsins við svokallaðar Hraðfréttir. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað, enda kemur viðskiptavinum Ríkisútvarpsins þetta sjálfsagt ekkert við. Umsjónarmenn fá sjálfsagt vel greitt fyrir að æla framan í okkur og bera á sér bossann á skjánum. Ríkissjónvarpið telur nauðsynlegt að sýna okkur sama Hraðfréttaþáttinn á besta tíma tvö kvöld í röð. Í endursýningu á laugardagskvöld (02.11.2013) vantaði hljóð að hluta og kom það ekki að sök heldur gerði þáttinn svolítið bærilegri. En í útsendingunni var engin skýring gefin á því að hljóð vantaði og engin afsökun borin fram. Ekki frekar en fyrri daginn. Kurteisi og háttvísi stjórnenda Ríkissjónvarpsins bregðast ekki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/11/2013 at 12:46 (UTC 0)
Fréttin er samhljóða í prentuðu Mbl. og á mbl.is K kv ESG
Eirný Vals skrifar:
04/11/2013 at 10:36 (UTC 0)
Sæll,
þar sem ég hef ekki pappírsútgáfu af Morgunblaðinu í dag þá get ég ekki fullyrt að frétt sem ég vitna í sé samhljóða þar og í vefútgáfu.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/04/segja_uppsagnir_vofa_yfir/
Félagsmenn starfsmanna ríkisstofnana óttast…..
Upphafið á fréttinni í vefúgáfunni er óskiljanlegt með öllu.