Í fréttayfirliti Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (12.11.2013) var sagt að forstjóri MS, Mjólkursamsölunnar, skildi ekki fárið vegna umræðu um sykurinn sem fyrirtækið mokar í mjólkurvörur. Elín Hirst, alþingismaður, hafði vakið athygli á þessu í þingræðu. Það var sannarlega ekki að tilefnislausu. Ekkert kom hinsvegar fram í fréttatímanum um þetta. Ummæli hans sem vitnað var til í inngangi fréttanna höfðu sennilega verið klippt burt úr fréttinni eins og hún birtist okkur. Ógóð vinnubrögð.
– Við höfnum ekki annarra manna tillögum, þó þær séu ekki frá okkur komnar, sagði alþingismaðurinn Vigdís Hauksdóttir í fréttum Stöðvar tvö (12.11.2013). Það var og ! Í sama fréttatíma talaði fjármálaráðherrann um skynsamar tillögur! Tillögur eru ekki skynsamar eða óskynsamar. Þær eru skynsamlegar eða óskynsamlegar.
Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður Stöðvar tvö talaði (12.11.2013) um sykurmagnið í þessum jógúrtum! Ekki getur það talist vel að orði komist. Fleiri málfarshnökrar voru í þessari stuttu frétt.
Í frétt Ríkissjónvarps(12.11.2013) um erlenda fjölmiðlamenn sem hingað koma vegna fótboltaleiks var sagt að hingað kæmu fjölmiðlamenn frá öllum Skandinavíulöndunum. Þetta hefði mátt orða á annan veg.
Af forsíðu mbl.is (13.11.2013): Franskur karlmaður um tvítugt sem er 230 kíló að þyngd hefur verið synjað um að fjúga ( á að vera fljúga) frá Bandaríkjunum til Evrópu. Það er hreint með ólíkindum hversu oft maður hnýtur um ambögur af þessu tagi í fjölmiðlum. Hér ætti auðvitað að standa: Frönskum karlmanni um tvítugt … hefur verið synjað um … Þetta var leiðrétt seinna í sjálfri fréttinni.
Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (13.11.2013) að Margrét Danadrottning hefði verið viðstödd hátíðarkvöldverð á Bessastöðum kvöldið áður. Snæddi hún ekki kvöldverð á Bessastöðum? Jú, auðvitað.
Molaskrifari áttar sig ekki á því hvaðan orðalagið að skip liggi við höfn sé komið. Við heyrum þetta aftur og aftur í fréttum þessa dagana. Síðast í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (13.11.2013). Skip liggja við bryggju, við festar, við akkeri. Ekki við höf, – ekki samkvæmt málkennd Molaskrifara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar