«

»

Molar um málfar LXXXIII

 Mér er lífsins  ómögulegt að  hætta að  agnúast út í  slettuna  outlet,sem  er orðið næsta daglegt  brauð að  sjá og  heyra í  auglýsingum. Í Fréttablaðinu (04.06.09.) er heilsíðu auglýsing frá  fyrirtæki  sem státar  af nafnskrípinu Outlet Center. Þar eru  og enskuslettur: Signatures of Nature – Endorced for you. Ef menn  sletta  ensku   á prenti  er lágmarkskrafa  að þeir  kunni enska  stafsetningu. Auðvitað  eiga   auglýsingar í íslenskum  blöðum að vera á  íslensku.

 Hér  var  nýlega  gerð  athugasemd við  auglýsingu um  siglingar ferjunnar Norrænu milli Íslands, Færeyja og  Danmerkur. Rétt er að  geta þess að  auglýsingin nú hefur  verið  birt að nýju, –   leiðrétt.

Í hádegisfréttum  RÚV (04.06.09.)  mátti heyra  glögg  dæmi um  að fréttamenn hafa  ekki lengur  tengsl  við  framleiðsluatvinnuvegina.  Þannig  kallaði fréttamaður áhöfn  togarans  ,sem  strandaði í innsiglingunni  til Sandgerðis  starfsfólk  og  annar fréttamaður  talaði  um vanfóðrun  sauðfjár  í Álftafirði. Orðið  vanfóðrun hefur áður heyrst   í útvarpi og  er eins   og ágætur maður  benti mér   á, –  pempíumál.   Fréttamanninum, sem  talaði um vanfóðrun,  tókst líka  að rugla saman orðunum eftirmál  og  eftirmáli. Þdessi ruglingur endurtók sig í  tíufréttum RÚV sjónvarps. Nokkrum  sinnum hefur verið bent á í Molum um málfar ólíka merkingu þessara orða.  Það er verkefni  fyrir málfarsráðunaut RÚV  að kenna fréttamönnum muninn á þessum tveimur orðum.  

Þegar  togarinn var  dreginn af strandstað  við Sandgerði  hvolfdi hafnsögubáti, sem  notaður hafði verið  við björgunina. Um  það sagði  fréttamaður  RÚV (04.06.09.) í sexfréttum : Ekki vildi betur til en svo  að lóðsinn  hvolfdi…   Auðvitað hvolfdi lóðsinn engu. Lóðsinum  hvolfdi.

Líklega  hefur þingflokkur  Framsóknarflokksins samþykkt  samræmda  málstefnu.  Ekki heyrði ég betur  þrír  þingmenn flokksins  segðu Mér langar  í  ræðustóli  Alþingis í dag.  Samræmi og samstaða  er fyrir öllu.

  Ágætlega málglöggur  maður benti mér á að í útvarpsviðtali (04.06.09.) hefði  ég  tvívegis  talað um einhverjar vikur. Réttilega  taldi hann þetta úr  ensku  komið.  Á það  get ég  fúslega fallist. Ég hefði betur  sagt nokkrar vikur. Þegar sífellt  er  verið að setja út á aðra  verður maður  að  vera  við því búinn að vera  stöðugt undir  smásjá annarra, og auðvitað er  óralangt frá  því að Molahöfundur sé  óskeikull um málfar og  dynti tungunnar.

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eygló skrifar:

    Gústaf, mikið var þetta skemmtileg pæling hjá þér.  Mér finnst skemmtileg útkoman, að verslun vilji „slá af“ verði á vörum „af slá“. Kæmi kannski illa út í „bílaoutlet„.

    Meira svona fjör : )

  2. Gústaf Hannibal skrifar:

    Ég hef verið að velta fyrir mér hvað gæti verið gott, íslenskt orð yfir „outlet“.

    ordabok.is segir að outlet þýði:

    1. innstunga kv.; rafmagnsinnstunga kv.;

    2. útrennsli h.; úrrennsli h.;

    3. sölustaður k.; búð kv.

    Ekkert þarna dugar. „Outlet“ eru afsláttarbúðir, en það er ef til vill ekki mjög aðlaðandi orð, sem er sennilega ástæða þess að fólk notar slettuna; afsláttarmerkjavöruverslun mun sennilega seint festast í málinu.

    Eftir smá yfirlegu datt mér í hug orðið afslá. Kallast á við „Prêt-à-Porter“, sem er notað yfir tískuvöru sem er fjöldaframleidd, af slá, og síðan er orðið auðvitað stytting á afsláttur.

    Ég er fyrstur til að viðurkenna að orðið er ekki sérlega fallegt, en þó lýsandi.

    Er ekki einhver með betri uppástungu?

  3. Eygló skrifar:

    Sverrir. Hrrrumff – ég fékk einmitt einu sinni vangefið til baka

  4. Sverrir Friðþjófsson skrifar:

     Magnús Geir – og ef fénu er ekki gefið þá er því vangefið!

  5. Steini Briem skrifar:

    Mbl.is: „Ekki er gert ráð fyrir að mengunin fari yfir heilsufarsmörk…“:

    Meginlandsmistur yfir landinu

    Á mannamáli væntanlega:

    Ekki er gert ráð fyrir að mengunin verði hættuleg heilsu manna.

    Hver eru ?heilsufarsmörk? starfsfólks Umhverfisstofnunar?!

    Er það með ?háa veikindatíðni??! Á mannamáli: Veikist það oft?

    Er svona erfitt að tala mannamál á Umhverfisstofnun?! Starfsfólki þar ber skylda til að senda frá sér fréttatilkynningar á mannamáli en ekki stofnanamáli.

  6. Sigurjón Pálsson skrifar:

    Já, mörg er fjólan í fjölmiðlunum. 

    Áðan heyrði ég í viðtali á gömlu gufu að sú sem tók það spurði viðmælandann eitthvað á þá leið, hvort sjómannadeginum sjálfum yrði þá gert nógu „hátt yfir höfuð“ á Hátíð hafsins við Reykjavíkurhöfn um helgina.

  7. Magnús Geir Guðmundsson skrifar:

    Enginn er óskeikull, það er nú svo einfalt!

    Og aftur verð ég svo að segja hér, að mig rekur í rogastans, hef ekki fyrr heyrt þessa orðmynd, „vanfóðra“, hvað þá um sauðfé!(Eða yfir höfuð að það ´sé fóðrað, en því einfaldlega GEFIÐ þegar það þá er í húsi)

  8. Sverrir skrifar:

    Ekkert skortir á málblómin og afdalamennskuna. Þarna er líka Riverside spa. Neðanskráð er afritað af vef hótelsins.

    Riverside restaurant

    Riverside restaurant er staðsettur á Hótel Selfossi. Riverside er nútímalega hannaður, bjartur og einstaklega þægilegur veitingastaður. Þar er lögð rík áhersla á að veita bragðgóðan og safaríkan mat, faglega þjónustu í þægilegu andrúmslofti.

    Út um glerbyggða framhlið Riverside nýtur hver gestur stófenglegs panorama útsýnis yfir Ingólfsfjall og Ölfusá sem rennur fyrir utan gluggann. Einnig er á Riverside bar með notalegri setustofu þar sem gestir geta látið fara vel um sig við snarkandi arineld.

    Skoðaðu okkar glæsilegu matseðla:

    a la carte matseðil

    Hópamatseðlar

    Á Riverside restaurant er borið fram morgunverðarhlaðborð fyrir gesti Hótel Selfoss.  Borðapantanir í síma 480 2500 eða á info@hotelselfoss.is
  9. Eygló skrifar:

    Takk Eiður. Alltaf gleðst ég við lestur pistlanna þinna.  Við erum þjáningasystkin að því leyti að við eigum erfitt með að þola sumt bullið sem ríkisfjölmiðlar og aðrir, bera á borð fyrir okkur.

    Átlettin hafa pirrað mig; Bíla-Outlet og fleiri átlett.

    Það vakti undrun mína þegar ég horfði á gamla frétt, um Jóhannes Kjarval, í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum, að Magnús Bjarnfreðsson spurði listamanninn „…um söfnunina vegna byggingu listaskálans við Klambratún“´.  Mér fannst M.B. alltaf svo „reffilegur“ í sjónvarpi, en kannski var það bara röddin.

    Þú ert sjálfsagt oft búinn að taka á „hellingnum“  Núna nýlega sagði fréttamaður að íslensku stúlkurnar myndu trúlega hellast úr lestinni. Þessi notkun (eflaust vegna vanþekkingar á líkingunni) er frekar regla en undantekning hjá útvarpsfólki, sem er reyndar stundum svo heppið að notuð er þátíð og þá kemst ekkert upp 🙂

    Fréttalesarar Bylgjunnar eru ekki góðir málamenn, svo vægt sé til orða tekið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>