«

»

Molar um málfar LXXXV

  Álpaðist  til að  taka þátt í  könnun, er ég var að leita  að  símanúmeri á ja.is . Hætti þátttökunni af skiljanlegum ástæðum, þegar ég kom  að setningunni, versla föt  eða  fylgihluti.  Það er nefnilega þannig með mig, að ég kaupi  föt. Ég versla aldrei  föt. Það  verslar enginn maður  föt, en  til eru  búðir sem  versla með  föt og þar er hægt að kaupa föt.

  Sama  snilldin  á  Vefdv,sem  skrifar (08.06.09.): Fólk er farið að grýta einnar krónu myntpeningum í Alþingishúsið.  Myntpeningar ! Það var og.  Ekki er ég  ég hissa á að þeir  séu  illa staddir fjárhagslega  sem  þannig  fara með fé.

Úr Vefmogga, mbl.is, (08.06.09.)  Átta líkum af farþegum frönsku flugvélarinnar sem hrapaði í síðustu viku náðust úr Atlantshafinu í dag að sögn brasilískra yfirvalda.  Fastir liðir eins og venjulega, var sagt í útvarpinu í gamla daga. Þetta er ótrúlega illa skrifað.

Meira úr vefmogga (09.06.09.) : „ … Þess vegna teljum við rétt að banna birtingu skoðunarkannana og útgönguspá áður en kjörstöðum lokar,“ segir Lene Hansen. Kjörstöðum lokar ekki.  Kjörstaðir loka  heldur ekki. Betra  væri  að  segja: .. fyrr en eftir  lokun kjörstaða  eða  fyrr en  kjörstöðum hefur   verið lokað. Svo er líka talað um skoðanakannanir, ekki skoðunarkannanir.

Salvör Kristjana Gissurardóttir  Framsóknarbloggari   skrifar  um  það er  fólk  braust inn í húsið  við Fríkirkjuveg 11 og  segir: Núna í kvöld var húsið heimtað aftur úr helju . Hér er  ruglingur  á ferðinni. Sögnin að heimta  beygist heimta, heimtaði  heimtað, þegar  hún  þýðir  að krefjast.  Þegar  sögnin að heimta þýðir að bjarga, oftast nauðuglega,  úr háska beygist hún heimta  heimti  heimt. Það var  væntanlega það  sem  bloggarinn átti við. Í nýlegum bloggpistli kallaði þessi   sami bloggari alla  ríkistjórn íslands landráðamenn.  Framsóknarmenn  kunna sér ekki hóf í orðum og því verða  stóryrði  þeirra um menn og málefni marklaus, verðbólgin orð.

Annar Framsóknarbloggari, Hallur Magnússon skrifar (09.06.09.): Það er eftirsjá af Þorsteini Pálssyni sem ritsjóri Fréttablaðsins.  Hann  á  við að það sé  eftisjá Þorsteini Pálssyni sem ritstjóra  Fréttablaðsins. Undir  það  get ég vissulega  tekið, en ekki mundi ég orða það með þeim hætti sem Hallur  gerir.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. B Ewing skrifar:

    banna birtingu skoðunarkannana og útgönguspá

    Mér finnst orðið útgönguspá vera í rangri tölu, nema kannski ef aðeins ein útgönguspá var gerð…

  2. Steini Briem skrifar:

    Sem betur fer er Benedikt ekki jafn útdauður og geirfuglinn.

    En hann verður kannski stoppaður upp sem síðasti prófarkalesarinn.

  3. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Ég held að hægt sé að grýta hverju sem er en best er vafalaust að kasta fyrsta steininum í glerhúsi. Ég las DV forðum daga í vinnutímanum og þá fór fátt  framhjá okkur prófarkalesurum. Nú er sú stétt hér um bil jafnútdauð og geirfuglinn og metnaður blaðamanna virðist á undanhaldi. En það eru ekki öll dýr kýr. Hins vegar eru allar kýr dýr.

  4. Eygló skrifar:

    …enda stúlkan karlmannsmaki, sterk sem tuddi…  „nýbúinn að bera“   Nema Rebekka hafi fattað þetta og þetta sé nýbúinn sem fluttist að Kálfastöðum.

  5. Rebekka skrifar:

    Þá var stúlkan að reka kúna en hún var nýbúinn að bera kálf.

    Hraust stúlkan að geta borið kálfa sisvona,  nema að kýrin hafi verið að bera hann (kannski á bakinu og var því þreytt og stygg eftir erfiðið).  Nema fleira leynist í setningunni, og að annað hvort stúlkan eða kýrin eru nýbúar og að fréttamanni hafi láðst að taka það fram fyrr.  Þetta er erfitt.  

  6. Eygló skrifar:

    Gæti sætt mig við svona málnotkun hjá dúklagningarmanni, smið, já flestum nema ritara í fréttamiðil.

    Ruglaðist þegar ég ætlaði að telja villurnar.  Fyrirsögninni má þó hlæja að.

  7. Eygló skrifar:

    Grýtir maður ekki grjóti? „Myntpeningum“ hahaha (e.t.v. piparmintur) hélt ég að maður kastaði, henti, fleygði, lét rigna, skutlaði…….

    'banna birtingu niðurstöðu skoðanakönnunar og útgönguspár áður en kjörstöðum verður lokað…….

    Þar að auki, takk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>