Ekki heyrði ég betur en sagt væri í auglýsingu Ríkisvarpinu (03.06.09.) um nýja bók Guðna Th. Jóhannessonar, Hrunið, – Hrunið verður dreift í bókaverslanir á morgun. Ljótt er , hafi ég heyrt rétt.
Jóhanna gerir einræðisvaldinu í Kína til góðs, skrifar stórbloggarinn Stefán Fr. Stefánsson á bloggsíðu sinni (02.06.09). Hann er að túlka þá skoðun sína að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé höll undir stjórnvöld í Kína, – sé að þóknast þeim. Orðatiltækið að gera einhverjum til góðs , veit ég ekki til þess að sé til í íslensku. Það er talað um að gera einhverjum til góða, hlynna að honum eða hjálpa. Einnig er talað um að gera einhverju til góða, að lagfæra eitthvað sem er úr lagi gengið eða endurbæta. Að gera einhverju til góðs er merkingarleysa.
Í Molum um málfar er stundum fjallað um fleira en málfar í þrengsta skilningi. Það var sérkennilegt að heyra kynningu umsjónarmanns Íslands í dag (02.06.09.) er sagt var að nú yrði rætt við starfsmanna Flugstoða, sem mundi varpa ljósi á hvað hefði farið úrskeiðis , þegar frönsk farþegaþota fórst yfir Atlantshafi. Margsinnis hefur komið fram í fréttum að enginn veit hvað fór úrskeiðis, ekki þessi ágæti starfsmaður Flugstoða frekar en aðrir. Þarna var verið að blekkja áhorfendur. Það er slæmt vinnulag.
Oftlega er hér vikið að auglýsingum. Í Ríkisútvarpi heyrist þessa dagana svolítið fyndin auglýsing ,sem hljóðar svo: Njótum saman detox – Glymur punktur is. Nú er detox – afeitrun – sletta sem ekki ætti að heyrast í Ríkisútvarpinu þar sem auglýsingar eiga að vera á lýtalausri íslensku. Hluti þessarar afeitrunarmeðferðar er fólginn í því að sprautað er vatni upp í afturendann á þeim sem láta glepjast af þessum skottulækningum. Ég segi nú bara fyrir mig , ef ég þyrfti að undirgangast slíkt, mundi ég helst vilja gera það í einrúmi , en ekki njóta þess með öðrum !
Enn um ferð utanríkisráðherra til Möltu : Það er sérkennilegt að RÚV Sjónvarp (03.06.09.) skuli í skjáfyrirsögn segja: Össur á eigin vegum. Eins og utanríkisráðherra Íslands hafi farið sem venjulegur ferðamaðuir, túristi, til Möltu. Þetta og það að RÚV skuli undrast að utanríkisráðherra skuli ekki hafa borið Möltuferð sína undir formann utanríkismálanefndar ber vott um djúpstæða vanþekkingu á íslensku stjórnkerfi og hlutverkum framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Það er áhyggjuefni.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Bernharð Haraldsson skrifar:
04/06/2009 at 16:53 (UTC 1)
Framlag mitt til orðabelgs dagsins er, að hann hafi ruglað saman „að gera einhverjum e-ð til geðs“ og „að gera einhverjum e-ð til góða“
Bernharð Haraldsson
Jens skrifar:
03/06/2009 at 22:40 (UTC 1)
Það er fyrir neðan belti að hafa hugmyndarík skrif Stefáns Friðriks í flimtingum.