Fanney benti á eftirfarandi frétt á mbl.is)14.11.2013) og spyr: Hvað er að afla tekjur? http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/11/13/malta_selur_rikisborgararett/
,,Haft er eftir Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, í frétt írska dagblaðsins Irish Independent að tilgangurinn með áætluninni sé að afla ríkissjóði eyríkisins tekjur og laða að fjársterka aðila sem kynnu að vilja fjárfesta innan þess.” Molaskrifari þakkar Mörtu ábendinguna.
Orð að sönnu, – úr leiðara Morgunblaðsins um fyrirhugaða lokun flugbrautar og nýja íbúðabyggð í Skerjafirði: (14.11.2013): ,,Þessar hugmyndir og fleiri ámóta í grónum, hverfum borgarinnar sýna að að borgaryfirvöld hafa misst öll tengsl við raunveruleikann þegar kemur að því að skipuleggja borgina og þjóna íbúum hennar”. Stjórnendur Reykjavíkurborgar eru á villigötum í hverju stórmálinu á fætur öðru. Það er ógott fyrir framtíð höfuðborgarinnar. Réttilega er bent á í leiðaranum að skipulagsslys sé í uppsiglingu í Skerjafirði. Höfuðborgarbúar ættu allir að hafa áhyggjur af því.
Gunnar benti á eftirfarandi (14.11.2013): ,,Andri Freyr á Rás 2 ætlaði að gerast menningarlegur og sagði: „Margt vatn hefur runnið til sjávar …“ í þætti sínum 13. nóvember. Fátt er sorglegra en að heyra fólk reyna að nota orðatiltæki sem það kann ekki.
Forglagið auglýsir: „Hryllilegustu og draugalegustu sögur miðbæjarins safnað saman í ríkulega myndskreytta bók!“ Sögurnar er ekki safnað saman, sögunum er safnað saman”. Takk fyrir sendinguna , Gunnar.
Því er hér við að bæta að þeim hinum sama Andra Frey virðist fyrirmunað að bera fram orðið hljómsveit. Hann segir jafnan: Hljóst. Nú hefur verið sannað í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að við stofnunina starfar málfarsráðunautur. Hvernig væri að hann tæki að sér að kenna dagskrárgerðarmanninum
að bera fram orðið hljómsveit?
Fyrsta haftið sprengt sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (14.11.2013)
http://www.ruv.is/frett/fyrsta-haftid-sprengt-i-dag Það var verið að sprengja fyrstu sprengihleðsluna við gerð Norðfjarðarganga. Molaskrifari fær það ekki til að samræmast sínum málskilningi eða tilfinningu að þarna hafi eitthvert haft verið sprengt. Haft er eitthvað sem hindrar framgang einhvers, fyrirstaða. Hvað segja Molalesendur? Í fréttinni segir: ,,Sprengja þarf eitt þúsund og fimmhundruð sinnum fyrir rúmlega sjö kílómetra löngum göngunum”. Þarf þá að sprengja eitt þúsund og fimm hundruð höft?
Það er plagsiður stjórnmálamanna að neita eigin ummælum. Segjast ekki hafa sagt það sem þeir sögðu, eða ekki meint það sem þeir sögðu. Engum sem hlýddi á ummæli iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ræðu á haustfundi Landsvirkjunar gat dulist að ráðherrann var að snupra stjórnendur Landasvirkjunar fyrir að vera ekki nógu samningaliprir við þá sem vildu kaupa orku. Daginn eftir kom svo ráðherrann í útvarpsviðtal og sagðist alls ekki hafa verið að snupra forstjóra og stjórnendur Landsvirkjunar! Dæmigerð framkoma stjórnmálamanns sem lendir í vandræðum vegna vanhugsaðra ummæla.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar