«

»

Molar um málfar og miðla 1432

KÞ vakti athygli Molaskrifara á frétt á  visir.is (11.03.2014), en þar segir: Hvert sem afdrif vélarinnar kann að vera, á að teljast ómögulegt að símarnir skuli enn vera tengdir nú þegar fjórir dagar eru liðnir frá því að vélin hvarf. 

Sjá: http://www.visir.is/farsimar-fartheganna-hringja-enn-/article/2014140319750

Hann spyr og er það að vonum: Hvert skyldi afdrifið vera?

KÞ benti einnig á þessa frétt á visir. is (10.03.2014): http://visir.is/donsku-stelpurnar-skorudu-fimm-mork-a-moti-bandarikjunum/article/2014140319865

Hann spyr:

Hvað getur maður sagt? – Molaskrifari svarar: Maður getur eiginlega ekkert sagt eftir að hafa lesið þessi skrif. Þakka ábendingarnar.

 

Í fréttayfirlit Ríkissjónvarps (10.03.2014) var okkur sagt að forsætisráðherra hefði opnað á að utanríkismálanefnd fjallaði um tillögu stjórnarandstöðunnar. Undarlegt orðalag að ekki sé meira sagt. Varla heldur þingfréttamaður  Ríkissjónvarpsins að forsætisráðherra ráði dagskrá og vinnuskipulagi hjá þingnefndum, eða hvað? Framkvæmdavald – löggjafarvald? Þessi fullyrðing var út í hött.

 

Í áttafréttum Ríkisútvarpsins að morgni þriðjudags (11.03.2014) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri um ástandið á Krímskaga að það væri aðkallandi. Ekki er Molaskrifari sáttur við það orðalag. Aðkallandi, áríðandi, er að bregðast við þróun mála á Krímskaga. Í sama fréttatíma var talað um að inna um e-ð. Spyrjast fyrir um e-ð. Venja er að tala um að inna eftir einhverju.

 

Í veðurfréttum Stöðvar tvö (11.03.2014) var sagt frá veðurfari á Neskaupstað. Molaskrifari hefur vanist því að sagt sé í Neskaupstað, enda fara menn í kaupstað, ekki á kaupstað. Á bernskuheimili skrifara var hinsvegar aldrei talað um Neskaupstað, þar sem tvær afasystur bjuggu og fleira frændfólk. Ævinlega var talað um Norðfjörð. Austur á Norðfjörð.

 

Einhver ætti að benda Hönnu Birnu Kristjánsdóttur , innanríkisráðherra, á að hætta að ljúka öllum sjónvarpsviðtölum með einhverskonar frosnu brosi. Það er eitthvað svo ósköp kjánalegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>