Sunnudagsmorgnarnir eru góðir á Rás eitt. Síðastliðinn sunnudag (03.11.2013) hlustaði Molaskrifari á þátt Unu Margrétar Jónsdóttur, Tónlist í straujárni, Spjall þeirra Ævars Kjartanssonar og Gísla Sigurðssonar við Örnólf Thorsson um fornsögur og þátt Höllu Steinunnar Stefánsdóttur, Girni grúsk og gloríur. Allt úrvals efni eins og best gerist á Rás eitt.
Fyrrum fréttamaður skrifaði (03.11.2013): ,,Það er orðið mjög algengt að menn segi ,,líkt og“ í staðinn fyrir ,,eins og“. Í sumum miðlum er þetta orðin regla fremur en undantekning. Greinileg enskuáhrif (?) eða hvað? Allavega ekki gott, finnst mér. ,,Líkt og sagt var í hádegisfréttum“, en ekki ,,Eins og sagt var í hádegisfréttum“. Molaskrifari þakkar bréfið. Réttmæt ábending.
Sunnudagsmorgunn Gísla Marteins Baldurssonar nær ekki flugi. Ekki enn. Áður hefur verið spurt: Hversvegna er þátturinn rammaðurinn inn í Reykjavík? Á þetta fyrst og fremst að vera Reykjavíkurþáttur fyrrverandi borgarfulltrúa? Hér þarf meira til að koma, ef þetta á að verða bitastæður þáttur.
Í umræðu um höfundarrétt í Sunnudagsmorgni Ríkissjónvarpsins (03.11.2013) talaði stjórnandinn, Gísli Marteinn, um að dánlóda (e. download) efni. Þingmaður Pírata talaði um niðurhal. Og ekki heyrði Molaskrifari betur en lögmaðurinn og þingmaðurinn, Brynjar Níelsson , talaði um einhver fólk . Vonandi var það misheyrn. Annað svipað: Í leiðara Fréttablaðsins (04.11.2013) skrifar Mikael Torfason: Ef eitthvað fé kemur í ríkiskassann ….
Ástæða hittingsins var … , sagði fréttamaður Stöðvar tvö (03.11.2013) um samkomu barna og aðstandenda þeirra í Laufásborg á sunnudaginn.
Úr fréttum Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (03.11.2013) um fyrirhugaða gjaldtöku á ferðamannastöðum: Undirbúningur við að koma slíku kerfi á er þegar hafinn og reiknar ráðherra með að henni verði lokið áður en …. Henni undirbúningnum ?
Meira úr réttum Stöðvar tvö þetta kvöld. Enn var sagt að flutningaskipið Fernanda sem eldur hefur logað í undanfarna sólarhringa væri staðsett suðvestur af Garðskaga. Skipið var suðvestur af Garðskaga. Í sömu frétt var talað um fárviðri. Veðurstofan hefur spáð stormi, hvassviðri. Það voru engar fréttir frá Veðurstofunni um fárviðri. Sá sem þetta skrifaði og sagði skilur ekki orðið fárviðri.
Broddi Broddason fréttamaður og þulur hlaut viðurkenningu úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar í gær (04.11.2013). Það var mjög að verðleikum. Hinsvegar var það óþarfa hæverska hjá Ríkisútvarpinu að segja ekki frá þessu fyrr en í seinni fréttum sjónvarps þá um kvöldið. Þetta átti alveg heima í aðalfréttatímanum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Oddbergur skrifar:
16/11/2013 at 13:46 (UTC 0)
Engum dytti í hug að segja „Áður fréttamaður skrifaði…“ eða „Forðum fréttamaður skrifaði…“
Eiður skrifar:
05/11/2013 at 16:57 (UTC 0)
Fyrrum , – áður, forðum.
Oddbergur skrifar:
05/11/2013 at 14:07 (UTC 0)
Fyrrum fréttamaður skrifaði (03.11.2013): ,,Það er orðið mjög algengt að…
„Orðið fyrrum er atviksorð sem merkir: fyrr á tíð, hér áður fyrr. Óheppilegt er að segja um þann sem er nýlega hættur í starfi að hann sé t.d. „fyrrum seðlabankastjóri“, fremur ætti að tala um fyrrverandi seðlabankastjóra.“
http://www.ismal.hi.is/cgi-bin/malfar/leita