Helgi Haraldsson , prófessor emeritus í Osló sendi molum línu (15.11.2013):
Helgi spyr: ,,Eru til kirkjur með sérstakar grátur fyrir börn?
Sem gefa frá sér hljóð?! Sjá:
,,Ótrúleg björgun þriggja ára telpu – Féll á milli rimla á fjórðu hæð og hékk á höfðinu
Hér er verið að vitna í frétt á dv.is: http://www.dv.is/skrytid/2013/11/13/otruleg-bjorgun-thriggja-ara-telpu/
Molaskrifari þakkar Helga sendinguna.
Molaskrifari sá á fésbók (15.11.2013) að gömul bekkjarsystir systir hans úr Austurbæjarskólanum (1947 til 1952) , Hlíf Samúelsdóttir, vakti athygli á fáránlegri fyrirsögn á mbl.is. Hlíf skrifar: ,,Ja hér, hef aldrei heyrt annað eins og fyrirsögn á mbl.is ,,Búa Kim einhver og Keyne einhver sundur“ að búa sundur ? Hvernig er hægt að skrifa svona vitleysu ???? “.http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/11/14/bua_kim_kardashian_og_kanye_west_i_sundur/
Molaskrifari bætir við. Von er að spurt sé. Morgunblaðinu virðist horfin dómgreind og sómatilfinning, – einkum og sér í lagi þegar skrifað er um leikara og lið sem blaðið telur frægt í útlöndum.
Völlurinn er iðagrænn, sagði Haukur Harðarson íþróttafréttamaður í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (15.11.2013). Betra hefði verið að segja að völlurinn væri iðjagrænn eða iðgrænn. Svo var Ríkissjónvarpið ekki aðeins með upphitun eins og íþróttafréttamenn klifa sífellt á, heldur ítarlega upphitun.
Tæklum launamisrétti kynjanna, auglýsir Jafnréttisráð í sjónvarpi. Ekki vandað mál. Í auglýsingu frá Ormson segir um AEG heimilistæki: Fullkomin lögun og leikni. Hvernig getur orðið leikni átt við um heimilistæki? Það skilur Molaskrifari ekki.
Hversvegna eru stundum veðurfréttir frá vesturheimi í Ríkissjónvarpinu og stundum ekki? Hvað veldur?
Í dag 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu. Allir dagar eiga að vera dagar íslenskrar tungu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
16/11/2013 at 14:00 (UTC 0)
Mikið til í því, Kristján.
Kristján skrifar:
16/11/2013 at 10:59 (UTC 0)
„Morgunblaðinu virðist horfin dómgreind og sómatilfinning, – einkum og sér í lagi þegar skrifað er um leikara og lið sem blaðið telur frægt í útlöndum.“
Tek undir þetta. Allt of mikið af ómerkilegum fréttum af Lindsey Lohan, Kardasian, Simon Cowell ofl. Visir.is er orðinn mun betri og áreiðanlegri en mbl.is.