«

»

Molar um málfar og miðla 1360

Það er flest slæmt í sambandi við niðurskurðinn og uppsagnirnar hjá Ríkisútvarpinu. Einna verst er að ráðist er sérstaklega á Rás eitt , menningarrásina þar sem eru margir frábærir og vandaðir dagskrárliðir. Rás eitt er meginstoð stofnunarinnar ( sem útvarpsstjóri ævinlega kallar ,,félagið”) Dregið úr hjá Kastljósi , einum þarfasta þætti sjónvarpsins, fréttatímum væntanlega fækkað og þeir styttir. Fréttaþjónusta er eitt meginhlutverk Ríkisútvarpsins. Molaskrifara finnst þó að ekki hefði verið stórskaði að því að fella niður seinni fréttir Sjónvarpsins. Þær bæta yfirleitt ákaflega litlu við það sem sagt var í sjöfrétttum. Í gærkveldi var tilkynnt  að öllum fréttaflutningi verði hætt á nóttinni. Mikil afturför. Þótt yfirstjórn Ríkisútvarpsins sofi á nóttinni er hluti þjóðarinnar vakandi við störf á sjó og landi. Vakt  verður þó  á fréttastofunni alla nóttina í öryggisskyni að því er sagt var.  Hversvegna  er þá ekki hægt að vera með þriggja mínútna fréttir á klukkutímafresti ,ef maður er hvort sem er á vakt?  Raunar ættu að vera  fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Traust og trúverðug fréttaþjónusta er eitt megin hlutverk Ríkisútvarpsins.

Það hefði að skaðlausu mátt draga úr kostnaði við íþróttadeildina. Sleppa endalausu fjasi fyrir og eftir kappleiki. Hætta við rándýra vitleysu eins og tíu milljóna þáttinn Vertu viss á laugardagskvöldum. Hvað skyldi hver þáttur kosta margar milljónir? Sleppa svokölluðum Hraðfrétttum. Þær kosta örugglega talsvert. Einbeita sér að ódýrri innlendri dagskrárgerð, til dæmis í líkingu við það sem Ingvi Hrafn gerir á ÍNN og gert er á norðlensku stöðinni N4. Þar sem margt prýðilega gott er gert með litlum tilkostnaði.

Örugglega mætti líka spara í dagskrárskrárgerð Rásar tvö. Sleppa til dæmis bullinu sem kennt er við Virka morgna.

Það þurfti að draga úr kostnaði. En stjórnendur stofnunarinnar fóru rangt að. Framkoman við trygga starfsmenn var hreint ekki góð. Þarfasta verkið hefði verið að setja stofnuninni nýja stjórnendur. Meinið lá ekki hjá þeim lægst settu í þessari ágætu þjóðarstofnun. Sigmar stóð sig ágætlega í Kastljósinu í gærkveldi (28.11.2013). Útvarpsstjóri varðist og kenndi öðrum um hve harkalega var gengið fram gagnvart þeim sem sagt var upp störfum.

 

Fyrirsögn á leiðara í Morgunblaðinu (28.11.2013):Banki sektaður um metfé. Vikið var þessari notkun orðsins metfé í bréfi frá Molavin (Molar 1358). Þar sagði : ,, .. með ,,metfé“ er átt við verðmætan grip , kostagrip, mikils metinn, en ekki upphæð. Hitt er svo annað mál að metfé getur selzt fyrir metupphæð.” Leiðarahöfundur Morgunblaðsins á að vita betur.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (27.11.2013) var sagt: Þeirri staðreynt væri ekki hægt að líta undan. Molaskrifari hefði sagt: Þeirri staðreynd væri ekki að horfa framhjá.

 

Í tíufréttum Ríkissjónvarps (27.11.2013) var sagt að Jón Gnarr borgarstjóri ætlaði að stíga til hliðar. Þetta er fáránlegt og óíslenskulegt orðalag sem heyrist þó æ oftar í fjölmiðlum. Á góðri íslensku væri bara sagt að Jón Gnarr ætlaði að hætta sem borgarstjóri.

 

Vinur Molanna skrifaði (28.11.2013): ,,Komdu sæll!
Á fésbókinni hefur gott málfar ekki alltaf fengið að njóta sín, og er það miður. Þar sem ég er nú að stúdera íslensk fræði í Háskóla Íslands, þeirri virðulegu menntastofnun, þá geri ég það oft að gamni mínu að leiðrétta litlar stafsetningar- og málfarsvillur sem á vegi mínum verða. Það var ansi ljótt í dag, þegar ég sá eftirfarandi slettu frá íslensku fyrirtæki sem auglýsir bætiefni fyrir íþróttamenn. Ég gef ZonePerfect Ísland orðið:
„Hver er þín vetrarútivist?
ZonePerfect barirnir okkar eru tilvaldir til að grípa með sem millimál.“
Þarna er notast við enska orðið „bar“ og því skellt í fleirtölu þegar fyrirtækið auglýsir súkkulaðistangir, ætlaða íþróttamönnum.

Já, það má heldur betur laga málfarið á fésbókinni!
Ég læt fylgja vefslóð umræddrar auglýsingar: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=577809375623976&set=a.504015466336701.1073741829.496491397089108&type=1&theater,, Molaskrifari þakkar vini Molanna bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján Kristinsson skrifar:

    Þett er mín skoðun: RÚV er fyrir alla. Fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum, Hraðfréttum, Kastljósi, klassískri tónlist, íslenskri popp- og rokktónlist, bókmenntum, dægurmálum, fréttum o.s.fr. Þó þú hafir einhverja skoðun á því hvað eigi að fara og hvað eigi að vera þá er þín rörsýn ekki endilega rétt.

    Og það þarf ekki að skera niður hjá RÚV. Ég borga rúmar 18 þús. á ári í gegnum nefskattinn og ég geri bara þá kröfu að sá peningur fari allur til RÚV

  2. Eiður skrifar:

    Segjum það. Mrkilegt verður að sjá Færeyjaþættina sem Ríkisútvarpið gerði hann út af örkinni til að gera.

  3. Arnbjörn skrifar:

    Eigum við ekki að segja að þar séu fyrstu stafirnir í nafni hans komnir.

  4. Eiður skrifar:

    Hvern áttu við ? Andra Frey?

  5. Arnbjörn skrifar:

    Tók eftir að yfirmálníðingur Ríki8sútvarpsins er ekki meðal þeirra sem var sagt upp. Sjálfsagt sendir hann umsjónarmanni molanna jólakveðju á Þorláksmessu líkt og hann gerði í fyrra.

  6. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir Kristján.

  7. Kristján skrifar:

    Menntamálaráðherra var í stuttu viðtali í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld. Það vakti athygli mína að hann notaði ekki skammstöfunina „RÚV“ í þessu stutta viðtali. Hann talaði ítrekað um „Ríkisútvarpið“. Gott að heyra.

    Annars er það bruðl og flottræfilsháttur sjónvarps RÚV sem fer mest fyrir brjóstið á mér. Norrænu stöðvarnar eru mun hógværari í alla staði. Hvers vegna getur RÚV ekki tekið þær til fyrirmyndar. Rás 1 stendur reyndar upp úr, eins og vin í eyðimörkinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>