«

»

BRÁÐSKEMMTILEGUR ÖSSUR FER Á KOSTUM

Þegar ég var hálfnaður að lesa Ár drekans, – Dagbók Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á umbrotatímaum, fór ég að kvíða því að bókinni lyki allt of fljótt. Það gerist stundum við lestur góðrar bókar, að minnsta kosti hjá mér.

Mér fannst þessi dagbók Össurara eiginlega samfelldur skemmtilestur. Þetta var nánast eins og fullkominn pólitískur reyfari þeim sem áhuga hafa á íslenski pólitík og hafa starfað í pólitík. Reyfari, sem ekki er skáldsaga, ekki uppdiktaður, heldur sagt frá mikilvægum atburðir eins þeir blasa við af sjónarhóli eins af aðalþátttakendunum.

 

Össuri er  létt um að skrifa. Hann býr yfir fágætri orðgnótt. Textinn rennur ljúflega án þess að vera frauð. Dagbókin er nákvæm og hvergi hef ég séð fullyrðingar um að hann halli réttu máli. Hann er þrekmikill ferðalangur eins og utanríkisráðherra þarf að vera. Á sér  gott tengslanet um gjörvalla Evrópu og víðar sem nýtist honum og þjóðinni vel. Hann á víða vini. Farsíminn sífellt á lofti. Fróðlegt væri að hugsa sér hvernig þessi dagbók og ýmsir atburðir hefðu þróast ef ekki væri farsíma- og smáskilaboðatæknin, – hann kallar að senda smess, smöss í fleirtölu. Ekki svo galið. En þessa hugsun þýðir ekkert að reyna að hugsa til enda. Tilgangslaust.

 

Málin snúin og erfið, hvert öðru verra viðfangs, Icesave, ESB umsókn og makríl deila, ósætti innan ríkisstjórnar um allt milli himins og jarðar, fiskveiðistjórnun, rammaáætlun um nýtingu orkulinda, stjórnarskráin, upptalningin gæti verið lengri . Og forsætisráðherra ekki alltaf auðveld í samskiptum! Öllu þessu gerir hann skil og fróðlegt er fyrir gamlan pólitíkus að fá þessa glöggu sýn á þróun mála og umræður.

 

Það er grunnt á húmornum og hann er víða.  Svo vill til að sem sjö, átta ára patti í Norðurmýrinni kynntist ég foreldrum Össurar dálítið, og seinna meir í skátastarfi. Valgerður afgreiddi í Silla & Valda versluninni á Háteigsveigi 2 og Skarphéðinn í Kjöthöll Christensens á Klömbrum sem var við hliðina á Silla & Valda. Stíllinn á bókinni og skaplyndi Össurar er skemmtileg blanda af þeim báðum eins og ég þekkti þau. Leiftrandi húmor Skarphéðins og jafnaðargeð Valgerðar og góð greind þeirra beggja. Mér finnst oft að Össur sé ágæt blanda þessara góðu eiginleika foreldra sinna.

 

Eitt af því sem mér finnst merkilegt við þessa pólitísku dagbók Össurar er það að hann talar eiginlega vel um alla. Það er sjaldgæft í svona langri pólitískri frásögn. Kannski einsdæmi. Dagbókarfærslurnar eru mislangar, engin verulega löng. En nær öllum lýkur þeim með stuttum kjarnyrtum setningum, sem sumar eru svolitlir gullmolar , – einskonar smöss! Össur er einlægur vinur vina sinna og gerir vin sinn Ólaf Ragnar meira að segja mannlegan, – sem hann auðvitað er. Eins skín í gegn væntumþykjan um konu og dætur. Þar er margt fallega sagt. Að verðleikum hrósar hann toppmönnum utanríkisþjónustannar, —  þeirra sem hafa staðið í eldlínunni í ESB málunum. Þar eru engin aukvisar á ferð. Það þekki ég. Það er engin ríkisstjórn illa sett með svo öfluga sveit. Þar eigum við í liði embættismenn á heimsvísu. Það eru ekki ýkjur. En hann hrósar líka þeim sem vinna önnur störf sem ekki eru eins áberandi , – eins og ómetanlegum riturum sem sumir hverjir gætu erfiðleikalaust rekið sendiráð á við næstum hvaða kall sem er.

 

Sá sem þetta skrifar þykist vera nokkuð fundvís á prentvillur og misfellur í texta. Hann er ósjálfrátt alltaf að prófarkalesa! Hann hnaut eiginlega ekki um neitt í þessari næstum 400 blaðsíðna bók. Varla prentvillu. Það er til fyrirmyndar. Dagbókin er í snotru kiljuformi, sem er skynsamlegt. Hún er létt og meðfærileg og bandið þolir greinilega fleiri en einn lestur.

 

Þetta er ekki ritdómur heldur bara svolitlir þankar um eina skemmtilegustu bók um íslenska pólitík sem ég hef lengið lesið. Bókin veitir innsýn í eitt og annað áður hulið. Össur Skarphéðinsson vex af þessari bók. Hún er fróðleg, stundum spennandi, alltaf skemmtileg, og aldrei langdregin. Takk, félagi Össur.

 

Eiður Svanberg Guðnason

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>