Hótel Saga í Bændahöllinni býður upp á boost og ávaxtasafa, – viðskiptavinum er boðið að panta sér sinn uppáhalds boost. Molaskrifari játar fáfræði sína, enda þótt hann þekki enska orðið boost.
Í átta fréttum Ríkisútvarps (07.11.2013) um dánarorsök Yassirs Arafats var haft eftir ekkju hans: Hún sagði að sig grunaði ekki neinn sérstakan um ódæðið. Betra hefði verið: Hún sagðist ekki gruna neinn sérstakan um ódæðið.
Egill skrifaði í athugasemdadálk Molanna (07.11.2013): ,,Sæll Eiður,
Á dv.is í dag er viðtal við Þórhall Gunnarsson undir fyrirsögninni ,,Við erum ekki að hvetja til fjárhættuspilunar“. Að hvetja til fjárhættuspils eða fjárhættuspila hefði verið betra. „Fjárhættuspilun“ er bara bull, orðskrípi.” Hárrétt athugað, Egill. Þakka ábendinguna.
Áslaug Guðrúnardóttir er prýðilegur fréttaþulur í Ríkisútvarpi. Hún má hinsvegar ekki falla í þá gryfju að hlusta ekki á það sem hún les. Á miðvikudagsmorgni (06.11.2013) í átta fréttum sagði hún frá góðum afla ísfisktogara í október. Þar kom fram að tveir togarar hefðu landað meira en 720 þúsund tonnum og einn yfir 700 þúsund tonnum ! Þarna var þúsundunum auðvitað ofaukið. Ekki heyrði Molaskrifari þetta leiðrétt . Þá var í þessari sömu frétt talað um að róa með troll, stunda togveiðar. Ekki er Molaskrifari vanur því orðalagi. Orðið troll er mest notað í talmáli. Oftast er talað um botnvörpu sem ýmsum finnst ef til vill frekar óþjált orð. Lengi hefur þó verið talað um trollbáta. Einnig var sagt um báta sem notuðu þetta veiðarfæri að þeir væru á trolli. Um miðja síðustu öld talaði amma Molaskrifara ævinlega um trollara en orðið togari, þjált og stutt, hefur algjörlega útrýmt orðinu trollari (e. trawler) . Margt í máli togarasjómanna var komið úr ensku, en af enskum lærðu Íslendingar togveiðar, að fiska með botnvörpu.
Yfirleitt er þjónusta sjónvarpsstöðvanna með ágætum þegar kemur að því að skoða fréttatíma á netinu, sem farið hafa framhjá manni. Undantekning er fréttatími Stöðvar tvö þriðjudaginn í þessari viku (05.11.2013). Þar er fréttatíminn í heild ekki aðgengilegur, hvað sem veldur. Aðeins íþróttafréttirnar það kvöld eru aðgengilegar á netinu.
Aftur og aftur heyrir maður sagt í fjölmiðlum að hafa gaman. Síðast í fréttum Stöðvar tvö á miðvikudagskvöld /06.11.2013). En í sama fréttatíma sagði Logi Bergmann Eiðsson réttilega , að hafa gaman af. Að hafa gaman gæti verið orðalag sem ætti rætur í ensku, – to have fun.
Tjón skipsins verður metið á næstu dögum, sagði fréttamaður Stöðvar tvö á miðvikudagskvöld (06.11.2013), Orðalagið tjón skipsins er út í hött. Tjón á skipinu verður metið. Því miður er þessum fréttamanni Stöðvar tvö einkar ósýnt um að koma frá sér villulausum fréttum. Fréttamaðurinn þarf leiðsögn, leiðbeiningar sem ekki virðast standa boða á fréttastofu Stöðvar tvö. Í sömu frétt sagði fréttamaðurinn að Fernanda yrði dregin aftur á Hafnarfjarðarhöfn. Sama orðlag notaði Logi Bergmann Eiðsson í inngangi að fréttinni. Skip er ekki dregið á höfn. Skip er dregið til hafnar eða í höfn. Og enn einu sinni var okkur í þessari frétt sagt að skipið hefði verið staðsett …. Það orðalag hefur, held ég, verið notað í hverri einustu frétt sem Stöð tvö hefur flutt um hrakfallasögu þessa skips.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar