«

»

Molar um málfar og miðla 1433

 

Í fréttum Stöðvar tvö (12.03.2014) sagði Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður : ,,Málið er talið svipa til mála,sem upp komu árið 2011 …”. Málið svipar ekki til mála. Málinu er talið svipa til mála, hefði verið betra. Eða: Málið er talið svipað málum, sem ….

 

Í vaxandi mæli er Kastljós Ríkissjónvarpsins lítið annað en eitt viðtal. Ekki ber að lasta þau viðtöl sem flutt hafa verið, en Molaskrifara sýnist sem þrengt sé að Kastljósinu bæði hvað mannafla og fé snertir. Þetta er slæmt og gerist á sama tíma og íþróttadeild Ríkissjónvarpsins blæs út í dagskránni virðist ekki fjár vant. Þar er greinilega úr nógu að spila. Þetta er að mati Molaskrifara röng forgangsröðun, sem nýr útvarpsstjóri ætti að breyta.

 

Annað sem nýr útvarpsstjóri þarf að kippa í liðinn er að taka upp að nýju fréttaflutning á nóttinni. Veit útvarpsstjóri nokkuð hve margt fólk er að vinna að næturlagi vítt og breitt um þjóðfélagið eða yfirleitt hve margir hlusta á útvarp á nóttinni? Okkur er sagt að maður sé á vakt alla nóttina til að flytja tilkynningar, ef vá ber að höndum. Getur það ekki verið fréttamaður? Það er ekki meira en eins manns verk að skrifa stuttar fréttir sem fluttar eru á heila tímanum alla nóttina. Molaskrifari þekkir fréttaskrif svolítið af eigin raun. Það þarf enginn að segja honum að þessu fylgi mikill kostnaður fyrst starfsmaður er á vakt hvort sem er. Það er bara fyrirsláttur. Það er mikill skortur á þjónustulund af Ríkisútvarpsins hálfu að sinna þessu ekki.

 

Sk.GS benti á eftirfarandi úr DV (12.03.2014): Sæll. Hvað getur maður sagt við þessu? Eitruð gös? DV í stuði.

,,Eitruð gös myndast þegar þú pissar í sundi”Ný rannsókn bendir til þess að mjög slæmt sé að pissa ofan í klórblandað vatn. – Molaskrifari þakkar sendinguna. Eins gott að gæta sín!

Rangt var farið með nafn Sigurðar Inga Jóhannssonar í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (13.04.2014). Hann var sagður Jóhannesson. Slíkt getur alltaf komið fyrir, en þá er bara að leiðrétta. Ekki heyrði Molaskrifari að það væri gert í þessum fréttatíma.


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Steini skrifar:

    DV segir í frétt (13.3.) „En Karel Geir hefur búið um árabil í Noregi og er handhafi fullgilds norsks ökuskírteinis, en Bandaríkin er fullgildur aðili að alþjóðasamningum um ökuréttindi og ökuskírteini. Eiga því ökuréttindi eins lands að vera fullgild í öðrum aðildarríkjum samninganna.“

    Þarna skrifar einhver óskrifandi. Endurtekningar á öku- eru fjórar talsins í setningunni, þrjú orð sem enda á eignarfalls -s- (fullgilds norsks ökuskírteinis) og loks þrívegis endurtekið eitthvað með fullgildildingu.

    Semsagt í einni súpu: ökuskírteinis, ökuréttindi, ökuskírteini og ökuréttindi – fullgilds, fullgildur fullgild.

    Sá sem hnoðaði saman þessum ósköpum hefur enga tilfinningu fyrir því sem hann skrifar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>