Eiríkur Hermannsson skrifaði (05.11.2013): Að munda gullfótinn!
Sæll, Eiður, og þakka þér fyrir málfarspistla þína, sem ég reyni að fylgjast með reglulega. Margt hefur verið sagt um mismæli og ambögur sem falla í beinum íþróttalýsingum. Það er yfirleitt ekkert stórvægilegt og getur hent hvern sem er. Verra þykir mér þegar mismæli eða rökleysur festast og verða nánast að málvenju eða klisju sem er endurtekin æ ofan í æ. Þannig virðist mér farið með orðatiltækið sem ég setti í fyrirsögnina. Það hljómar ekki vel ,,að munda fótinn“, nema það sé verið að nota fótinn sem barefli. Þetta getur reyndar merkt að miða eða sigta út skilst mér, en jafnvel það passar illa að mínu mati. Hvað finnst þér?
Bestu kveðjur, Eiríkur” Molaskrifari þakkar Eiríki bréfið. Að munda fótinn, úr hverju sem hann annars er gerður, er auðvitað fáránlegt orðalag.
Fréttamaður Stöðvar tvö (05.11.2013) talaði um ofvirknislyf. Orðið virkni er eins í öllum föllum. Það er ekkert til sem heitir virknis. Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: Aðeins þrír voru í rútunni á tíma árásarinnar. Heldur ömurlegt orðalag, – á tíma árásarinnar! Aðeins þrír voru í rútinni, þegar árásin var gerð.
Í sjö fréttum Ríkisútvarps (05.11.2013) var talað um eftirmála vegna kæru. Enn einu sinni var hér ruglað saman orðunum eftirmál og eftirmála. Eftirmál eru afleiðingar af einhverri gjörð, verknaði, eða aðgerðaleysi. Eftirmáli er pistill frá höfundi, þýðanda eða útgefanda í lok bókar. Í átta fréttum sama morgun var notuð þágufallsmyndin himingeiminum. Rétt þágufall er himingeimnum. Sjá http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=himingeimur
Heimiliskötturinn skilaði sér óhultur, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (05.11.2013). Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja, til dæmis: Heimiliskötturinn skilaði sér heill á húfi. Heimiliskötturinn var óhultur. Í sama fréttatíma var talað um sýslumann í Noregi (n. lensmann). Réttara hefði verið að tala um lögreglustjóra. Í norsku dómsmálakerfi er aðeins einn sýslumaður. Hann er á Svalbarða. Enn skal hér nefnt til sögu að í þessum sama fréttatíma var sagt um fjölskyldu sem bjargaðist giftusamlega úr eldsvoða, að fjölskyldufaðirinn þakkaði lífsbjörgina …Lífsbjörg er fæða, matvæli. Eðlilegra hefði verið að segja: Fjölskyldufaðirinn þakkaði björgunina … Orðalagið var lagfært í tíu fréttum sjónvarpsins.
Mikið fréttablað Mogginn. Fyrirsögn á miðvikudag (06.11.2013): Drew Barrymore ólétt í annað sinn http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/11/06/drew_barrymore_olett_i_annad_sinn/ Það er sannarlega ekki til einskis að vera áskrifandi að Mogga. Ekki hefur Molaskrifari hinsvegar séð greint frá því í Mogga að Broddi Broddason fréttamaður og þulur í Ríkisútvarpinu hafi hlotið viðurkenningu úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar. Má vera að fréttin hafi farið framhjá honum, en einu sinni þótti veiting þeirrar viðurkenningar vera fréttefni á síðum Morgunblaðsins, og raunar fleiri blaða.
Á miðvikudagsmorgni (06.11.2013) var þessi frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins um yfirvofandi verkfall hjá norsku flugfélagi: http://www.ruv.is/frett/stefnir-i-verkfall-hja-norwegian Málið var löngu leyst og aldrei kom til verkfalls. Viðskiptablaðið, til dæmis, birti frétt á mánudag (04.11.2013) um að ekki hefði komið til verkfalls hjá flugfélaginu Norwegian. Sjá : http://www.vb.is/frettir/97955/ Norwegian tókst að koma í veg fyrir verkfall.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
07/11/2013 at 20:18 (UTC 0)
Bæði og, Þorvaldur. Sumt af þessu heyrðist.
Þorvaldur S skrifar:
07/11/2013 at 18:53 (UTC 0)
Var ekki sagt í þínu ungdæmi: Leikfimishús? Leikfimisbuxur? Vandvirknislega? Athyglisvert?