Af mbl.is (12.11.2013): Lokað er yfir Vatnskarð í óákveðinn tíma vegna þverunar flutningabíls. Sjálfsagt skilja þetta flestir. Skýrara hefði verið: Vegurinn yfir Vatnsskarð er lokaður um óákveðinn tíma, en þar er flutningabíll þversum á veginum. Skarðið heitir Vatnsskarð, ekki Vatnskarð. Landafræði, – landafræði er veikur hlekkur hjá ungu fjölmiðlafólki, enda er landafræði ekki lengur kennd í grunnskólum landsins.
Hér koma nokkrar tímabærar og réttmætar athugasemdir sem Gunnar sendi (12.11. 2013): ,,Gleymst hefur að segja Herði Magnússyni, íþróttafréttamanni á Bylgjunni og Stöð 2, frá því að í sænsku er stafurinn „ä“ borinn fram eins og „e“, en ekki „a“. Því á að segja, eins og áður hefur komið fram, „Lagerbekk“ en ekki „Lagerbakk“ eins og hann sagði í hádegisfréttunum 7. nóvember sl.
Nýr fréttamaður Stöðvar 2, Jón Júlíus Karlsson, þarf að vanda framburðinn betur. Í sunnudagsfréttum sagði hann m.a.: „þrátju“, „landsfestar“, auk fl.
Þá talaði Magnús Hlynur um „stæðsta vinnustaðinn“, en ekki þann stærsta, í sama fréttatíma.
Og einnig sagði fréttaþulur: „Enska heitið heitir …“
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps 12. nóvember talaði utanríkisráðerra Íslands, Gunnar Bragi Sveinsson, um „Landsbjörgu“ en það er alrangt. Hann á að tala um „Landsbjörg“. Rétt fallbeyging er: Landsbjörg, Landsbjörg, Landsbjörg, Landsbjargar.” – Kærar þakkir, Gunnar.
Í Spegli Ríkisútvarpsins (12.11.2013) var rætt við formann Félags grunnskólakennara, sem talaði um að hækka kjörin. Betra hefði verið að tala um bæta kjörin. Sá hinn sami spurði fréttamanninn: Ertu þá að meina námslega?
Allt er nú –lega. Í enn einum íþróttaþættinum í kvölddagskrá Ríkissjónvarps (12.11.2013) var talað um : … mjög skemmtilega vinnu, sóknarlega.
Það linnir ekki óléttufréttunum á mbl.is http://www.mbl.is/smartland/stars/2013/11/12/unnur_birna_a_von_a_odru_barni/ Molaskrifari veltir því stundum fyrir sér hvort þeir Matthías og Styrmir hefði talið það vera í verkahring Morgunblaðsins að flytja fréttir af þessu tagi. Efast stórlega um það.
Alltaf er verið að koma manni á óvart. Til er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins. Það kom fram í Kastljósi gærkvöldsins (12.11.2013).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar