«

»

Molar um málfar og miðla

Endurbirt vegna númerabrengls:

 

Jórunn Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu á laugardaginn (16.11.2013). Það var verðskulduð viðurkenning. Til hamingju, Jórunn.

Verðlaunahafinn mælti nokkur orð er hún veitti verðlaunum viðtöku og var ómyrk í mál um stofnunina sem hún starfar fyrir, Ríkisútvarpið. Hún sagði meðal annars (tilvitnun af vef Ríkisútvarpsins): ,, …. þrátt fyrir þetta eru tilfinningar mínar á þessari stundu tvíbentari en ég hefði óskað, vegna þess að stofnunin, sem ég á þessari viðurkenningu að þakka, er í uppnámi, stjórnlaus, og hefur verið nokkuð lengi. Nú skorti fé, það verður að draga úr útgjöldum og forgangsraða. Samfélagið er flókið fyrirbæri og peningar eru hreyfiafl, en peningar búa ekki yfir neinu gildismati. Ákvarðanir um hvernig þeim er varið felur hins vegar í sér gildismat og það gildismat verður til út frá sýn okkar um það sem við notum þá til. Útvarpið stendur á tímamótum, tæknilega og samfélagslega. Það þarfnast sárlega skýrrar sýnar frá umboðsmönnum eigenda sinna, yfirstjórn mennta- og menningarmála og ráðamönnum útvarpsins sjálfs. Ég óska eftir slíkri sýn og lýsi mig reiðubúna til að taka þátt í opinni samræðu um hana. Rás 1 má ekki hverfa“. (Feitletrunin er frá Molaskrifara komin.) Molaskrifari hefur svo sem nefnt það að Ríkisútvarpið er stjórnlaus stofnun í ölduróti hins íslenska fjölmiðlahafs, enda þótt þar starfi mjög margt hæft fólk, sennilega fleira en á flestum öðrum miðlum. –

 

Á degi íslenskrar tungu birtist í Fréttablaðinu heilsíðuauglýsing um jólatónleika Mótettukórs Hallgrímskirkju. Áreiðanlega er þetta merkur listviðburður. Auglýsingin er bæði á íslensku og ensku. Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort lesendur Fréttablaðsins sem aðeins skilji ensku séu mjög fjölmennur hópur. Sennilega ekki. Varla er verið að höfða til ferðamanna, sem fæstir lesa sennilega Fréttablaðið með því að auglýsa á ensku tónleika sem fara fram eftir þrjár vikur. Kannski er þetta bara tímanna tákn um vaxandi veldi enskunnar hér á landi. En auglýsingadagurinn var illa valinn.

 

Af mbl.is (16.11.2013 )úr frétt um færð á vegum: ,,Vakin er athygli á að ekki eru allir vegir í þjónustu alla daga vikunnar.” Dálítið sérkennilegt orðalag. Með orðunum í þjónustu er sennilega átt við að ekki sé rutt eða mokað á öllum vegum alla daga.

 

Af mbl.is /17.11.2013) úr frétt um farþegarþotu sem snúið var til baka til Glasgow vegna gruns um bilun: ,,Á leiðinni drapst á einum hreyfla vélarinnar, að sögn …” Þoturnar sem Icelandair notar til farþegaflugs eru með tveimur hreyflum. Hér hefði því átt að segja

að drepist hefði á öðrum hreyfli vélarinnar. Sama vitleysan er endurtekin seinna í fréttinni. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/17/flugvel_snuid_vid_vegna_bilunar/

 

Heldur skánar þátturinn Sunnudagsmorgunn GMB í Ríkissjónvarpinu , sem enn er eiginlega bara Reykjavíkurþáttur. Ekki örgrannt um að Eyjólfur sé aðeins að hressast. Alltaf jafn gaman að heyra Vigdísi Hauksdóttir halda því fram að gríðarleg fjölgun aðstoðarmanna ráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sé alfarið fyrri ríkisstjórn VG og Samfylkingar að kenna! Þeir sem helst trúa því eru líklega mannvitsbrekkurnar , sem kusu konuna á þing.

 

Gísli Marteinn á ekki að segja að einhver hafi sigrað prófkjör Sjálfstæðisflokksins., eins og hann gerði í gær. Það er hálfgert bull.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>